Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 1168/2024 Úrskurður

Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1168/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24050048

 

Kæra […]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. maí 2024 kærði […], fd. […], ríkisborgari Gana ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. apríl 2024, um að synja umsókn hans um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hans um dvalarrétt á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur ekki verið með dvalarleyfi hér á landi. Hinn 2. maí 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarrétt á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 86. gr., sbr. 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga, á grundvelli þess að faðir hans sé spænskur ríkisborgari búsettur hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. apríl 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli þess að ekki hefðu verið lögð fram fullnægjandi fylgigögn, sbr. 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi verið veittur frestur til að leggja fram fullnægjandi fylgigögn en gögnin hefðu ekki borist stofnuninni. Hafi kæranda því ekki tekist að sýna fram á að hann uppfylli skilyrði XI. kafla laga um útlendinga um dvalarrétt fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara. Hin kærða ákvörðun var birt kæranda 22. apríl 2024. Hinn 6. maí 2024 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar. Kærandi lagði ekki fram greinargerð vegna málsins hjá kærunefnd en lagði fram viðbótargögn 4. júlí 2024.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð hjá kærunefnd. Meðal fylgigagna sem lögð voru fram hjá nefndinni eru fæðingarvottorð kæranda og umsókn kæranda um dvalarleyfi, sem lágu fyrir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, ásamt yfirlýsingu frænda kæranda um hjúskaparstöðu kæranda, dags. 20. mars 2024.


 

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga kemur fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla laganna hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 82. gr. falla niðjar viðkomandi borgara, maka hans eða sambúðarmaka í beinan legg sem er yngri en 21 árs eða á framfæri borgarans undir hugtakið aðstandandi. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 82. gr. falla ættingjar viðkomandi borgara, maka eða sambúðarmaka hans í beinan legg sem eru á framfæri borgarans einnig undir aðstandendahugtakið.

Í 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga er kveðið á um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir EES- eða EFTA-borgara. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. hefur EES- eða EFTA-borgari rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af skilyrðum a-d liðar ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. geta útlendingar sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara notið dvalarréttar á landinu á meðan réttur EES- eða EFTA-borgarans til dvalar varir. Útgáfa dvalarskírteina til handa útlendingum sem falla undir 86. gr. laga um útlendinga grundvallast á 90. gr. laga um útlendinga en í a-d-lið 2. mgr. 90. gr. er kveðið á um fylgigögn sem leggja skuli fram samhliða umsókn um dvalarskírteini, nánar tiltekið gilt vegabréf, gögn sem staðfesta fjölskyldutengsl sem grundvöll dvalarréttar, skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem fjölskyldusameining grundvallast á, svo og staðfesting á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hins.

Í máli kæranda reynir einkum á b-lið 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga er varðar fylgigögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var bent á tiltekið misræmi í fylgigögnum með umsókn kæranda um dvalarleyfi. Útlendingastofnun vísaði til misræmis í skráningu nafns móður kæranda á vegabréfi og fæðingarvottorði kæranda og misræmis í skráningu nafns föður kæranda á fæðingarvottorði kæranda og hjá þjóðskrá hér á landi. Þá var einnig misræmi í yfirlýsingu um hjúskaparstöðu kæranda þar sem nafngreindur karlmaður er tilgreindur sem móðir kæranda sem er ekki í samræmi við skráningu móður kæranda í fæðingarvottorði. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun óskaði stofnunin jafnframt eftir staðfestingu á því hvort kærandi væri staddur hér á landi og hefði sjálfur undirritað umsókn sína. Með tölvubréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 14. febrúar 2024, var kæranda veittur 15 daga frestur til að leggja fram skýringar á framangreindu misræmi fyrir töku ákvörðunar hjá Útlendingastofnun. Frekari gögn voru ekki lögð fram af hálfu kæranda og tók Útlendingastofnun ákvörðun um synjun umsóknarinnar 22. apríl 2024. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 8. maí 2024, var kæranda veittur frekari frestur til að leggja fram gögn. Kærandi lagði fram nýja yfirlýsingu um hjúskaparstöðu sem er undirrituð af nafngreindum manni sem kveðst vera frændi kæranda. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn né skýringar á framangreindu misræmi fylgigagna.

Af framangreindu leiðir að nokkuð misræmi er í gögnum sem kærandi hefur lagt fram til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem liggja til grundvallar umsókn hans um dvalarskírteini. Kærandi hefur fengið skýrar leiðbeiningar hjá Útlendingastofnun og nægt ráðrúm til að leggja fram umbeðin gögn og skýringar, til að honum sé unnt að uppfylla kröfur b-lið 90. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir þetta eru fylgigögn umsóknar kæranda enn ófullnægjandi og verður dvalarréttur á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga ekki reistur á umræddum tengslum, sbr. einkum b-lið 2. mgr. 90. gr. og b-lið 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga.


 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta