Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 192/2011

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 192/2011:

 

A

 

gegn

Fjölskyldusviði C

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi B, fyrir hönd ólögráða sonar hans, A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. desember 2011, er skotið til úrskurðarnefndarinnar synjun fjölskyldunefndar C frá 4. október 2011 um að veita drengnum ferðaþjónustu með ferðaþjónustu fatlaðra. Kæran er sett fram í nafni A.

A er fæddur 1. mars 2009 og er því þriggja ára gamall. Hann er fatlaður eins og fram kemur í bréfi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, dags. 21. mars 2011. Kærð hefur verið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sú ákvörðun fjölskyldunefndar C að synja umsókn um ferðaþjónustu fyrir A.

 

I. Málavextir.

A er þriggja ára gamall fatlaður drengur. Í bréfi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, dags. 21. mars 2011, kemur fram að hann er talinn hafa orðið fyrir súrefnisskorti í fæðingu og er með heilalömun og ótilgreinda þroskahömlun. Fram kemur að hann hafi tekið góðum framförum í hreyfifærni. Hann komi sér niður á fjóra fætur og skríði en fari svolítið út á hægri hliðina, en hann hefur betri stjórn og er sterkari í hægri líkamshelmingnum. Fínhreyfifærni drengsins er skert og hann á erfitt með að handfjatla hluti á markvissan hátt. Hann gefur frá sér ýmis hljóð en er ekki farinn að babla. A býr hjá foreldrum sínum og systur í C og hann er í D-skóla.

Sótt var um ferðaþjónustu fyrir drenginn með umsókn þann 1. september 2011 til þess að sækja sjúkraþjálfun og sund tvisvar sinnum í viku ásamt því að fá sjúkraþjálfun einu sinni í viku í D-skóla. Þeirri beiðni var synjað af Fjölskyldusviði C. Ákvörðunin var kærð til fjölskyldunefndar C sem staðfesti fyrri ákvörðun. Óskað var eftir einni ferð í viku á æfingarstöð vegna sjúkra- og iðjuþjálfunar fyrir drenginn.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sendi Fjölskyldusviði C bréf, dags. 2. apríl 2012. Þar var í fyrsta lagi spurt hvort Fjölskyldusvið C liti svo á að umsækjandi um ferðaþjónustu í málinu væri drengurinn sjálfur eða foreldrar hans. Í öðru lagi var óskað upplýsinga um það á hvaða grunni greiðslum umönnunarbóta Tryggingastofnunar ríkisins til foreldra sé ætlað að koma í stað kostnaðar foreldra við nauðsynlegan akstur fatlaðra barna sinna. Í þriðja lagi var óskað upplýsinga um það hvort sveitarfélagið hefði sett sér nýjar reglur um greiðslu ferðakostnaðar til fatlaðs fólks eftir setningu laga um málefni fatlaðs fólks nr. 152/2010.

Í svarbréfi Fjölskyldusviðs C, dags. 11. apríl 2012, kemur fram að fjölskyldunefnd C líti svo á að málsaðilar séu foreldrar sem fara með forsjá barns og barnið. Forsjárskylda foreldra sé skv. 1. mgr. 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003, að „annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum“. Í því felist að foreldrar skuli tryggja barni nauðsynlega þjálfun vegna fötlunar sinnar. Sem svar við annarri spurningu úrskurðarnefndarinnar er vísað í 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Loks er bent á að bæjarstjórn C hafi endurskoðað reglur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks og gjaldskrá um þjónustu eftir setningu laga nr. 152/2010 eða 29. febrúar 2012.

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að sonur hans þurfi að sækja bæði sjúkra- og iðjuþjálfun hjá E. Það þurfi hann að gera a.m.k. tvisvar í viku. Að auki hafi hann sótt sundþjálfun í sundlaug F. A sé með stuðningsmanneskju sér við hlið allan daginn í leikskólanum. Samkvæmt niðurstöðum athugunar á fagsviði hreyfi- og skynhamlana Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sé sérstaklega tekið fram að A muni áfram þurfa öfluga og markvissa íhlutun á öllum þroskaþáttum.

Fjölskyldunefnd C hafi synjað beiðni kæranda um ferðaþjónustu með Ferðaþjónustu fatlaðra þann 4. október 2011 á þeim grundvelli að það sé hvorki lögbundin skylda bæjarfélagsins að veita slíka þjónustu né samræmist það reglum bæjarfélagsins. Í bréfi framkvæmdastjóra Fjölskyldusviðs C, dags. 11. október 2011, segi að ferðaþjónusta við fatlaða eigi fyrst og fremst við fullorðið fólk. Í bréfi frá trúnaðarmálafundi Fjölskyldusviðs C, dags. 9. september 2011, sé beiðninni upprunalega hafnað á þeim forsendum að þjónustan sé ætluð þeim sem ekki geti nýtt sér almenningssamgöngur og segi að leikskólabörn falli ekki undir þá skilgreiningu vegna aldurs síns. Í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sé hvergi minnst á að ferðaþjónustan eigi aðeins við um fullorðið fólk. Í 2. gr. laganna segi að einstaklingur eigi rétt á þjónustu samkvæmt lögunum sé hann með andlega og líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Kærandi telji því ljóst að drengurinn eigi rétt á slíkri þjónustu eins og aðrir fatlaðir einstaklingar sem þurfi að mæta í lífsnauðsynlega þjálfun. Allt hans líf og lífsgæði byggi á því að hann fái viðunandi þjálfun.

Sá skilningur fulltrúa á trúnaðarmálafundi Fjölskyldusviðs C að þjónusta sem sérstaklega sé tekið fram í lögum að nái yfir alla fatlaða einstaklinga sem þurfi að komast leiðar sinnar á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu, þ.e. í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992, nái ekki yfir leikskólabörn sé að mati kæranda mismunun og brot á 65. gr. stjórnarskrár Íslands. Með því sé verið að mismuna barni vegna aldurs.

Fjölskyldunefnd C haldi því einnig fram að umönnunarbætur eigi að koma upp í ferðaþjónustu. Í bréfi sínu frá 11. október 2011 hafi fjölskyldunefndin vísað í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um félagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, nr. 504/1997, en þar komi fram að heimilt sé að meta til hækkunar greiðslna ef um sannanlega tilfinnanleg útgjöld sé að ræða, til dæmis vegna ferða- eða dvalarkostnaðar vegna læknismeðferðar. Það sé þó ekki í valdi sveitarfélags að ákvarða hvað falli undir umönnunarbætur og hvað ekki. Þá sé ljóst að í tilviki A sé ekki um læknismeðferð að ræða heldur stöðuga sjúkra- og iðjuþjálfun sem sé nauðsynleg fyrir þroska hans og framfarir. CP sé ólæknandi og ævilöng fötlun en með markvissri meðferð sé hægt að auka færni og getu.

Kærandi telji að sveitarfélaginu C beri lögbundin skylda til að veita umrædda þjónustu skv. 1. mgr. 36. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. Hvergi í lögunum sé þess getið að lögin eigi aðeins við um vissa aldurshópa. Þvert á móti segi í 2. gr. laganna að einstaklingur eigi rétt á þjónustu samkvæmt lögunum sé hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Þannig beri að skilja að lögin eigi við um fatlaða einstaklinga á hvaða aldri sem þeir séu.

Kærandi bendir á að yfirfærsla sértækrar félagsþjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga hafi verið með það að meginmarkmiði að bæta þjónustu við fatlaða og auka möguleika til að laga hana að þörfum hvers og eins. Félagsþjónusta í C sé ekki að vinna eftir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem meginmarkmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja velferð íbúa á grundvelli samhjálpar sem skuli gert meðal annars með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og veita aðstoð til þess að íbúar geti lifað sem eðlilegustu lífi skv. 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Farið er fram á að sveitarfélagið sinni skyldu sinni og veiti A þá ferðaþjónustu sem hann þarfnist og að réttur hans til þess verði viðurkenndur.

 

III. Málsástæður kærða.

Í bréfi framkvæmdastjóra Fjölskyldusviðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. janúar 2012, kemur fram að fjölskyldunefnd C hafi tekið mál þetta fyrir á fundi þann 4. október 2011 í kjölfar áfrýjunar og gert svohljóðandi bókun:

„Ferðaþjónusta fatlaðra fyrir A. Fjölskyldunefnd C getur ekki fallist á umsókn um ferðaþjónustu þar sem það er ekki lögbundin skylda bæjarfélagsins að veita slíka þjónustu né samræmist það reglum bæjarfélagsins. Umönnunargreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins er ætlað að vera fjárhagsleg aðstoð meðal annars til greiðslu útlagðs kostnaðar foreldra sem kemur til vegna meðferðar barna svo sem þjálfunar, heilbrigðisþjónustu eða greiðslna til sérfræðinga svo dæmi sé tekið.“

Bent er á að fjölskyldunefnd C hafi samþykkt þann 17. maí 2011 vegna sérstakra aðstæðna fjórar ferðir fyrir barnið. Í bókun nefndarinnar kemur fram að þar sem þjónustunni sé ekki ætlað að veita fötluðum börnum á leikskólaaldri þessa þjónustu sé starfsmönnum falið að leita leiða í samvinnu við forsjáraðila og leikskóla um lausn á málinu.

Fram kemur að reglur C um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk frá 5. desember 2007 kveði á um að markmið skv. 1. gr. reglnanna sé meðal annars að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir. En ung börn falli ekki undir þann hóp einstaklinga sem alla jafna myndi nýta sér almenningsfarartæki.

Fyrirkomulag þeirrar þjónustu hafi verið með þeim hætti að starfsmaður leikskólans hafi fylgt barninu ásamt öðru barni til þjálfunarinnar í bíl ferðaþjónustuaðilans. Þegar umsókn hafi borist í september hafi sá möguleiki verið skoðaður að foreldrar barna á leikskólanum sem sækja hafi þurft þjálfun utan skólans tækju sig saman um að standa straum af kostnaði við leigubifreið vegna ferðanna og að starfsmaður skólans fylgdi þeim. Þegar til hafi komið hafi ekki reynst unnt að fá starfsmann skólans til að fylgja börnunum. Foreldrar barnsins njóti umönnunargreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Í samtölum starfsmanns Fjölskyldusviðs við forsjáraðila barnsins hafi verið bent á að slíkar greiðslur til foreldra fatlaðra barna sé fjárhagsleg aðstoð til foreldra sem eigi börn sem glími við fötlun eða alvarleg veikindi. Þetta sé félagsleg aðstoð sem veitt sé þegar umönnun sé krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar sé orðinn umtalsverður og tilfinnanlegur fyrir foreldra.

 

VI. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, en 1. mgr. greinarinnar er svohljóðandi:

Fötluðum einstaklingi er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laga þessarar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskyldunefnd C beri að veita þriggja ára fötluðu barni ferðaþjónustu til þess að fara í sjúkra- og iðjuþjálfun og sund. Hin kærða synjun byggist á því að slíkur réttur fatlaðs barns sé ekki til staðar, og af þeim sökum hafi umsókninni verið hafnað. Sú ákvörðun hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Fjallað er um réttindi fatlaðra í lögum nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.

Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þá hafa sveitarfélögin með höndum innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar. Í 8. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að veita skuli fötluðu fólki þjónustu sem miði að því að gera því kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra, svokallaða stoðþjónustu. Stoðþjónustu á að veita á hverju svæði með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað og á hún að miðast við þarfir fatlaðs fólks, meðal annars miðað við þarfir til hæfingar, endurhæfingar og atvinnu sem meðal annars felast í því að það geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu. Þá er tekið fram í 35. gr. laganna að sveitarfélag skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu, en markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks sé að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum því ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í málinu er ágreiningur um þau réttindi sem felast í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, eins og henni var breytt með lögum nr. 152/2010. Snýst ágreiningur aðila í reynd um það hvort fatlað barn getið notið þeirra réttinda sem fötluðu fólki er færð með ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. 35. gr. laganna. Í fyrrgreindu ákvæði 1. og 2. mgr. 35. gr. laganna er fjallað um rétt fatlaðra til ferðaþjónustu, en þar segir að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu og skuli markmið hennar að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og að njóta tómstunda. Þá kemur einnig fram að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega. Er hér um að tefla skyldu sveitarfélaga sem byggð er á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar svo sem kærandi hefur haldið fram, og deila aðilar um hversu víðtæk sú skylda eigi að vera. Hefur kærandi byggt á því, fyrir hönd sonar síns, að hann eigi að njóta ferðaþjónustu þrátt fyrir ungan aldur sinn.

Í lögskýringargögnum með lögum nr. 152/2010 kemur fram að ekki hafi verið ætlun löggjafans að breyta þeim reglum sem áður giltu um rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu. Verður því að líta til forsögu ákvæðisins, en með frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 59/1992 var það nýmæli sett í 35. gr. laganna að sveitarfélög skyldu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Var ákvæðið svohljóðandi:

  1. málsl. Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.
  2. málsl. Jafnframt skulu fatlaðir eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.–4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega.

Kom fram í almennum athugasemdum með frumvarpinu að það mikilvæga nýmæli fælist í lögunum að lagðar væru skyldur á sveitarfélög um að veita fötluðum ferðaþjónustu þegar þeir gætu ekki nýtt sér almenningsfarartæki. Væri þá miðað við ferðir til og frá vinnustað eða skóla eða vegna tómstunda. Þá kom jafnframt fram í athugasemdum við ákvæði frumvarpsins sem varð 35. gr. að skyldur sveitarfélaga um ferðaþjónustu fatlaðra tækju til almennrar þjónustu við fatlaða, þ.e. ferða sem tengdust atvinnu, menningu, félagslífi og námi. Þá kom fram að:

„Um akstur til og frá skóla skal tekið fram að samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 49/1991, er sveitarfélögum skylt að sjá um akstur skólabarna og gildir það jafnt um fötluð sem ófötluð börn. Öðru máli gegnir um framhaldsskóla, en lög um framhaldsskóla, nr. 57/1988, eru ekki jafnótvíræð varðandi akstur fatlaðra nemenda. Til að brúa þetta bil þykir því nauðsynlegt að í lögum um málefni fatlaðra sé kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að bjóða upp á ferðaþjónustu vegna náms. Vart þarf að taka fram að auk náms í grunn- og framhaldsskóla getur hér verið um að ræða nám í háskóla, ýmis námskeið, símenntun o.fl.

Sveitarfélögin skulu setja reglur um ferðaþjónustu á þeirra vegum og geta í þeim reglum kveðið á um þátt hinna fötluðu í kostnaðinum, þó ekki vegna aksturs í grunnskóla.

Skyldur ríkisins í þessum efnum taka til ferða vegna sérstakrar þjálfunar og þjónustu við fatlaða. Viðmiðunin er sú að ferðirnar séu til og frá þjónustustofnunum skv. 1.–5. tölul. 10. gr. og vegna margvíslegrar sértækrar þjónustu sem fötluðum er veitt og skiptir í því efni ekki máli hvort sú þjónusta er á vegum opinbers aðila eða einkaaðila. Ferðaþjónusta þessi skal vera fötluðum algjörlega að kostnaðarlausu.“

Í greinargerð með lögum nr. 152/2010 kemur fram að með ákvæði 35. gr. sé lagt til að skýrt verði í 35. gr. laganna að ferðaþjónusta fatlaðs fólks eigi eingöngu við um þá sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar sinnar. Þá kemur fram að með ákvæðinu hafi ekki verið lagt til að um efnislega breytingu væri að ræða á framkvæmd þjónustunnar, en hins vegar hafi verið lagt til að ráðherra væri heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, þótt slíkar reglur væru eingöngu til leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin við smíði þeirra reglna sem þeim væri heimilt að setja um framkvæmd þjónustunnar í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Slíkar leiðbeinandi reglur hafa verið settar af hálfu velferðarráðherra. Í þeim er ekki gerður greinarmunur á einstökum ákvæðum 35. gr. laganna. Í 2. gr. leiðbeinandi reglna velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, sem öðluðust gildi 1. febrúar 2012 samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, segir: 

„Reglur sveitarfélags skulu skilgreina þann hóp notenda sem á rétt á þjónustu. Að lágmarki ætti skilgreiningin að fela í sér eftirfarandi:

a.      Að notandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu.
b.      Að notandi geti ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar.
c.       Að notandi eigi ekki bifreið sem keypt er með styrkjum frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 4. gr.

Sveitarfélag getur valið að hafa sameiginlegar reglur fyrir ferðaþjónustu sem taka til fleiri en þess hóps fatlaðs fólks sem reglurnar hafa gilt um hingað til og er þá einkum vísað til aldraðra, barna yngri en 18 ára og þeirra sem þurfa á almennri félagsþjónustu að halda. Í þeim tilvikum þurfa reglur sveitarfélagsins að vísa skýrlega til viðeigandi ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, þ.e. lögum um málefni aldraðra, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglum um skólaakstur. Í 7. gr. síðastnefndu reglnanna segir að grunnskólanemendur sem sökum fötlunar geta hvorki nýtt sér almenningssamgöngur né skólaakstur eigi rétt á ferðaþjónustu til og frá skóla.“

Í framangreindum leiðbeinandi reglum um ferðaþjónustu er vísað til þess að við setningu og framkvæmd reglna sinna skuli sveitarfélög taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 20. gr. samningsins kemur fram að aðildarríkin skuli gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem og þegar því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi.

Svo sem að framan greinir var við setningu laga nr. 152/2010 gengið út frá því að ekki yrði um að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem verið hafði á fyrirkomulagi ferðaþjónustu fatlaðra, og var jafnframt var tekið fram í lögskýringargögnum að með ákvæðinu væri ekki um efnislega breytingu væri að ræða á framkvæmd þjónustunnar.

Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hefur verið upplýst að ekki hefur verið litið svo á að börn yngri en 18 ára geti sótt um ferðaþjónustu á grundvelli ákvæðisins og samsvarandi ákvæðis í eldri lögum, eins og fram kemur í leiðbeinandi reglum velferðarráðneytis. Hins vegar sé sveitarfélögum í sjálfsvald sett að setja slíkar reglur. Fjölskyldunefnd C samþykkti reglur um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk þann 13. nóvember 2007, en í þeim er ekki fjallað um rétt barna yngri en 18 ára til ferðaþjónustu, og hið sama gildir um nýrri reglur sveitarfélagsins sem samþykktar voru þann 29. febrúar 2012.

Í 3. gr. reglnanna kemur fram að rétt til ferðaþjónustu fatlaðra eigi þeir íbúar C sem eru hjólastólsnotendur, blindir og geta eigi notað önnur flutningstæki, þeir sem ófærir eru um að nota almenningsvagnaþjónustu vegna annarrar fötlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki. Enn fremur er þar tekið fram að í sérstökum tilvikum sé heimilt að veita 67 ára og eldri ferðaþjónustu þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skyldur bæjarfélagsins til slíkrar þjónustu samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Í reglunum er ekki fjallað um ferðaþjónustu barna yngri en 18 ára.

Við meðferð málsins hefur verið upplýst að af hálfu fjölskyldunefndar C sé litið svo á að umsækjendur um þjónustu séu foreldrar sem fari með forsjá fatlaðs barns, meðal annars með vísan til 1. mgr. 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Þá hefur því jafnframt verið haldið fram að umönnunargreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins sé ætlað að vera fjárhagsleg aðstoð meðal annars til greiðslu útlagðs kostnaðar foreldra sem kemur til vegna meðferðar barna, svo sem þjálfunar, heilbrigðisþjónustu eða greiðslna til sérfræðinga. Í 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er kveðið á um umönnunargreiðslur. Þar kemur fram að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið og þess að markmið þeirra reglna sem fram koma í lögum nr. 59/1992 eins og þeim var breytt með lögum nr. 152/2010, sem og inntaki leiðbeinandi reglna ráðherra sem settar voru á grundvelli 35. gr. laganna, verður að fallast á það með kærða, fjölskyldunefnd C, að hafna umsókn kæranda um ferðaþjónustu sem hér um ræðir. Við úrlausn málsins hefur verið litið til þess að um er að ræða barn sem er ólögráða, og fara foreldrar með forsjá þess. Kærði hefur ekki sett sérstakar reglur um ferðaþjónustu vegna fatlaðra barna, en upplýst hefur verið að þegar um er að ræða barn undir 18 ára aldri sem lýtur forsjá foreldra, eiga foreldrar rétt til greiðslna vegna ferðakostnaðar, sem hluta umönnunarbóta sem greiddar eru foreldrum langveikra barna á grundvelli laga nr. 99/2007. Sú ferðaþjónusta sem fötluðu fólki er færð í 35. gr. laga nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, hefur því verið takmörkuð við þá sem eru eldri en 18 ára.

Samkvæmt framansögðu er ákvörðun fjölskyldunefndar C frá 4. október 2011 í máli A staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun fjölskyldunefndar C frá 4. október 2011 í máli A er staðfest.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta