Samgönguráðherra á norrænum sveitarstjónarráðherrafundi
Á fundinum var rætt um leiðir til að efla þjónustu sveitarfélaganna, tryggja gæði hennar og skilvirkni. Samgönguráðherra greindi í því sambandi frá áætlunum stjórnvalda um að færa verkefni á sviði málefna fatlaða og öldrunarþjónustu yfir til sveitarfélaganna og væntingum um að með því að slík þjónusta sé rekin á einni hendi sveitarfélaganna skapist tækifæri til aukinnar samþættingar og heildstæðari þjónustu. Þá ræddu sveitarstjórnarráðherrarnir um ýmis aðkallandi viðfangsefni á sviði sveitarstjórnarmála, fyrirhugaða lagasetningu og samstarfsverkefni.
Þó að sveitarstjórnarkerfin séu mismunandi á milli ríkjanna og aðstæður um margt ólíkar eru viðfangsefnin engu að síður sambærileg, svo sem varðandi stærð sveitarfélaga, verkefni, tekjustofna og jöfnunarkerfi. Því er ljóst að ríkin geta dregið lærdóm hvert af öðru á þessum sviðum. Rætt var um leiðir til að samræma betur framsetningu upplýsinga um málefni sveitarfélaga svo auka megi tækifæri til samanburðar milli sveitarstjórnarkerfanna.
Ráðherra sveitarstjórnarmála í Finnlandi, Mari Kiviniemi kynnti fyrir ráðherrunum fyrstu drög að skýrslu sem hún hefur unnið að beiðni ráðherraráðs Evrópuráðsins varðandi ávinning og framtíð þess sveitarstjórnarsamstarfs sem fram fer á vettangi Evrópuráðsins. Skýrslunni verður lokið um næstu áramót og hún tekin til umræðu á sveitarstjórnarráðherrafundi Evrópuráðsins haustið 2009.