Hoppa yfir valmynd
30. desember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattabreytingar um áramót

Á liðnu haustþingi voru að venju ýmsar tillögur að breytingum í skattamálum í þeim frumvörpum sem urðu að lögum fyrir jól. Um áramótin taka því gildi nokkrar breytingar sem snerta skatta á heimili og fyrirtæki með almennum hætti, en sumar þeirra voru lögfestar á fyrri þingum. Hér verður farið yfir hinar helstu þeirra.

Nánari upplýsingar um þær breytingar sem hér er fjallað um og aðrar breytingar í skattamálum er að finna í greinargerðum með viðkomandi lagafrumvörpum og öðrum skjölum á vef Alþingis, og einnig á vefsíðu RSK.

Tekjuskattur einstaklinga

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram markmið um að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara. Á árinu 2014 var fyrsta skrefið tekið en þá var létt skattbyrði af tekjulægri heimilum með hækkun neðri þrepamarka tekjuskattsins og lækkun miðþrepsins. Á vormánuðum 2015 samþykkti ríkisstjórnin að beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem myndi leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, sérstaklega millitekjuhópa. Þessi samþykkt var hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og fellur vel að markmiðinu um einföldun skattkerfisins. Breytingarnar fela í sér fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í tveimur áföngum. Fyrri áfangi kemur til framkvæmda á árinu 2016. Skatthlutfall samtals í fyrsta þrepi lækkar um 0,17 prósentustig, úr 37,30% í 37,13%, skatthlutfallið í öðru þrepi lækkar um 1,39 prósentustig, úr 39,74% í 38,35% og þriðja þrepið hækkar í 46,25%. Hækkunin um 0,01 prósentustig stafar af hækkun meðalútsvars úr 14,44% í 14,45%. Á árinu 2017 þegar seinni áfanginn kemur til framkvæmda lækkar skatthlutfallið í þrepi 1 í 36,95%, skattþrep 2 fellur út og þrepamörk verða lækkuð.

2015 2016
Skatthlutföll tekjuskatts til ríkis og sveitarfélaga
Tekjuskattur til ríkis
1. þrep ................................................................ 22,86% 22,68%
2. þrep (álag á 1. þrep) ........................................ 2,44% 1,22%
3. þrep (álag á 2. þrep) ........................................ 6,50% 7,90%
Samtals ............................................................... 31,80% 31,80%
Meðalskatthlutfall útsvars .................................. 14,44% 14,45%
Skatthlutfall samtals
1. þrep ................................................................ 37,30% 37,13%
2. þrep ................................................................ 39,74% 38,35%
3. þrep ................................................................ 46,24% 46,25%
Þrepamörk á mánuði (þús. kr.)
Neðri mörk ......................................................... 309,1 336,0
Efri mörk ............................................................ 836,4 837,0*

* Efri þrepamörkin 2016 voru lækkuð í 770 þús.kr. á mánuði en taka breytingum í samræmi við hækkun launa­vísitölu samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Launavísitalan hækkaði um 8,7% og því er niðurstaðan sú að efri þrepamörkin verða 837 þús.kr. á mánuði.

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um 0,04 prósentustiga tilfærslu milli tekjuskatts og útsvars vegna málefna fatlaðs fólks, sem gilt hafði tímabundið, var lögfest til frambúðar á nýliðnu haustþingi.

Nánari upplýsingar um breytingar sem verða á tekjuskatti,útsvari, persónuafslætti og skattleysismörkum við áramótin eru í tilkynningu ráðuneytisins frá 22. desember sl.

Barnabætur

Fjárhæðir barnabóta hækka um 3% á milli áranna 2015 og 2016.

Fjármagnstekjuskattur

Frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum af íbúðarhúsnæði hækkar úr 30% í 50% á árinu 2016. Skattbyrði leigutekna mun þar með lækka úr 14% í 10%. Þessi breyting er liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við almennan leigumarkað og er tilgangurinn að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.

Tryggingagjald

Tryggingagjaldið lækkar um 0,14 prósentustig, úr 7,49% í 7,35% á árinu 2016. Þessi breyting er hluti af lækkun tryggingagjaldsins sem lögfest var á haustþingi 2013.

Virðisaukaskattur

Skattskyldusvið virðisaukaskattsins breikkar þegar fólksflutningar og önnur ferðaþjónustutengd starfsemi verður skattskyld í neðra þrepi virðisaukaskatts, 11%, 1. janúar 2016. Þessi breyting var lögfest í desember árið 2014, með eins árs aðlögunartíma fyrir gildistöku. Í breikkuninni felst m.a. að fólksflutningar og hvers kyns skipulagðar ferðir með leiðsögn, svo sem hestaleiga, hvalaskoðunarferðir, vélsleðaferðir og útsýnisferðir, og þjónusta ferðaskrifstofa og leiðsögumanna verður virðisaukaskattsskyld. Baðstaðir falla einnig hér undir en ekki heilsu­ræktar­stöðvar og sundlaugar, þar sem aðgangur að íþróttamannvirkjum og íþróttaaðstöðu er áfram undanþeginn skattskyldu. Nánari upplýsingar um þessar breytingar eru á vef RSK. Tekið skal fram að almenningssamgöngur eru eftir sem áður undanþegnar virðisaukaskatti, sem og skipulagðar ferðir með fatlað fólk og aldraða, akstur skólabarna og leigubílaakstur.

Áfengi færist úr almennu þrepi í neðra þrep virðisaukaskattsins um áramótin. Um leið hækkar áfengisgjald til mótvægis og er miðað við að samanlögð skattlagning áfengis breytist mjög lítið. Vegna þess hve virðisaukaskattur og áfengisgjald eru í eðli sínu ólíkir skattar er óhjákvæmilegt að þessi aðgerð hafi einhver áhrif á verð einstakra vörutegunda. Við útfærsluna var stefnt að því að raska verðlagningu sem minnst. Markmið breytingarinnar er að bæta skilvirkni þessarar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Engar breytingar verða á skatthlutföllum virðisaukaskatts á næsta ári heldur verða þau óbreytt eins og á árinu 2015: 24% í almennu þrepi og 11% í neðra þrepi.

Heimild til niðurfellingar virðisaukaskatts við innflutning og sölu á rafbílum o.fl.

Frá árinu 2012 hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða. Heimildin átti að renna sitt skeið um næstu áramót en hefur nú verið framlengd út árið 2016.

Vörugjöld á bifreiðar ökutækjaleiga

Afsláttur ökutækjaleiga frá vörugjöldum við innflutning á bifreiðum mun lækka um áramótin. Lækkunin kemur fram í því að svokallað afsláttarþak verður lækkað úr 750 þús. kr. á bifreið í 500 þús. kr. Gert er ráð fyrir að svo breyttur vörugjaldaafsláttur gildi árin 2016 og 2017 en falli að því loknu niður að öllu leyti. Þá verður hætt að innheimta svokallað leyfisgjald bílaleiga sem njóta lækkaðra vörugjalda frá og með 1. janúar 2016.

Orkuskattur á rafmagn

Orkuskattur á rafmagn fellur brott 1. janúar 2016. Hann var settur á sem tímabundinn skattur árið 2010 og fellur brott í samræmi við ákvæði laga nr. 146 frá árinu 2012.

Gjaldskrárbreytingar

Krónutölugjöld hækka ekki sjálfvirkt í takt við verðlag. Eigi þau að halda óbreyttu raungildi þarf að gera á þeim verðlagsuppfærslu með lagabreytingu um hver áramót. Gjöldin hafa ekki hækkað frá árinu 2014 en munu hækka um 2,5% í ársbyrjun 2016. Helstu gjaldskrárbreytingar eru sýndar í eftirfarandi töflu. Einnig má nefna að kílómetragjald hækkar um sama hlutfall. Tekið skal fram að áfengisgjald hækkar um meira en 2,5% vegna kerfisbreytingar á skattlagningu áfengis sem fjallað er um hér að framan.

2015 2016
Bensíngjald
almennt 24,96 kr 25,60 kr
sérstakt 40,30 kr (blýlaust) 41,30 kr (blýlaust)
Olíugjald 56,00 kr 57,40 kr
Kolefnisgjald
gas- og dísilolía 5,84 kr 6,00 kr
bensín 5,10 kr 5,25 kr
brennsluolía 7,23 kr 7,40 kr
jarðolíugas, annað loftkennt efni 6,44 kr 6,60 kr
Bifreiðagjald
eigin þyngd < 3.500 kg. 5.415 kr/ 130 kr 5.550 kr/133 kr
eigin þyngd > 3.500 kg. 50.705kr/ 2,16kr/ 79.820kr 51.975kr/ 2,22kr/ 81.815kr
Tóbaksgjald
vindlingar 448,60 kr 459,80 kr
neftóbak 14,71 kr 15,10 kr
annað tóbak 16,04 kr 16,45 kr
Áfengisgjald
öl 93,14 kr 112 kr
vín 83,78 kr 102 kr
annað áfengi 114,08 kr 138 kr

Tollar

Frá og með 1. janúar 2016 verður tollur af fatnaði og skófatnaði afnuminn en megintilgangur þess er að styrkja stöðu innlendrar verslunar í samkeppni við erlenda. Um er að ræða 324 tollskrárnúmer í 12 tollskrárköflum. Þá verða tollar einnig felldir niður af vara- og aukahlutum fyrir reiðhjól, af einnota og margnota bleium og bleiufóðri, af dömubindum og tíðatöppum og ís úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum sem inniheldur minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd. Á árinu 2017 þegar síðari áfanginn kemur til framkvæmda falla niður tollar af allri vöru í köflum 25 til 97 í tollskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta