Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði öryggisráð SÞ

Utanríkisráðherra ávarpaði öryggisráð SÞ - myndUN Photo/Mark Garten

Ungt fólk, friður og öryggi var meginþemað í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ávarpaði í opinni umræðu í New York í dag. Í ræðu sinni kom Guðlaugur Þór inn á þátt og mikilvægi ungs fólks í umræðu um frið og öryggi, og væntingar þess til lífsviðurværis og velsældar.

„Ungt fólk í dag, um 1,8 milljarður, er betur tengt og upplýst en nokkru sinni fyrr. Það þekkir og getur borið saman ólíka heimshluta - það veit og sér hvar stjórnvöld og lýðræði virka, en það veit einnig hvar skortur fyrirfinnst og hvernig mannréttindabrot og ójafnrétti grafa undan friði og hagsæld,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ræðu sinni.



Utanríkisráðherra benti jafnframt á að allur meginþorri ungs fólks vilji láta gott af sér leiða, sé friðsamlegt og annt um umhverfi sitt. Engu að síður sé tilhneiging til að horfa á unga fólkið sem vandamál fremur en samverkafólk og umræðan í fjölmiðlum gefi oft ranga mynd af ungum karlmönnum. „Samfélag sem gefur ungu fólki hlutverk og leyfir því að taka þátt er líklegra til að búa við frið,“ sagði Guðlaugur Þór ennfremur.


Þá átti utanríkisráðherra fund með nýjum utanríkisráðherra Póllands, Jacek Czaputowicz, og voru tvíhliða samskipti ríkjanna, öryggismál, orkumál og uppbyggingarsjóður EES til umfjöllunar. Einnig kom Guðlaugur Þór inn á framkvæmd EES samningsins og tveggja stoða fyrirkomulag hans, sem og nauðsyn þess að vestræn ríki sýni samstöðu sín á milli sem út á við, til dæmis þegar kemur að tollum á innri markaði Evrópu.

„Samskipti Íslands og Póllands markast mjög að því að um 12.000 Pólverjar búa á Íslandi og hafa auðgað okkar samfélag í gegnum áratugina. Þá er Pólland vaxandi markaður fyrir íslenskar vörur og þjónustu og ferðamennska milli landanna hefur færst í aukana á umliðnum árum. Við erum bandamenn í Atlantshafsbandalaginu og Íslendingar munu aldrei gleyma því þegar Pólland rétti okkur vinarhönd á erfiðum tíma í fjármálahruninu,“ segir Guðlaugur Þór.

Ræða ráðherra

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 16 Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta