Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf á sviði forvarna í fjölskyldumálum

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Reykjanesbær hafa tekið höndum saman og gert samstarfssamning á sviði forvarna í fjölskyldumálum. Samstarfssamningurinn hefur það að markmiði að veita börnum og fjölskyldum þeirra ráðgjöf, meðferð og aðstoð sem stríða við geðkvilla eða sálræn og félagsleg vandamál. Miðað er við börn sem eru tíu ára og yngri.

Allir íbúar Suðurnesja eiga aðgang að þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), en markmiðið með Reykjanesbæjar með þátttöku í verkefninu er að auka þjónustu við íbúa Reykjanesbæjar, auka samvinnuna við HSS, og  skapa samfellu í Reykjanesbæ milli greiningarvinnu, aðgerðaáætlunar og úrræða í  kjölfar hennar.

Samkvæmt samstarfssamningnum leggur Heilbrigðisstofnunin til eitt og hálft stöðugildi sérfræðinga í sálfélagslega teymið og Reykjanesbær leggur til eitt stöðugildi sérfræðinga á móti stofnuninni. Samtals eru því tvö og  hálft stöðugildi ætluð í verkefnið.

Stöðugildi  það sem Reykjanesbær leggur til er fullt starf sálfræðings sem sinnir íbúum Reykjanesbæjar. Stöðugildi þau sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja leggur til eru sálfræðingur, iðjuþjálfi og félagsráðgjafi sem allir verða í hálfu starfi. Þeir sinna íbúum Suðurnesja og heyra undir yfirlækni heilsugæslunnar.

Sérfræðingurinn sem Reykjanesbær leggur til þessarar mikilvægu þjónustu verður til húsa í húsakynnum Reykjanesbæjar og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem sérfræðingar stofnunarinnar starfa.

Samstarfsverkefnið sem nú er hrint í framkvæmda er einnig rannsóknaverkefni. Þetta þýðir að mælanlegur árangur þjónustunnar sem nú verður boðið upp á verður frá upphafi metinn með vísindalegum  hætti í samvinnu við sérfræðinga á Námsmatsstofnun og í Háskóla Íslands. Deildarstjóri sérfræðiþjónustu hjá Reykjanesbæ er verkefnisstjóri í þeim hluta verkefnisins sem snýr að  rannsóknaþættinum.

Það voru þau Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri, í Reykjanesbæ sem undirrituðu samstarfssamninginn sem gildir til árs frá undirritun, en þá verður hann endurskoðaður. Binda bæði mikilar vonir við þjónustuna sem samstarfssamningurinn tryggir. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, var viðstödd þegar samstarfssamningurinn var formlega undirritaður í gær.

 

Sjá vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja: http://www.hss.is/

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta