Hoppa yfir valmynd
1. júní 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2011

Miðvikudaginn 1. júní 2011.

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. apríl 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 23. apríl 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. febrúar 2011, um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem foreldri í fullu námi.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 4. maí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. maí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 18. maí 2011.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi vísar til þess að í 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, komi fram að foreldrar, sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Kærandi bendir á að með umsókn hans hafi fylgt þrjú vottorð frá B-háskólanum þar sem hann stundar nám. Á einu vottorðanna komi fram að hann hafi klárað 12 ECTS einingar á vorönn 2010. Á öðru þeirra komi fram að hann hafi klárað 12 ECTS einingar á haustönn 2010 og á því þriðja komi fram að hann sé skráður í 36 ECTS einingar á vorönn 2011 (eða á þeirri skólaönn sem barn fæðist). Kærandi bendir á að þrátt fyrir að hann hafi ekki klárað 22 ECTS einingar á seinustu sex mánuðum þá hafi hann klárað 24 ECTS einingar á innan við seinustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Kærandi greinir frá því að ástæða þess að honum hafi ekki tekist að ljúka öllum þeim fögum sem hann hafi setið í á haustönn 2010 sé sú að hann hafi verið undir miklu álagi sem hafi leitt til lasleika. Þá óskar kærandi eftir því að tekið verði tillit til ástundunar náms á þeirri skólaönn sem barnið fæddist. Vísar kærandi til læknisvottorðs, dags. 17. janúar 2011, máli sínu til stuðnings.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 21. janúar 2011, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 12. mars 2011. Með umsókninni hafi fylgt þrjú vottorð um skólavist frá B-háskólanum, dags. 20. og 21. janúar 2011, bréf frá C ehf., dags. 18. janúar 2001 og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 12. janúar 2011. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 17. febrúar 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrði um fullt nám þar sem hann væri einungis með 12 ECTS einingar á vor- og haustönn 2010.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008 og c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að barn kæranda sé fætt Y. mars 2011 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. mars 2010 fram að fæðingardegi barnsins.

Jafnframt bendir Fæðingarorlofssjóður á að samkvæmt vottorðum frá B-háskólanum, dags. 20. og 21. janúar 2011, hafi kærandi lokið 12 ECTS einingum á vorönn 2010, 12 ECTS einingum á haustönn 2010 og sé skráður í 36 ECTS einingar á vorönn 2011.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 ECTS einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að kærandi uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hann hafi einungis lokið 12 ECTS einingum á vorönn 2010 og haustönn 2010.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með kæru hafi fylgt læknisvottorð, dags. 17. janúar 2011, þar sem fram komi að kærandi hafi verið undir miklu álagi á undanfarandi haustönn og það hafi leitt til lasleika sem hann hafi ekki ráðið vel við og hafi átt þátt í því að hann náði ekki markmiðum sínum í prófum í desember. Fæðingarorlofssjóður bendir á í þessu samhengi að í ffl. sé að finna sérstakt heimildarákvæði fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008, komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Slíkt ákvæði fyrir feður sé hvorki að finna í ffl. né í reglugerð og því geti framangreint læknisvottorð ekki komið til skoðunar.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 17. febrúar 2011.

 

III.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs.

Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 18. maí 2011. Í bréfinu ítrekar kærandi að heimilt sé skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Hvergi komi fram að umrædd málsgrein eigi bara við um mæður. Með vísan til þess óskar hann eftir því að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði endurskoðuð.

 

IV.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hinn 17. febrúar 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda er fætt hinn Y. mars 2011. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. og 16. gr. laga nr. 74/2008, er því tímabilið frá Y. mars 2010 fram að fæðingu barnsins.

Kærandi stundar nám við B-háskólann. Samkvæmt vottorðum, dags. 20. janúar 2011, lauk kærandi 12 ECTS einingum á vorönn 2010 og 12 einingum á haustönn 2010. Samkvæmt vottorði, dags. 21. janúar 2011, er kærandi skráður í 36 ECTS eininga nám á vorönn 2011.

Fullt nám í háskóla eru 30 ECTS einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 ECTS einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Heimilt er skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Á sú regla við um báða foreldra.

Með vísan til þess að fullt nám í skilningi ffl. er 22–30 ECTS einingar á önn telst kærandi ekki hafa verið í fullu námi og sýnt viðunandi námsárangur í skilningi ffl., hvorki á vorönn 2010 né haustönn 2010 þar sem hann lauk einungis 12 ECTS einingum hvora önn.

Barn kæranda fæddist á vorönn 2011. Þó svo að beitt væri heimild 1. mgr. 19. gr. ffl., til að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri önn, þyrfti kærandi að hafa verið í fullu námi annaðhvort vorönn 2010 eða haustönn 2010 til að ná samtals sex mánaða fullu námi. Þar sem kærandi lauk einungis 12 ECTS einingum hvora önn getur hann ekki talist uppfylla skilyrði um fullt nám skv. ffl. í sex mánuði af síðustu tólf fyrir fæðingu barnsins, en enga undanþágu er að finna í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008 sem heimilar samlagningu eininga tveggja anna.

Samkvæmt 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Á sú undanþága einungis við um mæður og því er ekki hægt að taka hana til skoðunar í máli kæranda. Hvorki ffl. né reglugerð nr. 1218/2008 hafa að geyma undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám og viðunandi námsárangur við þær aðstæður sem kærandi vísar til, þ.e. að hann hafi ekki getað stundað fullt nám vegna veikinda á haustönn 2010.

Af þessum ástæðum hefur kærandi ekki uppfyllt skilyrði framangreindra laga og reglugerðar um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Samkvæmt vottorði frá C, dags. 18. janúar 2011, var kærandi starfsmaður þar í fimm mánuði á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2010. Í 11. mgr. 19. gr. ffl. kemur fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt, hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Kærandi var samkvæmt vottorði C starfsmaður í fimm mánuði. Þegar af þeim sökum tekur umrætt ákvæði ekki til tilviks kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta