Hoppa yfir valmynd
12. desember 2019 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Framlag íslenskra stjórnvalda til Alþjóðaráðs Rauða krossins kynnt

Anna Jóhannsdóttir, formaður sendinefndar Íslands og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands - mynd

Íslensk stjórnvöld og Rauði kross Íslands tilkynntu um sameiginlegar skuldbindingar sínar um aðgerðir og markmið í þágu Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans til næstu fjögurra ára. Í þeim er lögð rík áhersla á forvarnir og stuðning við baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi í vopnuðum átökum og aðgerðir vegna mansals.

Fundur Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans fer nú fram í Genf en í ár er því fagnað að 70 ár eru liðin frá samþykkt Genfarsamninganna og 95 ár eru liðin frá stofnun Rauða kross Íslands (RKÍ). Á fundinum tilkynntu íslensk stjórnvöld og RKÍ um sameiginlegar skuldbindingar sínar um aðgerðir og markmið í þágu Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Í þeim er lögð rík áhersla á forvarnir og stuðning við baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi í vopnuðum átökum og aðgerðir vegna mansals. 

Í samræmi við ákall Alþjóðaráðsins verður fjörutíu milljónum króna varið til baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi í vopnuðum átökum með áherslu á Suður-Súdan. Þá verður aukin áhersla lögð á baráttu gegn mansali innanlands í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda, með eflingu sérkunnáttu fagaðila, samhæfingu verklags og viðbragða. Fimm milljónum verður varið til vitundarvakningar og fræðslu með sérstakri áherslu á réttindi erlendra launþega.

Íslensk stjórnvöld og Rauði kross Íslands hafa enn fremur sett sér markmið um að auka viðbragðsgetu vegna náttúruhamfara og stórslysa á norðurslóðum. Sérstaklega er horft til þess að styrkja samfélög á þessu svæði í samstarfi við önnur ríki og félög Rauða krossins á norðurslóðum. Norðurlöndin og norrænu Rauðakrossfélögin settu einnig fram sameiginlegar skuldbindingar varðandi umhverfisvernd við mannúðaraðgerðir og lágmörkun skaða með tilliti til loftslagsáhrifa.

Á fundinum töluðu Anna Jóhannsdóttir, formaður sendinefndar Íslands, og Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands fyrir auknum hlut kvenna í stjórnunarstöðum á alþjóðavettvangi hreyfingarinnar. Þá lögðu þær áherslu á að áfram verði talað af festu og virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindalögum til að vernda almenna borgara, þar á meðal konur og börn gegn kynferðislegu ofbeldi.

Ræða Íslands á fundinum.

  • Anna Jóhannsdóttir - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta