Mál nr. 3/2011
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
gegn
kjararáði
Laun. Starfskjör.
Þann 23. febrúar 2010 ákvað kjararáð almennar forsendur ákvarðana um laun og önnur starfskjör þeirra framkvæmdastjóra félaga í meirihlutaeigu ríkisins sem höfðu þá nýverið bæst í þann hóp sem undir kjararáð heyrir. Þáverandi framkvæmdastjóri X ehf., karlmaður, var í þessum hópi og voru laun hans og starfskjör ákvörðuð þann 19. maí 2010. Framkvæmdastjórinn sagði starfi sínu lausu og var nýr framkvæmdastjóri, kona, ráðinn 6. september 2010. Hinn 26. október 2010 tók kjararáð ákvörðun um að mánaðarlaun hennar yrðu óbreytt frá því sem gilt hefði um þann er áður gegndi starfinu en mánaðarlegum einingum fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgdi skyldi fækkað úr 25 í 8. Núverandi framkvæmdastjóri taldi að með ákvörðun þessari hefði verið brotið gegn jafnréttislögum þar sem sér hefðu verið ákvörðuð lakari starfskjör en fyrri framkvæmdastjóra og kærði ákvörðun kjararáðs til kærunefndar jafnréttismála 3. mars 2011. Þann 13. maí 2011 samþykkti kjararáð bókun þess efnis að frá og með 6. september 2010 skyldi greiða núverandi framkvæmdastjóra X ehf. 25 einingar á mánuði, þ.e. sama einingarfjölda og fyrri framkvæmdastjóra var ákvarðaður. Þar sem hin kærða ákvörðun hafði þannig verið felld úr gildi var málinu vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 18. júlí 2011 er tekið fyrir mál nr. 3/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru dagsettri 1. mars 2011, móttekinni 3. mars 2011, óskaði kærandi, A, framkvæmdastjóri X ehf., eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún tæki afstöðu til þess hvort kærði, kjararáð, hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, er það ákvarðaði henni lægri laun en það ákvarðaði forvera hennar sem er karlmaður, þann 19. maí 2011.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi dagsettu 22. mars 2011. Kærði óskaði eftir fresti til að koma á framfæri afstöðu sinni til kærunnar með tölvubréfi þann 4. apríl og var kærandi upplýstur um framlengdan frest til 29. apríl með bréfi dagsettu 5. apríl. Hinn 3. maí tilkynnti kærði með tölvubréfi að fjallað yrði um kæruna á fundi kjararáðs 13. maí og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dagsettu 3. maí.
- Hinn 16. maí 2011 barst bréf kjararáðs, dagsett 13. maí, ásamt afriti af bréfi ráðsins til kæranda, dagsett sama dag. Kæranda var með bréfi kærunefndar, dagsettu 17. maí, gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kjararáðs. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi þann 23. maí.
- Hinn 3. júní 2011 var kjararáði sent afrit af bréfi kæranda, dagsettu 23. maí, til kynningar og óskað eftir athugasemdum. Þann 14. júní barst bréf frá kjararáði, dagsett 10. júní. Þann 15. júní fékk kærandi afrit af bréfi kjararáðs til kynningar og honum boðið að koma á framfæri athugasemdum. Bréf, dagsett 20. júní, barst frá kæranda þann 22. júní.
MÁLAVEXTIR - Þann 23. febrúar 2010 ákvað kjararáð almennar forsendur ákvarðana um laun og önnur starfskjör þeirra framkvæmdastjóra félaga í meirihlutaeigu ríkisins sem höfðu þá nýverið bæst í þann hóp sem undir kjararáð heyrir. Við þá stefnumörkun var jafnframt horft til nýsettra fyrirmæla í lögum um að enginn af þeim sem undir ákvörðunarvald kjararáðs eru seldir, að undanskildum forseta Íslands, skuli hafa hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra.
- Framkvæmdastjóri X ehf., en karlmaður gegndi starfinu á þeim tíma, var í framangreindum hópi og voru laun hans og starfskjör ákvörðuð af kjararáði þann 19. maí 2010. Skyldi hann frá 1. júní 2010 hafa tiltekna fjárhæð í mánaðarlaun og 25 einingar á mánuði að auki fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir. Fram kom í forsendum kjararáðs að við ákvörðun einingafjölda væri gætt meðalhófs til að komast hjá því að laun lækkuðu óhóflega. Það leiddi til tímabundins ósamræmis við laun þeirra sem heyrt hefðu undir kjararáð, en búast mætti við endurskoðun einingafjölda allra þeirra sem undir ráðið heyrðu eftir 1. desember 2010. Þá var tekið fram að ákvörðunin gilti fyrir þann sem gegndi starfi framkvæmdastjóra X ehf. við töku hennar.
- Þáverandi framkvæmdastjóri sagði starfi sínu lausu nokkru síðar. Var það auglýst laust til umsóknar og ráðningarsamningur gerður við núverandi framkvæmdastjóra þann 3. september 2010 með gildistöku frá 6. september 2010. Í 6. gr. þess samnings segir að um kjör framkvæmdastjóra fari samkvæmt ákvörðun kjararáðs og er vísað til viðauka um þau kjör sem ákvörðuð höfðu verið fyrrverandi framkvæmdastjóra.
- Stjórnarformaður X ehf. gerði kjararáði grein fyrir nýráðningunni og óskaði þess að kjararáð ákvarðaði starfskjör framkvæmdastjórans. Framkvæmda-stjóranum var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og gerði hann það þann 21. september 2010.
- Kjararáð tók ákvörðun þann 26. október 2010 um að mánaðarlaun yrðu óbreytt en einingum skyldi fækkað úr 25 í 8. Í forsendum kom fram að ekki þyrfti að gæta þeirra meðalhófssjónarmiða sem greindi í fyrri úrskurði þar sem sá framkvæmdastjóri sem í hlut ætti hefði ekki gegnt starfinu áður.
- Eftir að kæranda var tilkynnt um ákvörðun kjararáðs fór hún þess á leit með bréfi, dagsettu 14. nóvember 2010, að kjararáð breytti ákvörðun sinni. Beiðnin var rökstudd meðal annars með vísan til viðveruskyldu og menntunar. Kjararáð hafnaði beiðninni. Þá óskaði kærandi eftir rökstuðningi með símbréfi þann 27. nóvember 2010. Rökstuðningur var látinn í té með bréfi, dagsettu 8. desember 2010, þar sem áhersla var lögð á innra samræmi og tekið fram að ekki væri sérstaklega litið til menntunar eða starfsreynslu.
- Með bréfi lögmanns kæranda, dagsettu 21. desember 2010, var þess farið á leit að kjararáð ákvarðaði laun og starfskjör framkvæmdastjórans að nýju og bent á að sú mismunun sem ráðið hefði mælt fyrir um frá 6. september s.á. fengi ekki staðist. Með bréfi kjararáðs, dagsettu 8. febrúar 2011, var þessari málaleitan hafnað og tekið fram að ákvarðanir kjararáðs hefðu ekkert með kynferði að gera.
- Kærandi kærði ákvörðun kjararáðs frá 26. október 2010 til kærunefndar jafnréttismála með bréfi er barst nefndinni 3. mars 2011.
- Með bréfi kjararáðs, dagsettu 13. maí 2011, kom fram að kjararáð hefði á fundi sama dag samþykkt eftirfarandi bókun:
- Í ljósi þess að óvíst er hvenær sú endurskoðun á einingafjölda allra þeirra sem undir kjararáð heyra og sem boðuð var eftir 1. desember 2010 fer fram og hvenær hún tekur gildi, hefur kjararáð ákveðið að frá og með 6. september 2010 skuli greiða framkvæmdastjóra X ehf. 25 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir, þ.e. sama einingarfjölda og fyrri framkvæmdastjóra var ákvarðaður. Mánaðarlaun framkvæmdastjórans skulu vera óbreytt eða samkvæmt launaflokki [ ], nú [ ] krónur.
- Kjararáð kynnti kæranda þessa ákvörðun með bréfi dagsettu sama dag.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA - Kærandi byggir á því að staðhæfing kjararáðs um kynferði leysi ráðið ekki undan þeirri skyldu að virða fyrirmæli jafnréttislaga. Lögunum sé ætlað að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu, sbr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Kveðið sé á um bann við beinni mismunun sem felst í að einstaklingur fái óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður, sbr. einnig 19. gr. laganna. Samkvæmt niðurlagsákvæðum 26. gr. skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og sérstökum hæfileikum við mat á brotum en kjararáð hafi neitað að horfa til þessara atriða. Þau hafi verið látin víkja fyrir því sem ráðið hafi talið innra samræmi eigin ákvarðana.
- Kærandi telur að kjararáði hafi verið í lófa lagið og skylt að fylgja fyrirmælum jafnréttislaga og láta kæranda njóta sömu kjara og forveri hennar naut, í öllu falli fram til þess að kjör þeirra, sem hafi notið meðalhófssjónarmiða kjararáðs á sama hátt og forveri kæranda, yrðu endurskoðuð.
- Kærandi bendir á að kjararáð hafi ekki mótmælt því að það hafi brotið jafnréttislög við meðferð sína á máli kæranda. Þá leggur kærandi áherslu á að hún sé afar ósátt við afstöðu kjararáðs til menntunar hennar með því að neita að horfa til þess munar sem þar sé á gagnvart karlkyns forvera.
SJÓNARMIÐ KJARARÁÐS - Með bréfi, dags. 10. júní 2011 greindi kjararáð frá því að á fundi sama dag hefði ráðið bókað að teldi kærunefnd jafnréttismála ástæðu til að verða við kröfu kæranda um að halda áfram meðferð sinni á málinu áskildi ráðið sér rétt til að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum. Taldi kjararáð ekki ástæðu til að tjá sig um kæru kæranda að svo stöddu.
NIÐURSTAÐA - Með ákvörðun hinn 13. maí 2011 hefur kjararáð fellt úr gildi hina kærðu ákvörðun frá 26. október 2010. Í fyrrnefndu ákvörðuninni kemur fram að frá og með 6. september 2010 skuli greiða núverandi framkvæmdastjóra X ehf. sama einingafjölda, 25 einingar, og forvera hans hafði áður verið ákvarðaður. Er þannig enginn munur á kjörum kæranda og forvera hennar í starfi. Við þessar aðstæður eru því ekki efni til að kærunefnd jafnréttismála fjalli um ákvörðunina frá 26. október 2010 og telur nefndin rétt að vísa málinu frá nefndinni.
- Kærunefnd hóf meðferð máls þessa eftir skipun nefndarmanna er tók gildi 1. maí 2011.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Erindi kæranda, A vegna ákvörðunar kjararáðs frá 26. október 2010 er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir