Nr. 576/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 19. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 576/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21100018
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 9. desember 2019 kærði […], kt. […], ríkisborgari Írans (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. nóvember 2019, um að synja henni um dvalarleyfi fyrir foreldra, sbr. 1. mgr. 69. gr. og 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi var síðast með dvalarleyfi fyrir foreldra með gildistíma til 13. mars 2019. Þann 8. febrúar 2019 sótti kærandi um endurnýjun á því dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. nóvember 2019, var umsókn kæranda synjað. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 180/2020, dags. 22. maí 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2021, var umsókn kæranda að nýju synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 22. september 2021 og hinn 6. október 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinagerð kæranda barst kærunefnd hinn 4. nóvember 2021.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að kærandi hafi verið með dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga þar sem sonur hennar hafi verið með dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laganna. Vísaði Útlendingastofnun til þess að með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. september 2021, hefði umsókn sonar kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi verið synjað. Gæti kærandi því ekki leitt rétt sinn af syni sínum, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð er vísað til atriða sem ekki er þörf á að rekja nánar fyrir úrlausn málsins.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Þá er fjallað um dvalarleyfi fyrir foreldra í 72. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga þar sem sonur hennar var með útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laganna. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 575/2021, hinn 19. nóvember 2021, var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja syni kæranda, sem kærandi byggir rétt sinn til dvalar á Íslandi á, um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 61. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds uppfyllir kærandi ekki skilyrði 69. og 72. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares