Hoppa yfir valmynd
15. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

30 milljónum úthlutað úr starfsmenntasjóði

Ráðherra við afhendingu styrkja úr starfsmenntasjóðiÁrni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti í dag úthlutun 30 milljóna króna úr starfsmenntasjóði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Úthlutað var til 17 verkefna, alls um 25 milljónum króna. Að auki var ráðgjafasviði Vinnumálastofnunar veittur fimm milljóna króna styrkur til úrræða fyrir atvinnulausa á höfuðborgarsvæðinu. Markmið styrkveitinganna er að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi.

Auglýst var eftir umsóknum um verkefni tengd erfiðri stöðu á vinnumarkaði sem nýtast þeim hópum sem misst hafa atvinnu eða eru í sérstakri áhættu með að missa vinnuna. Gerð var krafa um samstarf við samtök atvinnurekenda og launafólks við gerð og framkvæmd verkefna. Alls bárust umsóknir um styrki frá 31 aðila til 49 verkefna.

Af einstökum verkefnum sem fengu styrk úr starfsmenntasjóði var verkefni Rafiðnaðarskólans ehf., „Endurmenntun til starfa á nýju sviði“ sem hefur það að markmiði að auka möguleika rafiðnaðarmanna sem misst hafa atvinnu á að skipta um starfsumhverfi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Rafiðnaðarsamband Íslands og Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði.

Ráðherra sagði við afhendingu styrkjanna að mikið starf væri framundan við uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs þar sem byggt væri á raunverulegri sköpun verðmæta. Hann sagði alla þurfa að átta sig á þeirri staðreynd að uppbygging atvinnulífs sem grundvallaðist á eignabólu eins og uppgangur hins svo kallaða góðæris kæmi ekki til greina. Framtíðin fælist í sjálfbæru atvinnulífi og raunverulegri verðmætasköpun.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta