Hoppa yfir valmynd
15. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýjar leiðir til að fjármagna uppbyggingu hjúkrunarrýma

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur fengið heimild ríkisstjórnarinnar til að vinna að hugmyndum um nýjar leiðir til að fjármagna uppbyggingu hjúkrunarrýma. Stefnt er að að uppbygginu um 360 hjúkrunarrýma á árunum 2010-2012 og er áætlaður kostnaður verkefnisins um 9 milljarðar króna.

Hugmyndirnar byggjast á því að Íbúðalánasjóði verði heimilað að lána sveitarfélögum fé til uppbyggingar hjúkrunarrýma sem geti numið allt að 100% af framkvæmdakostnaði. Forsenda lánveitinga er að samningur hafi verið gerður milli félags- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis annars vegar og sveitarfélags hins vegar um leigugreiðslur til 40 ára. Þá er miðað við að Framkvæmdasýslu ríkisins verði falið að fylgjast með því að framkvæmdir vegna uppbyggingar hjúkrunarrýma uppfylli kröfur félags- og tryggingamálaráðuneytisins til húsnæðis af þessum toga.

Sú leið sem hér hefur verið lýst krefst breytinga á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, til að veita Íbúðalánasjóði heimild til lánveitinga vegna uppbyggingar hjúkrunarrýma. Þá er ráðgert að breyta tímabundið lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra sem heimili að greiða rekstrarkostnað vegna þessara rýma á árunum 2012 og 2012 þannig að aukinn rekstrarkostnaður falli ekki á ríkissjóð.

Þau hjúkrunarrými sem áætlað er að koma á fót með þessu fyrirkomulagi eru í níu sveitarfélögum. Flest þeirra, 224, verða í sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur, þ.e. á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Reykjanesbæ, en einnig er ráðgerð uppbygging rýma á Akureyri, Fljótsdalshéraði og í Borgarbyggð. Um 200 rými eiga að leysa fjölbýlisrými af hólmi, þannig að af áætluðum heildarfjölda verða um 160 ný hjúkrunarrými. 

Félags- og tryggingamálaráðherra hitti forsvarsmenn þessara sveitarfélaga á fundi í dag og kynnti þeim hugmyndir sínar. Sameiginleg niðurstaða fundarins var sú að unnið yrði áfram að undirbúningi verkefnisins af krafti, með það að markmiði að unnt verði að ganga frá samkomulagi um framkvæmdirnar sem fyrst.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta