Átak í friðlýsingum – Skýrsla Umhverfisstofnunar
Umhverfisstofnun hefur gefið út skýrslu á rafrænu formi um átak í friðlýsingum sem unnið var að á árunum 2018-2021.
Í skýrslunni er farið yfir tilurð og tímalínu átaksins, auk þess sem sérstaklega er fjallað um friðlýsingar sem unnar voru á grundvelli rammaáætlunar og náttúruverndaráætlana stjórnvalda. Þá er í skýrslunni að finna upplýsingar um þau svæði sem voru friðlýst, þar sem m.a. er dregið fram hvaða náttúruverðmæti má finna á svæðunum. Skýrslan hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar og við framsetningu hennar var haft í huga að hún væri aðgengileg til lestrar með ljósmyndum af svæðunum, auk korta og annarrar myndrænnar framsetningar.
„Skýrsla Umhverfisstofnunar um átak í friðlýsingum er vel fram sett og er aðgengileg öllum sem vilja kynna sér þau svæði sem voru friðlýst í ferlinu. Í skýrslunni kemur einnig fram að það felst áskorun í því að friðlýsa svæði og að samtal er mikilvægt. Ég tek undir það og tel samtalið ekki bara mikilvægt heldur það allra mikilvægasta þegar kemur að friðlýsingum“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra