Hoppa yfir valmynd
9. október 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028 á Alþingi. Tillagan felur í sér viðamikla áætlun sem samanstendur af 44 verkefnum. Þau eru öll tengd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og er ætlað að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna í íslensku samfélagi. Með tillögunni fylgir skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024.

„Ísland trónir í efsta sæti á alþjóðavettvangi þegar kemur að jafnrétti kynjanna og hefur gert um árabil. Leið okkar á þann verðlaunapall var ekki fyrirhafnarlaus og baráttukonur fyrri áratuga lögðu allt í sölurnar til að þoka málum í rétta átt,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í framsöguræðu sinni á þinginu í dag. Hann lagði áherslu á að þótt jafnréttismál hefðu verið sett í forgang á síðustu árum færi því fjarri að við hefðum náð endastöð. 

„Minnumst allra þeirra afreka sem kvennahreyfingin á Íslandi færði okkur með áratuga baráttu sinni og minnumst þess, líkt og sagan hefur sýnt okkur, að með einu pennastriki er hægt að taka til baka áfangasigra og staða dagsins í dag er ekki endilega ávísun á áframhaldandi góðan árangur í framtíðinni. Um leið og við fögnum sigrum skulum við halda vöku okkar og slaka ekki á klónni í jafnréttismálum. Stóru jafnréttismálin í okkar samfélagi eru þó ennþá kynbundinn launamunur og kynbundið ofbeldi, og að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.“

Fjölbreytt verkefni

Áætlunin er lögð fram að fengnum tillögum ráðuneytanna, auk þess sem hliðsjón var höfð af umræðum á jafnréttisþingi sem haldið var í október 2022 og niðurstöðum umræðuhópa frá fundum samráðsvettvangs um jafnréttismál. Tillagan var jafnframt unnin í samráði við Jafnréttisstofu og kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Framkvæmdaáætluninni er ætlað að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum innan Stjórnarráðsins sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. Aðgerðir í áætluninni  skiptast í sex efnisflokka sem eru kyn, áhrif og þátttaka, kynjuð tölfræði og mælaborð, jafnrétti á vinnumarkaði og kynbundinn launamunur, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, jafnrétti í menntun og íþrótta- og æskulýðsstarfi og alþjóðastarf.

 

Þingsályktunartillögunni fylgir skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024 sem kom út í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta