Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 500/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 500/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070045

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. júlí 2017 kærði [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2017, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar sem maki aðstandanda EES- eða EFTA-borgara, sbr. 86. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi fer þess á leit við kærunefnd útlendingamála að kæra hennar verði tekin til meðferðar. Fallist kærunefnd á að taka kæruna til meðferðar er óskað eftir fresti til að skila greinargerð með kærunni áður en nefndin tekur málið til úrskurðar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga, en kæra barst utan kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 20. mars 2017. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 23. júní 2017, var umsókn kæranda synjað enda ætti maki kæranda, sem aðstandandi EES- eða EFTA-borgara, ekki rétt á fjölskyldusameiningu samkvæmt lögum um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 18. júlí sl. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 2. ágúst 2017.

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að veigamiklar ástæður mæli með því að kærunefndin taki kæru hennar til meðferðar þótt hún hafi borist utan kærufrests, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að eftir að Útlendingastofnun hafi tilkynnt henni um niðurstöðu sína hafi maki hennar leitað til Útlendingastofnunar og óskað eftir að fá afrit af gögnum málsins. Honum hafi hins vegar ekki verið veittar upplýsingar um það hvort kærandi hafi sótt um dvalarleyfi á röngum grundvelli. Áður en kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi hafi maki hennar enn fremur haft samband við Útlendingastofnun til að kanna hvort hann ætti að sækja um ótímabundið dvalarleyfi á nýjum grundvelli. Starfsmaður Útlendingastofnunar hafi ráðið honum frá því og tjáð honum að hann þyrfti þá jafnframt að yfirgefa landið Ljóst sé að kærandi og maki hennar hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar við umsóknarferlið og að Útlendingastofnun hafi ekki framfylgt leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvort sambærilegt mál hafi verið tekið fyrir hjá kærunefndinni áður. Kærandi sé eiginkona manns sem hafi áður verið í hjónabandi með EES-borgara. Maki kæranda hafi búið hér á landi til fjölda ára og sé með ótímabundið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við [...] sína. Kærandi og maki hennar leitist við að sameinast hér á landi á grundvelli 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Í lögum um útlendinga sé ekki fjallað um hvernig fara eigi með umsókn kæranda við umræddar aðstæður og að um lagalegt tómarúm sé að ræða. Þá telur kærandi að lögjöfnun leiði til þeirrar niðurstöðu að í dvalarrétti maka kæranda felist réttur til fjölskyldusameiningar fyrir nýjan maka. Ef ætlunin hafi verið að rétthafar ótímabundins dvalarleyfis á grundvelli 88. gr. laga um útlendinga ættu ekki rétt á fjölskyldusameiningu fyrir nýjan maka hefði löggjafanum verið í lófa lagið að taka það fram með skýrum hætti í lögunum. Telur kærandi að um stefnumarkandi mál sé að ræða sem auki mikilvægi þess að kærunefndin taki málið til skoðunar.

Í þriðja lagi byggir kærandi á því að niðurstaða Útlendingastofnunar hafi verið byggð á röngum forsendum. Útlendingastofnun hafi litið svo á að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi sem maki aðstandanda EES-borgara. Maki kæranda sé hins vegar skilinn við fyrrverandi eiginkonu sína og því vandséð hvernig hann geti talist aðstandandi EES-borgara.

Í fjórða lagi byggir kærandi á því að hún sé eini aðili málsins. Fræðimenn hafi talið að í slíkum tilvikum séu ekki skilyrði til þess að túlka skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga þröngt. Að auki varði kæran afar mikilvæga hagsmuni kæranda, þ.e. réttinn til fjölskyldulífs, sem njóti meðal annars verndar 71. gr. stjórnarskrár.

Þá kemur fram að maki kæranda hafi dvalið hér á landi í [...] og uppfylli sjö ára búsetuskilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar [...] . Það veki furðu að einstaklingur sem hafi dvalið og unnið hér á landi í svo langan tíma eigi hvorki rétt til fjölskyldusameiningar né fái ekki fullnægjandi leiðbeiningar við umsóknarferlið.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu skal útlendingur kæra ákvörðun innan 15 daga frá því að honum var kynnt ákvörðun. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun var kæranda afhent ákvörðun stofnunarinnar þann 29. júní 2017, en kærandi kærði ákvörðunina þann 18. júlí 2017. Er því ljóst að kæran barst utan þess 15 daga kærufrests sem mælt er fyrir um í 7. gr. laga um útlendinga.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um viðbrögð stjórnvalda við kæru sem berst að liðnum kærufresti. Við þær aðstæður skuli vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Málsástæður kæranda lúta aðeins því að veigamiklar ástæður mæli með því að kærunefnd taki mál hennar til meðferðar.

Kærandi byggir m.a. á því að Útlendingastofnun hafi veitt maka hennar ófullnægjandi leiðbeiningar vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi og að stofnunin hafi þannig brotið gegn leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Þá telur kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið reist á röngum forsendum, enda hafi stofnunin litið svo á að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi sem „maki aðstandanda EES- eða EFTA-borgara“.

Í 69. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að nánasti aðstandandi útlendings, sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. getur með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Eins og fram er komið hefur maki kæranda ótímabundið dvalarleyfi skv. 88. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um rétt aðstandenda sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar til ótímabundinnar dvalar, en dvalarleyfi samkvæmt því ákvæði er ekki tilgreint í 1. mgr. 69. gr. sem grundvöllur fyrir fjölskyldusameiningu. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að áður en hún hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi hafi maki hennar haft samband við Útlendingastofnun og kannað hvort hann ætti að sækja um ótímabundið dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Honum hafi hins vegar verið ráðið frá því og tjáð að hann þyrfti einnig að yfirgefa landið við umsóknina.

Af XI. kafla laga um útlendinga er ljóst að einstaklingar sem hafa dvalarleyfi samkvæmt 88. gr. laga um útlendinga hafa engan sjálfstæðan rétt til fjölskyldusameiningar á grundvelli ákvæða þess kafla, en réttur til fjölskyldusameiningar er bundinn við ákvæði VIII. kafla laganna. Þótt maki kæranda kunni að eiga rétt til að sækja um ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laganna, og öðlast rétt til fjölskyldusameiningar á þeim grundvelli, er það mat kærunefndar að þær leiðbeiningar sem maki kæranda kann að hafa fengið hjá Útlendingastofnun og hugsanlegir ágallar á þeim séu ekki þess eðlis að veigamiklar ástæður séu til að taka kæru kæranda til meðferðar á þeim forsendum.

Kærandi byggir kröfu sína jafnframt á því að um stefnumarkandi mál sé að ræða, en aðstæður kæranda og maka hennar séu í lagalegu tómarúmi. Að mati kærunefndar verða hagsmunir aðila af úrlausn málsins ekki einir og sér taldir svo veigamiklir að rétt sé að víkja frá kærufresti vegna þeirra eða vegna þess að kærandi er eini aðili málsins. Samkvæmt öllu framansögðu er það mat kærunefndar að ekki séu veigamiklar ástæður í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga til að taka kæru kæranda til meðferðar. Kærunni er því vísað frá kærunefnd sem of seint framkominni.

Rétt er að leiðbeina kæranda um það að hún getur lagt fram nýja umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar telji hún maka sinn uppfylla rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga, eftir atvikum að undangenginni umsókn og útgáfu ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laga honum til handa. Synji stofnunin kæranda á ný um dvalarleyfi er sú ákvörðun kæranleg til kærunefndar útlendingamála.

 

Úrskurðarorð

Kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

The appeal of the decision of the Directorate of Immigration is deemed inadmissible.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                     Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta