Réttarstaða atvinnuleitenda bætt sem og starfsfólks við aðilaskipti
Þátttaka atvinnuleitanda í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði skerðir ekki lengur rétt hans til atvinnuleysisbóta, samkvæmt frumvarpi velferðarráðherra sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Einnig hefur verið samþykkt breyting á lögum sem bætir réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti í kjölfar gjaldþrots fyrirtækis.
Frumvarp velferðarráðherra sem samþykkt var á Alþingi 2. september síðastliðinn felur í sér breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 77/2002.
Atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eiga rétt til atvinnuleysisbóta í fjögur ár að hámarki. Til þessa hefur sá tími sem þeir taka þátt í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum dregist frá bótatímabilinu og stytt það sem honum nemur.
Samkvæmt lagabreytingunni gengur atvinnuleitandi ekki lengur á rétt sinn til atvinnuleysisbóta með þátttöku í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði. Er þá gert ráð fyrir að viðkomandi fái greidd laun frá vinnuveitanda á þessum tíma sem eru hærri en nemur grunnatvinnuleysisbótum.
Betri réttarstaða starfsfólks við aðilaskipti
Með breytingu Alþingis á lögum um aðilaskipti er bætt réttarstaða starfsmanna þegar fyrirtæki sem þeir starfa hjá eru tekin til gjaldþrotaskipta og þrotabúið síðar selt. Oftar en ekki tilkynnir skiptastjóri við upphaf skiptameðferðar að þrotabúið taki ekki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum starfsmanna. Samkvæmt lagabreytingunni ber að virða þau launakjör og starfsskilyrði sem giltu hjá fyrri vinnuveitanda á þeim degi sem úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp. Kaupandi þrotabús hefur áfram svigrúm við að endurskipuleggja rekstur fyrirtækis sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta með uppsögnum á starfsfólki. Til að vernda starfsfólk við þær aðstæður er kveðið á um að komi til endurráðningar innan þriggja mánaða frá aðilaskiptunum skuli virða launakjör og starfsskilyrði þess eins og þau voru við gjaldþrot fyrirtækisins.
Uppbót á atvinnuleysisbætur
Með samþykkt Alþingis á frumvarpi velferðarráðherra er honum veitt heimild til að ákveða í reglugerð að greidd sé uppbót á atvinnuleysisbætur í desember ár hvert. Höfð verður hliðsjón af þeim reglum sem gilda almennt um desemberuppbót í almennum kjarasamningum. Atvinnuleitandi getur ekki fengið fulla uppbót samtímis frá Atvinnuleysistryggingasjóði og vinnuveitanda heldur verða greiddar hlutfallslegar bætur í samræmi við atvinnuþátttöku eða tímabil á atvinnuleysisskrá eftir því sem það á við.
Styrkari eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar
Umræddar lagabreytingar fela einnig í sér að eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar verða styrktar svo betur megi fyrirbyggja bótasvik í tilvikum þar sem sótt er um atvinnuleysisbætur og þær greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga.