Hoppa yfir valmynd
27. október 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 523/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 523/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070062

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. júlí 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Gíneu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júlí 2021, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 2. ágúst 2012 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarasvæðinu. Kærandi kvaðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Gíneu. Þar sem kærandi framvísaði ekki gögnum sem voru til þess fallin að sanna auðkenni hans var hann boðaður í aldursgreiningu. Niðurstaða aldursgreiningar, dags. 24. ágúst 2012, var að kærandi væri eldri en tvítugur. Ekki væri hægt að útiloka að hann væri 18 ára að aldri en nánast útilokað væri að uppgefinn aldur, [...], væri réttur. Hinn 10. september 2012 sendi Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar til spænskra yfirvalda vegna dvalar kæranda og frænda hans þar í landi. Í svari, sem barst hinn 17. október 2012, kom fram að kærandi væri skráður á Spáni undir nafninu [...], f.d. [...], ríkisborgari Senegal. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun hinn 27. mars 2014 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 31. mars 2014, var kæranda veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 12. gr. f. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 74. gr. núgildandi laga um útlendinga. Dvalarleyfi kæranda var gefið út með gildistíma til 10. apríl 2015. Hefur það dvalarleyfi verið endurnýjað tvívegis, síðast með gildistíma til 8. febrúar 2019.

Hinn 21. júní 2019 sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi sínu. Kærandi fékk senda tilkynningu frá Útlendingastofnun, dags. 21. apríl 2020, þar sem fram kom að til skoðunar væri hjá stofnuninni að synja umsókn hans á grundvelli 59. gr. laga um útlendinga og almennra stjórnsýslureglna. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins í viðtölum hinn 6. maí og 26. nóvember 2020. Þá var honum leiðbeint um að leggja fram gögn til stuðnings framburði sínum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júlí 2021, var umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 19. júlí sl. Þá bárust kærunefnd gögn hinn 24. ágúst og 12. október 2021.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi, við komu til landsins árið 2012, greint frá því að hann heiti [...] og væri fæddur [...], þ.e. [...] ára að aldri. Kærandi hafi því verið metinn barn að aldri. Samkvæmt minnisblaði sem hafi fylgt ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2014, hafi kæranda verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 12. gr. f. þáverandi laga um útlendinga vegna slæms heilsufars, erfiðra og íþyngjandi aðstæðna sem biðu hans í heimaríki og lengd dvalar hans hér á landi. Kærandi væri með [...] og lifrabólgu B. Þá væri hann með nýrnabilun og hafi af þeim sökum þurft að gangast undir blóðskilun þrisvar í viku til að viðhalda einhvers konar nýrnastarfsemi.

Í ákvörðun er vísað til samantektarskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 2. janúar 2018, vegna rannsóknar lögreglu á málefnum kæranda og frænda hans. Rannsókn lögreglu og haldlagning gagna hafi leitt í ljós að þeir hafi báðir gefið upp rangar upplýsingar við komu til Íslands árið 2012, þ. á m. um auðkenni, dvalarleyfisstöðu á Spáni og ferðaleið til landsins. Í ljósi upplýsinga sem hafi komið fram í skýrslunni hafi Útlendingastofnun sent tilkynningu um mögulega synjun á endurnýjun á dvalarleyfi kæranda hinn 21. apríl 2020. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga hafi kærandi verið boðaður í viðtal hinn 6. maí og 26. nóvember 2020 hjá Útlendingastofnun. Upplýsingar sem Útlendingastofnun hafi borist um kæranda, þ. á m. um auðkenni hans, hafi verið bornar undir hann. Þá hafi honum verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að hann myndi sýna fram á auðkenni sitt með framlagningu gagna. Það hafi verið mat stofnunarinnar, m.a. að teknu tilliti til framburðar kæranda í skýrslutökum hjá lögreglu og viðtölum hjá Útlendingastofnun, að kærandi heiti í raun [...], fæðingardagur hans sé [...] og hann hafi, gegn betri vitund, veitt stofnuninni rangar upplýsingar um auðkenni sitt og aðstæður í heimaríki þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá hafi kærandi, að virtri niðurstöðu skjalarannsóknarskýrslu lögreglu, aflað falsaðra gagna til að villa um fyrir íslenskum stjórnvöldum. Hefðu framangreindar upplýsingar legið fyrir þegar kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi hér á landi hefðu þær haft verulega og sannarlega þýðingu fyrir grundvöll ákvörðunarinnar. Þá kemur fram að það hafi verið mat stofnunarinnar, í ljósi umfjöllunar um heilbrigðiskerfið í Gíneu, að kæranda stæði til boða heilbrigðisþjónusta vegna nýrnaveikinda hans í heimaríki.

Að öllu framangreindu virtu taldi Útlendingastofnun að skilyrði ákvæðis 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða væru ekki uppfyllt. Umsókn kæranda var því synjað. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda frávísað og veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið á grundvelli 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda tilkynnt um að honum kynni að verða brottvísað á grundvelli 98 og 101 gr. laga um útlendinga, yfirgæfi hann ekki landið innan veitts frests.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu. 

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Líkt og að framan er rakið var kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli skv. þágildandi 12. gr. f. laga nr. 96/2002 um útlendinga hinn 31. mars 2014. Í minnisblaði Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2014, eru forsendur þess að kæranda var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum raktar. Þar kemur fram að það hafi verið vegna slæms heilsufars kæranda, erfiðra og íþyngjandi aðstæðna sem biðu hans í heimaríki og lengd dvalar hans hér á landi. Kærandi væri með [...] og lifrabólgu B. Þá væri hann með nýrnabilun og hafi af þeim sökum þurft að gangast undir blóðskilun þrisvar í viku til að viðhalda einhvers konar nýrnastarfsemi.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað tvívegis, síðast með gildistíma til 8. febrúar 2019. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi sínu að nýju hinn 21. júní 2019 og var umsókn hans synjað hinn 9. júlí 2021 með vísan til 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í allt að tvö ár í senn enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins ekki breyst.

Hinn 17. október 2012 barst Útlendingastofnun svar frá spænskum yfirvöldum vegna upplýsingabeiðni, dags. 10. september 2012, um dvöl kæranda og frænda hans þar í landi. Kom fram að kærandi væri skráður á Spáni undir auðkenninu [...], f.d. [...], ríkisborgari Senegal. Útlendingastofnun hafði því undir höndunum upplýsingar sem gáfu til kynna að vafi væri uppi um auðkenni kæranda þegar honum var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi hinn 31. mars 2014. Verður því ekki séð að nokkuð hafi breyst hvað þetta atriði varðar sem áhrif hafi á málsmeðferð umsóknar kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi hér á landi. Að virtum gögnum málsins, þ. á m. framangreindri samantektarskýrslu lögreglu, skjalarannsóknarskýrslu lögreglu, upplýsingum frá spænskum yfirvöldum, skýrslu tekna af kæranda hjá lögreglu og viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun, telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi, gegn betri vitund, veitt stofnuninni rangar upplýsingar um auðkenni sitt, aðstæður í heimaríki og ferðaleið til Íslands þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 2. ágúst 2012. Sem fyrr segir kvaðst kærandi heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Gíneu. Þá greindi hann frá því að hann og frændi hans hefðu ferðast til Íslands frá Spáni með skipi. Umræddar upplýsingar eru ekki í samræmi við gögn málsins, þ. á m. framangreindar upplýsingar frá spænskum yfirvöldum um auðkenni kæranda og gögn sem lögregla lagði hald á við húsleit hjá kæranda. Meðal haldlagðra gagna var minniskubbur sem á mátti finna myndir af kæranda og frænda hans í Barcelona hinn 26. júlí 2012 og í miðbæ Reykjavíkur tveimur dögum síðar. Útilokað er því, líkt og kemur fram í skýrslu lögreglu, að kærandi hafi komið með skipi til landsins. Kærunefnd telur að kærandi hafi ekki veitt fullnægjandi skýringar á framangreindu ósamræmi í viðtölum hjá Útlendingastofnun.

Við málsmeðferð umsóknar kæranda um endurnýjun dvalarleyfis framvísaði hann læknabréfum, dags. 5. maí 2020 og 7. október 2021, undirrituðum af sérfræðilækni í nýrnalækningum. Kemur þar fram að kærandi sé með [...], lifrarbólgu B og háþrýsting. Kærandi hafi verið með skerta nýrnastarfsemi þegar hann hafi komið til landsins árið 2012. Versnandi ástand hafi leitt til lokastigsnýrnabilunar árið 2014 og kærandi hafi fengið ígrætt nýra í Gautaborg í maí 2017. Vegna nýrnaígræðslunnar og hnignandi starfsemi nýrnagræðlings þurfi kærandi að undirgangast eftirlit á a.m.k. tveggja til þriggja mánaða fresti. Þá megi reikna með því að kærandi þurfi blóðskilunarmeðferð og/eða aðra nýrnaígræðslu. Kærandi sé með erfiðan háþrýsting og þurfi áframhaldandi eftirlit og nokkuð mikla lyfjameðferð vegna þess. Þá þurfi hann að fara í PCR mælingar og lifrarpróf á þriggja mánaða fresti vegna lifrarbólgu B. Enn fremur hafi hann verið í eftirliti hjá augnlæknum vegna hornhimnuígræðslu. Fram kemur að kærandi fái ávísað margvíslegum lyfjum vegna framangreindra sjúkdóma og veikinda. Þá kemur fram að mikilvægt sé að kærandi sé í áframhaldandi eftirliti og fái meðferð við sínum flóknu heilsufarsvandamálum.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd ljóst að heilsufar kæranda hafi ekki farið batnandi frá því að honum hafi verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Þvert á móti benda gögn málsins til þess að þörf kæranda fyrir heilbrigðisaðstoð hafi aukist og að mikilvægt sé að hann sé undir reglulega eftirliti heilbrigðissérfræðinga. Kærandi þurfi áframhaldandi lyfjameðferð og reikna megi með því að hann þurfi blóðskilunarmeðferð og/eða aðra nýrnaígræðslu vegna nýrnaveikinda sinna. Verður því ekki fallist á það með Útlendingastofnun að forsendur fyrir veitingu dvalarleyfis kæranda á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi breyst, sbr. 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur kynnt sér gögn um heilbrigðiskerfið í Gíneu, þ. á m. skýrslu World Health Organization frá 2015 (e. Country Cooperation Strategy at a Glance), vefsvæði USAID (e. Global Health – Guinea) og ritrýnda fræðigrein birta í Journal of Nephropathology árið 2015 (e. Epidemiology of chronic kidney diseases in the Republic of Guinea; future dialysis need). Gefa gögnin til kynna að heilbrigðisaðstoð, þ. á m. endurgjaldslaus blóðskilun, sé aðgengileg ríkisborgurum landsins. Af gögnunum verður hins vegar ekki annað ráðið en að aðgengi að meðferð vegna alvarlegra nýrnaveikinda, s.s. nýrnaígræðslu, sé ótryggt, skort hafi á gæði meðferðarúrræða sem í boði séu og dánartíðni sé há á meðal þeirra sem glími við nýrnabilun á lokastigi. Skortur hafi verið á lyfjum og gæði lyfja sem í boði séu geti verið ófullnægjandi. Þá bendi gögn ennfremur til þess að álag á heilbrigðiskerfi heimaríkis kæranda hafi aukist vegna Covid-19 faraldursins þar í landi og alvarlega veikir einstaklingar hafi átt erfitt með sækja sér meðferð á heilbrigðisstofnunum. Er það því mat kærunefndar að ekki sé hægt að fullyrða að kærandi muni í raun hafa greiðan aðgang að þeirri meðferð og lyfjum sem honum er nauðsynleg til þess að stemma stigu við því að sjúkdómar og veikindi hans valdi honum alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Að því virtu, og í ljósi alvarleika þeirra sjúkdóma sem kærandi glímir við, telur kærunefnd ekki forsvaranlegt að rjúfa meðferð kæranda hér á landi. Þá verður ekki annað ráðið en að kærandi sé, sökum nýrnaveikinda sinna og nýrnaígræðslu, í sérstökum áhættuhópi sýkist hann af SARS-CoV-2 veirunni.

Þessar sérstöku aðstæður kæranda eru að mati kærunefndar þess eðlis að kærandi telst hafa sýnt fram á að hann hafi ríka þörf fyrir vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíða kæranda í heimaríki. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til þess hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn hefur haft á heilbrigðiskerfið í Gíneu.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta