Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýsköpun á réttri leið

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir - mynd

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var í viðtali við Fréttablaðið um nýsköpun í dag þar sem hún segir m.a. að íslensk fyrirtæki séu á réttri leið í nýsköpunargreinum og að ráðuneytið sé að hefja vinnu við heildstæða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.


Þegar Þórdís er spurð hver staðan sé í greininni þegar markaðurinn er skoðaður í heildina, svarar hún því til að nýsköpun sé ekki afmörkuð grein heldur viðfangsefni sem snertir flesta ef ekki alla þætti samfélagsins. „Hún er ein meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni þjóðarinnar hvort sem hún fer fram í ungum sprotafyrirtækjum eða hjá rótgrónum fyrirtækjum. Nýsköpun er einnig lykilatriði í viðleitni okkar til að bæta samfélagið. Þar má nefna sem dæmi nýsköpun í heilbrigðisþjónustu, opinberum rekstri, menntamálum og grænar lausnir í þágu umhverfisins.“

Hvernig styðja stjórnvöld nýsköpunarfyrirtæki?

„Stuðningur stjórnvalda við nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla kemur fram á ýmsum stigum nýsköpunar. Þar má kannski fyrst nefna stuðning til fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun. Sá fjárhagslegi stuðningur hefur mælst vel fyrir og verið fyrirtækjum hvatning til aukinnar nýsköpunar. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að þessi stuðningur verði aukinn. Stjórnvöld hafa einnig innleitt stuðning í formi skattaafsláttar til þeirra sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum og unnið er að því að bæta það stuðningskerfi enn frekar. Lögð hefur verið áhersla á að efla stuðning við opinbera samkeppnissjóði á Íslandi og má í því tilliti nefna að framlag til Tækniþróunarsjóðs hefur þrefaldast frá árinu 2014. Við erum einnig í samstarfi við erlenda vísinda- og tæknisjóði og greiðum framlag í þá. Þangað hafa íslenskir vísindamenn og frumkvöðlar sótt um styrki með mjög góðum árangri. Þá má nefna stofnanir sem veita mikilvægan stuðning við frumkvöðla, svo sem Nýsköpunarmiðstöð, Hönnunarmiðstöð, háskólastofnanir sem og frumkvöðlasetur og stafrænar smiðjur víðs vegar um landið. Þegar kemur að fjárfestingum í fyrirtækjum höfum við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem stutt hefur við sprotafyrirtæki bæði í gegnum beina fjárfestingu eða í samstarfi við aðra sjóði og almennt leggjum við áherslu á að eiga gott samstarf við þá öflugu einkaaðila sem starfa með frumkvöðlum. Það má segja að stjórnvöld styðji nýsköpun á ýmsum stigum en á sama tíma er okkur ljóst að betur má ef duga skal og því leita stjórnvöld sífellt leiða til að efla stuðningsumhverfið enn frekar og gera það skilvirkara og skýrara.“

Hvernig finnst þér fyrirtækjum í nýsköpun vegna á Íslandi og erum við nógu öflug á því sviði miðað við aðrar þjóðir?

„Þegar litið er á alþjóðlegar skýrslur um samkeppnishæfni má segja að Ísland standi nokkuð vel að vígi í alþjóðlegum samanburði. Helstu styrkleikar Íslands í samanburði við ríki Evrópusambandsins eru taldir vera nýsköpunarvænt umhverfi, rannsóknarkerfi, frumkvöðlahugsun og mannauður. Veikleikar okkar eru m.a. taldir snúa að sölu og markaðssetningu, hugverkaréttindum og fjármögnunarumhverfi. Hjá ráðuneytinu erum við einmitt að greina þessa þætti nánar í tengslum við það starf sem er að hefjast um mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu,“ svarar Þórdís.

„Nýsköpun í fyrirtækjum, hvort sem er í sprotafyrirtækjum eða rótgrónum fyrirtækjum, er meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni og nýsköpun innan fyrirtækja og stofnanna er forsenda fyrir bættu samfélagi. Það er okkur því lífsnauðsynlegt að Ísland sé og verði nýsköpunardrifið samfélag, einmitt vegna þess að nýsköpun skilar arði til samfélagsins.“

Eru of mörg fyrirtæki í nýsköpun að flytja vinnu sína til útlanda?

„Þetta er svolítið snúin spurning. Markmið margra fyrirtækja í nýsköpun er að selja vöru og þjónustu á erlendum mörkuðum og komast í samstarf við erlenda aðila. Það er því eðlilegt að einhver fyrirtæki flytji starfsemi til annarra landa og við gerum okkur grein fyrir því að vegna smæðar þjóðarinnar getum við ekki keppt við aðrar þjóðir á öllum sviðum. Það er á sama tíma mjög mikilvægt að við leggjum okkur fram um að skapa góð starfsskilyrði og frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og þróun hér á Íslandi hvort sem hún á sér stað í nýjum eða í rótgrónum fyrirtækjum. Þrátt fyrir smæð þjóðarinnar höfum við ýmislegt upp á að bjóða sem gerir landið að ákjósanlegum vettvangi fyrir frumkvöðlastarfsemi og uppbyggingu fyrirtækja.“

Þurfum við að efla sprotafyrirtækin sem eru að fóta sig?

„Já, svo sannarlega og stjórnvöld leggja sig fram um slíkan stuðning.“

Getur þú nefnt eitthvert íslenskt fyrirtæki sem hefur vakið sérstaka athygli þína varðandi nýsköpun?

„Í starfi mínu sem ráðherra verð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að kynnast fjölda fyrirtækja og sprota sem eru að gera gífurlega spennandi hluti. Það er erfitt fyrir mig að nefna eitt fyrirtæki frekar en annað, en sem dæmi má nefna hina miklu nýsköpun sem á sér stað innan sjávarútvegsins og í vinnslu sjávarafurða. Þar erum við t.d. að sjá spennandi tækniþróun í aðferðum til skurðar á fiski sem og nýtingu á fiskiroði í þágu heilbrigðistækni.“

 

  • Nýsköpun á réttri leið - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta