Forsetakjörið fer vel af stað
Kosningar til embættis forseta Íslands standa yfir í dag og hefur framkvæmd þeirra farið vel af stað. Alls eru 235.784 á kjörskrá og þar af er fjöldi kjósenda í Reykjavík 89.912. Fyrir utan Reykjavíkurkjördæmin eru flestir kjósendur í Suðvesturkjördæmi eða 62.084 en fæstir í Norðvesturkjördæmi, 21.374. Alls höfðu yfir 35 þúsund manns kosið utan kjörfundar í gærkvöld.
Fulltrúar innanríkisráðuneytisins heimsóttu aðsetur yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í Ráðhúsinu í Reykjavík. Formaður hennar er Katrín Theodórsdóttir og sagði hún framkvæmd hafa gengið vel þar.
Kristinn Þorbergsson, formaður hverfiskjörstjórnar í Ráðhúsinu, er á myndinni hér til hliðar með sínu fólki í önnum.
Á myndinni eru frá vinstri Katrín Theodórsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, Sjöfn Ingólfsdóttir, sem einnig situr í kjörstjórn, Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri.