Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 306/2023-Úrskruður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 306/2023

Þriðjudaginn 29. ágúst 2023

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. júní 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um að synja umsókn hans um húsnæðisbætur og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 8. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá mars 2017. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um húsnæðisbætur hefði verið synjað þar sem tekjur og/eða eignir allra heimilismanna skertu bætur að fullu. Þá var kæranda með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. júní 2023, birt lokauppgjör vegna ársins 2022 þar sem fram kom að hann hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 411.074 kr., auk upplýsinga um að hinar ofgreiddu bætur yrðu innheimtar og með hvaða hætti. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2023. Með bréfi, dags. 16. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 6. júlí 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá því að kærandi sé með meðfædda alvarlega fötlun, á grunni litningafráviks, sem feli í sér þroskahömlun og einhverfu. Kærandi sé auk þess með flogaveiki og ADHD sem hvoru tveggja hafi mikil áhrif á líf hans og þjónustuþörf.  Kærandi þurfi aðstoð starfsfólks allan sólarhringinn vegna fötlunar sinnar og hafi búið í íbúðakjarna (sértæku búsetuúrræði) á vegum Kópavogsbæjar síðastliðin 10 ár þar sem hann njóti þjónustu allan sólarhringinn. Vegna fötlunar sinnar sé kærandi ófær um að starfa á almennum vinnumarkaði og sjá sér farborða sjálfur og njóti því örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins sér til framfærslu og fái útborgað alls 351.276 kr. á mánuði. 

Í maímánuði 2022 hafi kærandi orðið fyrir því mikla áfalli að faðir hans hafi látist, fyrir aldur fram, eftir skammvinn veikindi. Það hafi verið mjög erfitt tilfinningalega fyrir kæranda, eins og gefi að skilja, og hafi einnig leitt til þess að hann njóti ekki lengur þess stuðnings sem hann hafi áður fengið frá föður sínum. Sem lögerfingi föður síns hafi kærandi hlotið í arf þriðjungshlut í sumarbústað sem faðir hans hafi átt. Fasteignamat bústaðarins sé 33,3 milljónir kr. og eignarhlutur kæranda því 11,1 milljón. Greiddur hafi verið erfðafjárskattur af arfinum og sumarbústaðurinn sé skráður á skattframtal sem eignarhluti kæranda. Þessi arfur virðist hafa þau áhrif á stöðu hans gagnvart húsnæðisbótum að hann teljist of eignamikill og því falli húsnæðisbætur niður samkvæmt ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 24. apríl 2023. Þetta hafi í för með sér að húsnæðisbætur upp á 60 til 70 þúsund kr. mánaðarlega (húsnæðisbætur og sérstakar húsnæðisbætur) falli niður með þeim afleiðingum að fjárhæðin sem kærandi þurfi að leggja til vegna húsaleigu hækki sem því nemi. Það feli í sér verulega skerðingu á ráðstöfunarfé kæranda sem sé eingöngu örorkubætur þar sem hann hafi vegna fötlunar sinnar enga raunhæfa möguleika að auka tekjur sínar á vinnumarkaði eða með öðrum aðferðum. Sumarbústaðurinn hafi mikið tilfinningalegt gildi fyrir kæranda vegna fjölskyldutengsla, auk þess sem hann gefi honum kost á mikilvægri tilbreytingu og félagslegri þátttöku sem hann hafi mikla þörf fyrir, sem ella byðist ekki, enda hafi hann ekki aðgang að orlofsbústað annars staðar svo sem í gegnum stéttarfélög þar sem hann vegna fötlunar sinnar geti ekki verið á vinnumarkaði.

Vegna fötlunar sinnar ráði kærandi ekki við að fara í ferðalög erlendis til að fara í frí og því hafi bústaðurinn enn meira vægi en ella sem leið til að njóta frístunda og tilbreytingar og ánægjulegra félagslegra samskipta við ættingja sína og aðra, eins og ófötluðu fólki þyki almennt sjálfsögð og nauðsynleg lífsgæði í íslensku samfélagi. Kærandi eigi þess ekki kost að eiga búsetu í umræddum sumarbústað vegna þjónustuþarfar sem leiði af  fötlun hans. Þá eigi hann ekki auðveldlega kost á að selja bústaðinn vegna þess að hann sé sameiginleg eign fjölskyldumeðlima. Hendur kæranda séu því bundnar hvað eignarhald snerti.

Hluti af eignum kæranda sé bifreið sem sé honum algjörlega nauðsynleg til að komast milli staða þar sem hann geti hvorki nýtt ferðaþjónustu fatlaðra né almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar. Bifreiðin sé metin á 1,6 milljónir á skattframtali. Þá eigi hann peninga á reikningi sem einkum séu hugsaðir sem varasjóður til að geta endurnýjað bílinn þegar það verði nauðsynlegt og til að greiða fyrir viðgerðir og þess háttar sem fylgi rekstri bifreiða.

Ljóst sé að eignarhluti kæranda í umræddum sumarbústað og bifreið sem sé honum nauðsynleg vegna fötlunar nýtist honum ekkert sem fjármagn til framfærslu. Hann eigi enga möguleika á að auka ráðstöfunartekjur sínar til mótvægis við skerðingu húsnæðisbóta. Synjun umsóknar um húsnæðisbætur samkvæmt ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi því í för með sér um 20% lækkun á mánaðarlegum ráðstöfunartekjum sem muni auðvitað hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lífsgæði hans og möguleika til samfélagslegrar virkni og þátttöku. Fyrir sé staðan sú að kærandi þurfi sjálfur að bera umtalsverð útgjöld vegna fötlunar sinnar, svo sem  vegna  lyfja, reksturs bifreiðar, hreinlætisvara og húsbúnaðar. Þess megi geta að útborgaðar bætur almannatrygginga, sem séu mun lægri en lágmarkslaun og verulega lægri en atvinnuleysisbætur, nemi í dag 351.276 kr. á mánuði og greiðist húsaleiga og öll útgjöld af þeirri upphæð. Húsaleigan í júnímánuði hafi (eftir niðurfellingu húsnæðisbóta) verið 172.377 kr. og ráðstöfunartekjur kæranda eftir greiðslu húsaleigu því 178.899 kr. Eftir niðurfellingu  húsnæðisbóta fari 49% ráðstöfunartekna kæranda í húsaleigu. Í því sambandi megi geta þess að viðmið um hámarkshlutfall húsaleigu af tekjum, sem víða sé stuðst við og þar með talið af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, vegna almennra íbúða (félagslegra íbúða) sem stofnframlög fáist til, sé 25% af tekjum íbúa.

Kæranda hafi einnig borist erindi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem farið sé fram á að hann greiði til baka 411.074 kr. vegna ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Það sé vandséð hvernig hann eigi að geta greitt slíka upphæð af 178.899 kr. mánaðarlegum ráðstöfunartekjum.

Sú hörmulega staðreynd og mikla áfall að kærandi missi föður sinn hafi því haft í för með sér, samkvæmt ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, verulega skerðingu á framfærslu fyrir utan mikinn tilfinningalegan missi. Það geti ekki verið vilji löggjafans né annarra opinberra aðila að slíkur atburður hafi í för með sér að ungur fatlaður maður búi við enn meiri fátækt en felist í lágum bótum almannatrygginga og þá skerðingu lífsgæða og tækifæra sem af því hljóti að leiða. Raunar sé það svo að tilgangur húsnæðisbótakerfisins eigi að vera að styðja mest við þá sem búi við viðkvæmustu og erfiðustu aðstæðurnar. Kærandi sé sannarlega í þeim hópi í ljósi fötlunar sinnar og aðstæðna.

Því sé óskað eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála skoði mál kæranda og ógildi synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á umsókn hans um húsnæðisbætur í ljósi aðstæðna kæranda og tryggi honum áfram húsnæðisbætur sem fyrr, enda feli umræddar eignir ekki í sér möguleika á að auka ráðstöfunarfé hans. Jafnframt sé óskað eftir undanþágu frá ákvæðum um eignastöðu við mat á rétti til húsnæðisbóta í ljósi aðstæðna kæranda. Slík undanþága væri í samræmi við þann tilgang laga um húsnæðisbætur að standa vörð um þá einstaklinga samfélagsins sem höllustum fæti standa. Þá sé farið fram á að felld verði niður krafa Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um endurgreiðslu húsnæðisbóta vegna ársins 2022 í ljósi lágra ráðstöfunartekna kæranda.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 20. mars 2017 vegna leigu á húsnæðinu C. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 20. mars 2017. Þann 21. mars 2023 hafi kæranda verið sent bréf þar sem afgreiðslu umsóknar hafi verið frestað þar sem eignir hafi verið farnar að skerða bætur að fullu. Í kjölfar hafi sérstakur talsmaður kæranda haft samband við stofnunina. Talsmanninum hafi verið bent á 18. gr. húsnæðisbótalaga þar sem fjallað sé um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Einnig hafi verið bent á að heimilt væri að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Umsókn um húsnæðisbætur hafi verið synjað vegna eignarstöðu þann 24. apríl 2023.

Í máli þessu sé deilt um synjun húsnæðisbóta vegna eignarstöðu. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur megi endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð þeirra þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna.

Í 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi skýrt fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. laga um húsnæðisbætur liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga.

Kæranda hafi ítrekað verið send endurreikningsbréf og það nýjasta hafi verið sent þann 23. janúar 2023. Þar megi sjá að heildareignir sem hafi verið notaðar í útreikning hafi verið 4.675.193 kr. Í endurreikningsbréfum sé athygli vakin á því að það sé á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Engar athugasemdir hafi borist um breytta eignarstöðu.

Í 18. gr. laga um húsnæðisbætur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sé fjallað um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í 1. mgr. komi fram að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 8.000.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% af þeirri fjárhæð. Í 2. mgr. komi svo fram að miða skuli við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir. Í 3. mgr. komi fram að með eignum samkvæmt lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að frádregnum skuldum.

Samanlagðar eignir allra heimilismanna byrji að skerða bótarétt við 8.000.000 kr. og skerði að fullu við 12.800.000 kr. Það liggi fyrir að eignir kæranda í lok árs 2022 hafi verið umfram 12.800.000 kr. eða 16.165.229 kr. samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Ekki sé hægt að verða við þeirri beiðni kæranda að veita undanþágu frá ákvæðum laga um eignarstöðu. Varðandi þá beiðni um að felld verði niður krafa um endurgreiðslu húsnæðisbóta vegna ársins 2022, þá sé gagnaöflun hafin og málið verði skoðað nánar þegar gögn hafi borist.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur og ákvörðun stofnunarinnar, dags. 8. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022, að fjárhæð 411.074 kr.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 75/2016 er umsækjanda skylt að veita framkvæmdaraðila allar þær upplýsingar og gögn þeim til staðfestingar sem óskað er eftir og nauðsynlegar eru til að staðreyna rétt hans til húsnæðisbóta. Enn fremur er skylt að upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans eða heimilismanna eða öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðisbóta samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann fær greiddar húsnæðisbætur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um meðal annars breytingu á eignastöðu á bótagreiðsluári sem kunni að hafa áhrif á bótarétt.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr., nú 8.000.000 kr., sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Þó skuli fasteign eða búseturéttur samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem geti orðið andlag réttar til vaxtabóta, ekki teljast til eigna samkvæmt 1. mgr. hafi fasteignin eða búseturétturinn ekki verið í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta hafi staðið á almanaksárinu. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að með eignum í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. Í 2. mgr. 72. gr. laga um tekjuskatt segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræði í 74. gr., og skipti ekki máli hvort eignirnar gefi af sér arð eða ekki.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda synjað um áframhaldandi greiðslur húsnæðisbóta eftir að upplýsingar bárust frá Ríkisskattstjóra um eignastöðu hans sem samkvæmt skattframtali ársins 2022 var yfir framangreindum eignamörkum. Á meðal eigna kæranda er um að ræða 33,3% hlut í sumarbústað sem hann fékk í arf á því ári, bifreið og innistæður í bönkum. Kærandi hefur óskað eftir undanþágu frá framangreindu ákvæði um eignastöðu vegna aðstæðna sinna.

Af ákvæði 18. gr. laga nr. 75/2016 er ljóst að framangreindar eignir kæranda skuli teknar með við mat á því hvort hann eigi rétt til greiðslu húsnæðisbóta en enga undanþágu frá þeirri reglu er að finna í lögunum. Þar sem eignir kæranda skerða húsnæðisbætur að fullu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022. Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Kærandi þáði húsnæðisbætur allt árið 2022. Við lokauppgjör ársins 2022 reyndust heildareignir kæranda vera 16.165.229 kr. sem leiddi til fullrar bótaskerðingar og ofgreiðslu að fjárhæð 411.074 kr. Kæranda ber í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 75/2016 að endurgreiða þá fjárhæð. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta til handa kæranda staðfest.

Hvað varðar kröfu kæranda um að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun falli frá endurgreiðslukröfunni bendir úrskurðarnefndin á að kæranleg ákvörðun liggur ekki fyrir en svör stofnunarinnar benda til þess að sú krafa sé til meðferðar. Kærandi getur sent nýja kæru til nefndarinnar þegar ákvörðun stofnunarinnar um þá beiðni liggur fyrir, sé hann ekki sáttur við niðurstöðuna.    


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um að synja umsókn A, um húsnæðisbætur, er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 8. júní 2023, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022 er einnig staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta