Alþjóða heilbrigðisdagurinn 7. apríl
Alþjóðaheilbrigðisdagurinn verður að venju haldinn 7. apríl nk. í aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Einkunnarorð dagsins í ár eru Samstarf í þágu heilbrigðis (Working together for Health). WHO hefur mælst til þess að athyglinni verði sérstaklega beint að vandamálum heilbrigðisstarfsfólks og mönnun heilbrigðisþjónustunnar víða um heim. Margvíslegur vandi steðjar að í starfsmannamálum og aðgerðir til þess að sporna gegn brottflutningi heilbrigðisstarfsmanna í ákveðnum heimshlutum krefjast samstöðu og samvinnu margra aðila innan ríkjanna og á heimsvísu.
Forsvarsmenn WHO benda á að hlutfall heilbrigðisstarfsfólks á íbúa sé mjög breytilegt frá einu svæði til annars í heiminum í dag. Í OECD-löndunum eru til að mynda heilbrigðisstarfsmenn 10 – 15 sinnum fleiri að meðaltali á íbúa en í löndum Afríku sunnan Sahara. Sérmenntað heilbrigðisstarfsfólk í þessum löndum leitar í vaxandi mæli til ríkari landa þar sem laun og annar aðbúnaður er mun betri en í fátæku löndunum. Afleiðingin er sú að ekki er hægt að halda uppi nægilega góðri heilbrigðisþjónustu í þróunarlöndunum og heilbrigðisástandið í þessum löndum fer versnandi.
Forstjóri WHO Dr. LEE Jong-wook staðhæfir að skortur á heilbrigðisstarfsmönnum geti m.a. haft mikil áhrif á viðbúnað gagnvart hugsanlegum heimsfaraldri inflúensu, rýrt möguleika ríkja til þess að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og dregið úr árangri WHO í baráttunni við þá sjúkdóma sem helst þjaka íbúa heimsins.
Dagskrá:
Morgunverðarfundur föstudaginn 7. apríl á Grand Hótel kl. 08:15 – 10:00
Fundarstjóri: Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri.
08:15 – 08:30 Morgunkaffi
Dagskráin hefst kl. 08:30
08:30 – 08:40 Ávarp.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
08:40 – 08:55 Mannauður og heilsa.
Sigurður Guðmundsson, landlæknir.
08:55 – 09:10 Heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi –
staða og spár um þróun mannafla.
Sólveig Jóhannsdóttir, hagfræðingur.
Harpa Guðnadóttir, hagfræðingur.
09:10 – 09:25 Aðgerðir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til að ráða bót á mönnunarvanda heilbrigðisþjónustu víða um heim.
Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri.
09:25 – 09:40 Þróunaraðstoð Íslands á sviði heilbrigðismála.
Geir Gunnlaugsson, læknir.
09:40 – 10:00 Umræður og fyrirspurnir