Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Starfshópur greinir efnahagsleg áhrif sóttvarna

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem vinna mun reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum, með tilliti til hagsmuna ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. Bæði verða metin skammtímaáhrif og áhrif á getu hagkerfisins til þess að taka við sér af krafti að nýju þegar faraldurinn og áhrif hans líða hjá.

Heimsfaraldur COVID-19 og viðbrögð við honum hafa haft djúpstæð áhrif á íslenskt efnahagslíf frá því snemma á þessu ári. Stjórnvöld hafa beitt sérstökum úrræðum á landamærum til þess að takmarka útbreiðslu sjúkdómsins innanlands, m.a. með kröfum um sóttkví og skimanir, en slík úrræði hafa víðtæk efnahagsleg áhrif.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti greinargerð og minnisblað þegar ákvarðanir voru teknar um breyttar aðgerðir á landamærunum í júní og ágúst. Því til viðbótar hefur ráðuneytið unnið minnisblöð um einstaka þætti og þróun mála fyrir ráðherranefndir og ríkisstjórn. Í ljósi þess að áhrifa faraldursins mun gæta a.m.k. næstu mánuði og að hann er síbreytilegur, bæði hérlendis og erlendis, þurfa viðbrögð stjórnvalda að vera í stöðugri endurskoðun. Mikilvægt er að unnin verði frekari greining á efnahagslegum kostnaði og ábata ólíkra sóttvarnaraðgerða og þeim valkostum sem helst kunna að koma til álita.

Starfshóp ráðherra skipa Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, mun starfa með hópnum. Analytica ehf. verður starfshópnum til aðstoðar. Starfshópurinn skilar ráðherra reglulegum greiningum á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta