Hoppa yfir valmynd
12. desember 2019 Forsætisráðuneytið

854/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019

Úrskurður

Hinn 4. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 854/2019 í máli ÚNU 19040005.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. apríl 2019, kærði A, f.h. Stapa ehf., afgreiðslutöf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna fyrirspurnar hans til ráðuneytisins, dags. 20. mars 2019. Kærandi óskaði eftir því með erindi, dags. 15. janúar 2019, að ráðuneytið svaraði spurningum í fjórum töluliðum varðandi samning ráðuneytisins við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ráðuneytið svaraði erindinu þann 27. febrúar 2019 en í svarinu komu fram upplýsingar um ákveðna korta- og gagnagrunna sem ÍSOR hefði í sínum fórum.

Með erindi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 20. mars 2019, óskaði kærandi eftir upplýsingum um það með hvaða hætti ÍSOR hefði komist yfir gagna- og kortagrunnana, sem væru samkvæmt lögum nr. 87/2003 skýlaus eign Orkustofnunar, en erindinu var ekki svarað. Hann ítrekaði erindið þann 28. mars 2019 og bætti þá við að hann vildi fá upplýsingar um það á grundvelli hvaða lagastoðar ÍSOR hefði komist yfir umrædda korta- og gagnagrunna. Erindi kæranda var ekki svarað.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu með bréfi, dags. 13. apríl 2019, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn með ástæðum afgreiðslutafarinnar. Tekið var fram að yrði erindinu synjað færi úrskurðarnefndin þess á leit henni yrðu afhent afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 15. apríl 2019, kemur fram að kærandi hafi þann 15. janúar 2019 óskað eftir upplýsingum og gögnum frá ráðuneytinu í tengslum við samning sem gerður var milli ráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og ÍSOR um sérstakt átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja. Ráðuneytið hafi svarað fyrirspurn kæranda þann 27. febrúar 2019 og sent honum þau gögn sem hann hafi óskað eftir. Samdægurs hafi borist svarbréf frá kæranda þar sem hann setti fram athugasemdir og ábendingar. Dagana 1., 20. og 28. mars 2019 hafi ráðuneytinu borist bréf frá kæranda þar sem hann hafi sett fram fleiri athugasemdir.

Fram kemur í umsögninni að ráðuneytið hafi hvorki hafnað því formlega að svara erindi kæranda frá 20. mars 2019 né að veita honum liðsinni við að afla svara við fyrirspurnum sínum. Hins vegar liggi fyrir að ráðuneytið hafi ekki náð að svara erindum kæranda innan þeirra tímamarka sem kærandi hafi sett í erindum sínum til ráðuneytisins. Þá segir að í erindi kæranda frá 20. mars 2019 og ítrekun þess frá 28. mars 2019 sé ekki að finna beiðni um fyrirliggjandi gögn í tilteknu máli, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, heldur fyrirspurnir um tiltekið málefni, og kalli erindið því á rannsóknarvinnu af hálfu ráðuneytisins. Þá sé það mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að ákvæði upplýsingalaga eigi ekki við í málinu þar sem ekki sé um að ræða beiðni um afhendingu gagna. Því séu ekki forsendur til staðar til að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kæruheimild til nefndarinnar á grundvelli upplýsingalaga sé ekki fyrir hendi. Þá er tekið fram að ráðuneytið telji afgreiðslu málsins ekki hafa dregist óhóflega þar sem svar við umræddum erindum kalli á nokkra rannsóknarvinnu. Í ljósi þessa beri að vísa erindinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Umsögn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. apríl 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, sem bárust samdægurs, hafnar hann því að ekki hafi verið um skýra beiðni um afhendingu gagna að ræða. Hann ítrekar fyrirspurn sína og áréttar að hann óski eftir gögnum, lögum, reglugerðum eða öðru haldbæru sem fært geti sönnur á að ÍSOR hafi komist með lögmætum hætti yfir umrædda korta- og gagnagrunna.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslutöf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna erindis kæranda þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um það með hvaða hætti og hvaða lagastoð hafi legið að baki því að Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafi komist yfir tiltekna korta- og gagnagrunna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að lög frá Alþingi verða almennt ekki talin til gagna sem teljast fyrirliggjandi hjá tilteknu stjórnvaldi í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012, enda eru lög birt almenningi með formlegum hætti, sbr. lög nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Nefndin lítur hins vegar svo á að kærandi óski eftir öllum gögnum ráðuneytisins sem varða kunna samskipti þess við ÍSOR um það hvernig stofnunin hafi komist yfir tiltekna korta- og gagnagrunna.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 15. apríl 2019, kemur fram að samkvæmt mati ráðuneytisins sé fyrirspurn kæranda ekki beiðni um tiltekin fyrirliggjandi gögn í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, heldur sé um að ræða fyrirspurn um tiltekið málefni sem kalli á rannsóknarvinnu af hálfu ráðuneytisins.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin er því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skal þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst á það með umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að því verði ekki gert að búa til ný gögn á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Hins vegar bar ráðuneytinu að taka til athugunar hvort fyrirliggjandi væru gögn í málaskrá þess sem felld yrðu undir gagnabeiðni kæranda. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að það hafi verið gert. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skortir því á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Verður því ekki hjá því komist að leggja fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 20. mars 2019, um upplýsingar varðandi það með hvaða hætti og á grundvelli hvaða lagastoðar Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafi komist yfir tiltekna gagna- og kortagrunna er vísað til umhverfis- og auðlindaráðuneytis til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson          Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta