Hoppa yfir valmynd
15. maí 2015 Forsætisráðuneytið

583/2015. Úrskurður frá 15. maí 2015

Úrskurður

Hinn 15. maí 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 583/2015 í máli ÚNU 14050008. 

Kæra og málsatvik

Með bréfi dags. 26. maí 2014 kærði A hrl., f.h. B, synjun embættis ríkislögreglustjóra á beiðni um upplýsingar um hvaða einstaklingum hefur verið veitt leyfi til að kalla sig byssusmið og á hvaða forsendum. 

Í upphaflegri gagnabeiðni kæranda, dags. 23. janúar 2014, kom fram að kærandi stundaði nám í byssusmíði við vopnasmíðaskóla í Liege í Belgíu á árunum 1992 til 1995. Í kjölfarið fékk hann leyfi ráðherra til að kalla sig byssusmið. Kærandi fékk spurnir af því að fleiri einstaklingum hefði verið veitt sambærilegt leyfi og óskaði eftir afritum af leyfisbréfum þeirra. Ríkislögreglustjóri synjaði beiðninni með bréfi dags. 28. apríl 2014. Þar kom fram að umbeðnar upplýsingar yrðu ekki veittar á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kærandi teldist ekki aðili máls. Þá taldi embættið upplýsingarnar undanþegnar upplýsingarétti almennings samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Sem fyrr segir kærði kærandi synjun ríkislögreglustjóra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 26. maí 2014. Í kæru segir að kærandi muni vera sá eini á Íslandi sem lokið hefur námi í byssusmíði. Þrátt fyrir það virðist fleiri einstaklingar hafa fengið leyfi til að nota starfsheitið byssusmiður. Kærandi telur að embætti ríkislögreglustjóra hafi ekki verið rétt að synja um aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Ekki sé að finna röksemdir fyrir þeirri niðurstöðu í ákvörðun ríkislögreglustjóra, heldur eingöngu vísað almennt til ákvæðisins og álita umboðsmanns Alþingis án frekari tilgreiningar. Ekki verði hins vegar séð að um sé að ræða gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari í skilningi ákvæðisins. Í því samhengi bendir kærandi á að til séu opinberar skrár um fjölda starfsstétta, t.d. lögmenn og endurskoðendur. Þá telur kærandi jafnframt að hagsmunir almennings standi til þess að veittur verði aðgangur að upplýsingum um hverjir hafa leyfi til að kalla sig byssusmið, og vegi þyngra en hagsmunir viðkomandi aðila á því að slíkum upplýsingum sé haldið leyndum. Miklu skipti að öryggi skotvopna og þeirra sem meðhöndla þau sé eins og best verður á kosið. Loks segist kærandi eiga beinna persónulegra hagsmuna að gæta af því að fá aðgang að framangreindum upplýsingum með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og  stjórnsýsluréttarins. 

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 3. júní 2014 var kæran kynnt ríkislögreglustjóra og embættinu veittur frestur til að koma að umsögn. Jafnframt var óskað eftir því að nefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn ríkislögreglustjóra barst þann 23. júní 2014. Þar kemur fram að veiting leyfa til að framleiða skotvopn, skotfæri, sprengiefni eða skotelda í atvinnuskyni hafi færst frá dómsmálaráðuneyti til embættisins við gildistöku vopnalaga nr. 16/1998. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna sé aðeins heimilt að veita slíkt leyfi til einstaklings sem hafi skotvopnaleyfi og sýni að öðru leyti fram á hæfni sína til framleiðslunnar. Með breytingu á lögunum þann 23. mars 2007 hafi lögreglustjórum verið falið að veita leyfin. Ríkislögreglustjóri bendir á að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn, skotfæri o.fl. sé með framleiðslu átt við tilbúning, samsetningu, endurbætur og viðgerðir á skotvopnum. Því falli starfsemi byssusmiða undir 4. gr. vopnalaga. Þar sem byssusmíði sé ekki löggilt iðngrein á Íslandi geti ekki komið til slíkrar viðurkenningar frá iðnfræðsluyfirvöldum. 

Í umsögninni kemur einnig fram að embætti ríkislögreglustjóra hafi veitt einum einstaklingi leyfi til að kalla sig byssusmið. Embættið hafi einnig farið þess á leit við lögreglustjóra og innanríkisráðuneytið að stjórnvöldin veittu upplýsingar um fjölda útgefinna leyfa til að nota starfsheitið byssusmiður. Í kjölfarið hafi embættið fengið upplýsingar um að alls hafi tólf leyfi verið veitt og leiðbeint kæranda um að beina erindi til þeirra stjórnvalda sem fara með leyfisveitinguna samkvæmt lögum.  

Ríkislögreglustjóri kveðst hafa synjað kæranda um aðgang að þeim upplýsingum sem voru fyrirliggjandi hjá embættinu, um nafn þess einstaklings sem hlotið hefði leyfi þess til að starfa sem byssusmiður, á þeim forsendum að kærandi væri ekki aðili að máli í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hefði embættið talið að 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ætti við þar sem um einkamálefni einstaklings væri að ræða. Engin ákvæði sé að finna í lögum eða reglugerð um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að öðlast viðurkenningu sem byssusmiður. Tekið hafi verið mið af námi og/eða reynslu í renni- og byssusmíði.  

Með bréfi dags. 25. júní 2014 var umsögn ríkislögreglustjóra kynnt kæranda og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Þann 7. apríl 2015 óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu þess einstaklings, sem umbeðin gögn fjalla um, til afhendingar gagnanna. Með tölvupósti þann 13. apríl 2015 hafnaði viðkomandi því að upplýsingar um hann verði látnar af hendi.  

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um aðgang að tveimur skjölum í fórum embættis ríkislögreglustjóra. Um er að ræða viðurkenningu embættisins á réttindum einstaklings til starfa við byssusmíði (leyfisbréf) og tilkynningu sem fylgdi leyfisbréfinu. Embætti ríkislögreglustjóra veitti leyfið á grundvelli 2. mgr. 4. gr. vopnalaga nr. 16/1998, en ákvæðinu hefur nú verið breytt á þann veg að lögreglustjórar fari með leyfisveitingarvaldið.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur borið fyrir sig að kærandi geti ekki talist aðili að máli í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því tilefni skal tekið fram að upplýsingalög nr. 140/2012 gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Þar sem kærandi telst ekki aðili að máli í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga, fer því um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum upplýsingum eftir ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Umbeðin gögn hafa ekki að geyma upplýsingar um kæranda sjálfan í skilningi 14. gr. upplýsingalaga og ræðst réttur kæranda til aðgangs því af upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. 

Eftir stendur að taka afstöðu til þess hvort ákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, takmarki rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum. Í ákvæðinu segir: 

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ 

Sá einstaklingur sem í hlut á hefur lagst gegn afhendingu umbeðinna gagna. Synjun á beiðni kæranda um aðgang að leyfisbréfi hans til starfa við byssusmíði fær því aðeins staðist að fyrir liggi að upplýsingarnar sem þar komi fram varði einka- eða fjárhagsmálefni einstaklingsins sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.  

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér umbeðin gögn. Þau innihalda ekki upplýsingar um rekstur, fjárhagsmálefni eða viðskipti þess einstaklings sem fékk útgefið leyfisbréf. Ekki er unnt að líta svo á að nokkrar upplýsingar sem þar koma fram geti skert samkeppnisstöðu hans við byssusmíði í atvinnuskyni. 

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir í athugasemdum við 9. gr.: 

„Undir 9. gr. geta fallið upplýsingar um hvort tiltekið mál er snertir ákveðinn einstakling sé eða hafi verið til meðferðar. Dæmi um slík tilvik væru t.d. upplýsingar um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi lagt fram umsókn um leyfi til að ættleiða barn, umsókn um fjárhagsaðstoð frá félagsmálastofnun eða umsókn um fóstureyðingu.“ 

Leyfisumsóknirnar sem þarna eru taldar upp í dæmaskyni eiga það sameiginlegt að taka til afar persónulegra málefna umsækjandans. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geta sömu sjónarmið ekki átt við um opinbera leyfisveitingu til að starfa sem byssusmiður og verður fallist á með kæranda að almenningur eigi rétt á að kynna sér hverjir hljóta slíkar viðurkenningar á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með vísan til alls framangreinds ber að fella hina kærðu ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra og leggja fyrir stjórnvaldið að afhenda kæranda umbeðin gögn eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Úrskurðarorð:

Embætti ríkislögreglustjóra ber að afhenda B viðurkenningu á réttindum til starfa við byssusmíði ásamt tilkynningu til leyfishafa dags. 21. apríl 2006. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta