Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2015 Forsætisráðuneytið

589/2015. Úrskurður frá 28. ágúst 2015

Úrskurður

Hinn 28. ágúst 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 589/2015 í máli ÚNU 14090003.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 3. september 2014 kærði A ákvörðun Borgarskjalasafns dags. 6. ágúst 2014, þar sem kæranda var synjað um aðgang að upplýsingum. Kærandi óskaði upphaflega með tölvupósti dags. 5. desember 2013 eftir skjölum sem kynnu að vera í vörslum safnsins um sig persónulega frá fæðingu. Daginn eftir fyllti kærandi út eyðublað hjá safninu þar sem fram kemur að óskað sé eftir ljósritum af öllum gögnum sem til séu um hans mál. Í reitinn „tímabilið“ er ritað árabilið 1954-1970. Í hinni kærðu ákvörðun segir að leitað hafi verið ítarlega á safninu og fundist hafi skjöl frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Barnavernd Reykjavíkur frá árunum 1955-1961. Einnig hafi fundist lítilræði af skjölum frá árinu 1989 sem fylgi með. Fram kemur að í hluta skjalanna sé fjallað um einkamálefni annarra einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, og þær hafi verið afmáðar með vísan til 3. mgr. 14. gr. sömu laga.

Í kæru kemur fram að kærandi geti ekki fellt sig við að nánast allar upplýsingar sem gætu verið tiltækar safninu eigi að fara leynt. Ef það dygði í þessu samhengi að vísa til þess að upplýsingar varði foreldra þyrfti safnið varla að leita að upplýsingum um börn, þar sem allar upplýsingar um börn varði einnig aðra. Að auki sé tilgangur upplýsingalaga að tryggja aðgang að upplýsingum en takmarkanir á þeim rétti séu undantekningarreglur. Kærandi telur að Borgarskjalasafn beiti undantekningu laganna of frjálslega.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 18. september 2014 var kæran kynnt Borgarskjalasafni og því gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Umsögnin barst þann 2. október 2014. Þar kemur í upphafi fram að leit að upplýsingum samkvæmt beiðni kæranda hafi leitt í ljós takmarkað magn gagna. Þó hafi fundist spjald yfir mál föður og móður kæranda í spjaldskrá Barnaverndarnefndar, þar sem vísað var í tvær lögregluskýrslur, gjörðabók nefndarinnar og heimiliseftirlitsskýrslur frá árinu 1956. Kærandi hafi fengið afrit þessara gagna með þeim takmörkunum sem greinir í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í hluta þeirra skjala er fundust í gjörðabók nefndarinnar sé fjallað um einkamálefni annarra einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Þá hafi fundist mál á nafni föður kæranda vegna fjárhagsaðstoðar Félagsmálastofnunar. Kærandi hafi ekki fengið aðgang að þeim gögnum þar sem þau hafi ekki varðað hann persónulega, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Borgarskjalasafn segir að kærandi hafi fengið aðgang að öllum gögnum sem fundust á safninu og vörðuðu hann sjálfan. Ekki hafi þurft að afmá nema mjög lítinn hluta þeirra gagna sem fundust. Ekki hafi komið til greina að veita aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni föður kæranda, en þau hafi meðal annars varðað vanskil, kröfur um nauðungaruppboð, læknisvottorð, skattframtal, umsóknir um framfærslustyrk, álagningarseðla og afrit af bréfaskiptum við ríkisskattstjóra. Loks vill Borgarskjalasafn benda á úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 29. júlí 2008 nr. A-283/2008. Þar sé fjallað um kæru kæranda vegna fyrri ákvörðunar Borgarskjalasafns um að synja honum um aðgang að fjárhagsupplýsingum um föður hans. Ekki verði séð að málsástæður kæranda hafi breyst frá fyrri afgreiðslu og að Borgarskjalasafn búi ekki yfir frekari upplýsingum um kæranda eða fjölskyldu hans frá því að úrskurðurinn gekk. Umsögninni fylgdi afrit af þeim gögnum sem kærandi fékk aðgang að og eins þeim sem haldið var eftir.

Umsögn Borgarskjalasafns var kynnt kæranda með bréfi dags. 3. október 2014 og honum veittur kostur á að gera frekari athugasemdir. Þær bárust þann 9. október 2014. Kærandi áréttar að í beiðni hans hafi ekki falist ósk um upplýsingar sem þegar hafi verið synjað um. Kærandi óski upplýsinga um mál sem sannanlega snerti sig, hvort sem þær snerti einnig foreldra hans eða systkini. Fullyrðingar Borgarskjalasafns um að ekki sé að finna fleiri upplýsingar um kæranda séu ótrúverðugar, þar sem kærandi muni eftir heimsóknum barnaverndarnefndar á heimili sitt í barnæsku.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum um sig í fórum Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Kærandi óskaði upphaflega með tölvupósti eftir „skjölum sem kunna að vera í vörslum [safnsins] varðandi [kæranda] persónulega frá fæðingu.“ Í eyðublaði sem kærandi fyllti út hjá safninu kemur fram að óskað sé eftir „öllum gögnum um [kæranda]“ og „öllum gögnum sem til eru í Borgarskjalasafni um hans mál“.

Skilja verður beiðni kæranda á þann veg að óskað sé eftir öllum fyrirliggjandi gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Réttur kæranda til aðgangs að slíkum gögnum er meðal annars takmarkaður af 3. mgr. 14. gr., en þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang. Í framkvæmd hefur ákvæðið verði skýrt þannig að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingar varða hann sjálfan þannig að hann hafi einstaklega hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnunum.

Borgarskjalasafn er héraðsskjalasafn sem fellur undir lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014. Um beiðni kæranda gilda því jafnframt ákvæði VI. kafla laganna, en í 30. gr. kemur fram að opinberu skjalasafni er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum um hann þegar liðin eru 30 ár frá því að þau urðu til, enda gildi ekki þær takmarkanir um skjalið sem fram koma í 27. og 28. gr. laganna. Óumdeilt er að 30 ára frestur ákvæðisins er liðinn í tilviki umbeðinna gagna. Einnig er heimilt skv. 2. mgr. 30. gr. laganna að takmarka aðgang aðila að skjölum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að skjölum. Framangreint ákvæði er þannig samhljóða ákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Við meðferð á beiðni kæranda hefur Borgarskjalasafn leitað gagna um fjölskyldu hans á tímabilinu 1954-1970. Safnið hefur afhent úrskurðarnefndinni ljósrit af öllum gögnum sem safnið kveður hafa fundist við leitina, ásamt ljósritum af þeim hluta þeirra sem kæranda var afhentur. Ekki eru efni til að draga í efa þá fullyrðingu Borgarskjalasafns að ekki hafi fundist önnur gögn við leitina er varða kæranda og fjölskyldu hans. Þá er einnig til þess að líta að í máli þessu er ekki deilt um aðgang kæranda að öðrum gögnum en þeim sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 29. júlí 2008 nr. A-283/2008. Þar var leyst úr beiðni kæranda á grundvelli II. kafla eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 um upplýsingarétt almennings. Komist var að þeirri niðurstöðu að Borgarskjalasafni hafi verið rétt að takmarka aðgang kæranda á grundvelli fyrri málsl. 5. gr. laganna.

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi þann 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Um gagnabeiðni kæranda gilda því ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 sem og ákvæði laga nr. 77/2014.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þau gögn sem fundust á Borgarskjalasafni um fjölskyldu kæranda. Sá hluti gagnanna, sem Borgarskjalasafn synjaði kæranda um aðgang að, fjallar ekki með beinum hætti um kæranda sjálfan, heldur foreldra hans. Gögnin urðu til á meðan kærandi var ólögráða og bjó á heimili foreldra sinna. Fallast má á með kæranda að hann kunni að hafa af því hagsmuni umfram aðra að fá slík gögn í hendur. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að gögnin hafa nánast einvörðungu að geyma upplýsingar um einkamálefni foreldra kæranda, einkum heilsufar þeirra og fjárhagsmálefni. Því þarf að vega hagsmuni kæranda af því að fá aðgang að upplýsingunum gagnvart hagsmunum foreldra hans af því að aðgangur hans verði takmarkaður.

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. má ekki gera rannsókn á skjölum manns eða sambærilega skerðingu á einkalífi hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Ákvæðið er ekki bundið því skilyrði að sá sem rannsóknin varðar sé á lífi. Verður því að telja að foreldrar kæranda heitin njóti þeirrar verndar æru og friðhelgi einkalífs sem ákvæðið mælir fyrir um. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar má með sérstakri lagaheimild takmarka friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Telja verður að 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 30. gr. laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 mæli fyrir um slíkar heimildir.

Ákvæði 3. mgr. 9. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sem svarar til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, hefur verið skýrt á þá leið að sá sem beiðist aðgangs að gögnum um einkamálefni annarra þurfi að sýna fram á sérstaka lögvarða hagsmuni af því að kynna sér þau. Úrskurðarnefndin telur að skýra beri 2. mgr. 30. gr. laga um opinber skjalasöfn með sama hætti. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-294/2009 féllst nefndin á að gögn um heilsufar afa og ömmu kæranda í málinu, sem voru látin þegar hann beiddist aðgangs, gætu varpað ljósi á hæfi þeirra til að ráðstafa tilteknum eignum sínum, en kærandi í málinu var lögerfingi þeirra þegar ráðstöfunin átti sér stað. Í málinu sem hér er til úrlausnar hefur kærandi hins vegar ekki vísað til þess að hann hafi aðra hagsmuni af aðgangi að umbeðnum gögnum en að kynna sér aðstæður á bernskuheimili sínu.

Þegar vegnir eru saman hagsmunir kæranda af því að fá afhent gögn um viðkvæm einkamálefni foreldra sinna, og hagsmunir foreldra hans af því að þau fari leynt, verður að telja að Borgarskjalasafni hafi verið rétt að takmarka aðgang kæranda að þeim, samanber 2. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2014 og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun Borgarskjalasafns að synja kæranda, A, um aðgang að gögnum um kæranda persónulega frá fæðingu, umfram þann hluta sem kærandi hefur þegar fengið aðgang að.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta