Stuðningur efldur við umhverfis- og loftslagsvæn nýfjárfestingaverkefni
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað stýrihóp um eflingu umhverfis- og loftslagsvænna nýfjárfestinga.
Verkefnið hefur hlotið heitið „Græni dregillinn“ og er ætlað að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni á Íslandi. Markmið Græna dregilsins er að framfylgja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs t.a.m. á sviði útflutnings, erlendrar fjárfestingar, nýsköpunar, orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni, og fjölga störfum með áherslu á græna nýsköpun, aukna framleiðni og virkjun hugvits til þess að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda, hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi.
Er verkefninu ætlað að bæta ferla og þjónustu, allt frá hugmynd að rekstri, við nýfjárfestingarverkefni sem falla að þessari stefnumótun eða eru á skilgreindum þróunarsvæðum sveitarfélaga. Fyrir liggur að allmörg nýfjárfestingarverkefni eru í athugun víðs vegar um landið.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mikilvægt að stuðla að auknum fjárfestingum í verkefnum sem leggja sitt af mörkum til að ná fram markmiðum stjórnvalda um minni losun gróðurhúsalofttegunda, hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi. Við sem þjóð höfum dregist aftur úr hvað varðar stuðningsumhverfi við nýfjárfestingarverkefni og því er nauðsynlegt að gera betur með aukinni samvinnu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Ég hef trú að græni dregillinn muni ná að efla atvinnulífið, auka samkeppnishæfni Íslands og treysta byggð á landsbyggðinni með grænum nýfjárfestingum og uppbyggingu grænna iðngarða.“
Gerður verður samstarfssamningur á milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Íslandsstofu um verkefnisstjórn verkefnisins varðandi stuðning við landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög og aðra hagaðila við að skilgreina og þróa tækifæri til nýfjárfestinga og bæta þjónustu við áhugasama fjárfesta.
Stýrihópinn skipa þau:
Diljá Mist Einarsdóttir, formaður
Halla Sigrún Sigurðardóttir, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
Guðlaug Guðjónsdóttir, Skattinum
Ólafur Árnason, Skipulagsstofnun
Sigríður Elín Þórðardóttir, Byggðastofnun
Hugrún Geirsdóttir, Umhverfisstofnun
Ragnar G. Kristjánsson, utanríkisráðuneytinu
Eggert Benedikt Guðmundsson, forsætisráðuneytinu
Ólafur Heiðar Helgason, fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Sigríður Valgeirsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu
Arnheiður Ingjaldsdóttir, innviðaráðuneytinu
Ingvi Már Pálsson, menningar- og viðskiptaráðuneytinu
Björn Helgi Barkarson, matvælaráðuneytinu
Pétur Óskarsson, Íslandsstofu
Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun
Hrönn Hrafnsdóttir, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er starfsmaður stýrihópsins.