Hoppa yfir valmynd
11. september 1997 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 54/1997

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 54/1997

 

Skipting sameiginlegs kostnaðar: bílskúr.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1997, beindi A, til heimilis að X nr. 83, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, til heimilis að X nr. 81 og C, til heimilis að X nr. 85, hér eftir nefndir gagnaðilar, um greiðsluskyldu á hitareikningum vegna bílskúra.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 6. ágúst sl. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 19. ágúst var lögð fram á fundi kærunefndar 3. september sl. Á þeim fundi var einnig lagt fram bréf álitsbeiðanda móttekið 1. september sl. þar sem fram komu athugasemdir álitsbeiðanda við greinargerð gagnaðila. Á fundinum var erindið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Á lóð fasteignanna nr. 77, 79, 81, 83 og nr. 85, 87, 89 og 91 standa 8 sambyggðir bílskúrar. Sameiginlegt hitakerfi er í skúrunum og einn hitamælir fyrir þá alla sem staðsettur er í einum þeirra. Hitakostnaður skiptist jafnt milli eigenda enda eru bílskúrarnir allir jafn stórir. Álitsbeiðandi er eigandi eins þessara bílskúra. Í lok september 1996 aftengdi hann ofn í bílskúr sínum og tilkynnti í kjölfarið Landsbanka Íslands, sem sá um greiðslu hitareikninga og innheimtu fyrir eigendur bílskúranna, að honum bæri ekki að greiða hluta í sameiginlegum hitakostnaði.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda beri ekki að greiða hluta í sameiginlegum hitakostnaði vegna bílskúranna.

 

Af hálfu álitsbeiðanda kemur fram að ástæða þess að hann aftengdi ofninn hafi verið sú að hann dvelji langdvölum erlendis. Þannig hafi hann viljað koma í veg fyrir að það frysi í skúrunum m.a. vegna vatnsleysis. Álitsbeiðandi kveðst ekki hafa í hyggju að hafa hita á bílskúrnum framvegis. Þá hafi hann í huga að einangra sérstaklega milliveggi bílskúrsins. Þar sem notkun á hita í bílskúr álitsbeiðanda væri engin bæri honum ekki að greiða í sameiginlegan hitakostnað vegna bílskúranna. Í því sambandi vísar hann til C- liðar 45. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Af hálfu gagnaðila er þess krafist að álitsbeiðandi haldi áfram að taka þátt í sameiginlegum hitakostnaði. Telja þeir ótvírætt að álitsbeiðanda beri að gera það með vísan til B-liðar 5. tl. 45. gr. laga um fjöleignarhús. Á það er bent að með því að álitsbeiðandi hætti að hita bílskúrinn megi búast við því að mikill kuldi verði í veggjum sem snúi að bílskúrum gagnaðila þannig að þeir geti orðið fyrir tjóni. Fordæmi sem slík háttsemi skapaði geti leitt til þess að aðrir bílskúrseigendur gerðu hið sama og þar með yrði hætta á skemmdum á öllum sambyggðu bílskúrunum.

 

III. Forsendur.

Í málinu liggur fyrir að eigendur bílskúra þeirra sem hér um ræðir samþykktu einróma á sínum tíma að setja hitaveitu í bílskúrana. Um er að ræða sameiginlegt hitakerfi með einum notkunarmæli og er hitakostnaði skipt jafnt.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi, sem og aðrir eigendur, ráði sjálfir hitastigi í bílskúrum sínum enda sé ekki sýnt fram á að með því skapist hætta á skemmdum eða meiri röskun en eðlilegt má telja, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 27. gr. sömu laga. Í máli þessu er til þess að líta að hætta sýnist vera á því fyrirfram að sú ráðstöfun álitsbeiðanda að aftengja ofn í bílskúr sínum kunni að skapa hættu á óeðlilegri röskun fyrir eigendur aðliggjandi bílskúra, fyrst og fremst með auknum hitunarkostnaði þeirra, sem útilokar þá þegar beitingu C-liðar 45. gr. laga nr. 26/1994.

Auk þess er það svo, eins og áður hefur komið fram, að á sínum tíma var tekin um það lögmæt ákvörðun af eigendum öllum að í bílskúrunum yrði sameiginlegt hitakerfi, með einum notkunarmæli og jafnskiptum hitakostnaði. Álitsbeiðandi getur því ekki upp á sitt eindæmi ákveðið aðra skipan mála, enda útheimtir slík breyting löglega ákvarðanatöku á húsfundi.

Með vísan til þessara atriða, telur kærunefnd að sú ákvörðun álitsbeiðanda að aftengja ofn í bílskúr sínum í þeim tilgangi að skorast undan greiðslu sameiginlegs hitakostnaðar sé óheimil.

 

IV. Niðurstaða.

Kærunefnd telur að álitsbeiðanda sé skylt að greiða hluta í sameiginlegum hitakostnaði vegna bílskúranna.

 

 

Reykjavík, 11. september 1997.

 
 
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta