Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Réttar upplýsingar um fjölda fólks yngra en 67 ára á hjúkrunarheimilum

Sjúkratryggingar Íslands hafa að beiðni velferðarráðuneytisins tekið saman upplýsingar um fjölda þeirra sem eru yngri en 67 ára og búa á hjúkrunarheimilum. Í ljósi opinberrar umfjöllunar um þessi mál telur ráðuneytið mikilvægt að koma þessum upplýsingum á framfæri.

Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar búa samtals 139 einstaklingar yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum. Af þeim eru 20 sem búa á sérhæfðum hjúkrunardeildum í Mörk og á Skógarbæ í Reykjavík sem ætlaðar eru yngra fólki og 42 einstaklingar í hjúkrunarrýmum í Ási í Hveragerði og á Fellsenda í Dölum sem ætluð eru fólki með geðraskanir. Að þessu fólki frátöldu eru því 77 einstaklingar á landsvísu undir 67 ára aldri sem búa í almennum hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið.

Af þeim hópi einstaklinga í hjúkrunarrýmum sem eru yngri en 67 ára eru 8 einstaklingar undir fimmtugu.

Fjallað var um ungt fólk á hjúkrunarheimilum á málþingi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem haldið var í gær og málið var einnig til umræðu í Kastljósi RÚV. Í dagskrárboði málþingsins kom fram að þar yrði rætt hvort það „sé rétt stefna að ungt fólk flytji á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og búi þar áratugum saman“ og einnig  „[hvort allir eigi] að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi.“

Það er ekki rétt sem skilja má af fyrrgreindri tilvitnun að allir eigi að geta búið á hjúkrunarheimilum óháð þjónustuþörf og sjúkdómsástandi. Hið rétta er að enginn fer inn á hjúkrunarheimili nema að undangengnu formlegu mati á heilsu og færni sem leiðir í ljós að viðkomandi geti ekki lengur búið á eigin heimili, þrátt fyrir félagsþjónustu, heimahjúkrun og önnur stuðningsúrræði. Það er hins vegar rétt að lögum samkvæmt geta þeir sem eru yngri en 67 ára fengið búsetu á hjúkrunarheimili ef nauðsynlegt er talið samkvæmt færni- og heilsumati.

Í ljósi umræðunnar vill Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggja áherslu á að þótt dæmi séu um að ungt fólk fari inn á hjúkrunarheimili til varanlegrar  búsetu eigi það að heyra til undantekninga og ekki að eiga sér stað nema ljóst sé að önnur úrræði hafi verið fullreynd: „Sveitarfélögin hafa ríkar skyldur gagnvart fötluðu fólki og innleiðing notendastýrðar persónulegrar aðstoðar mun tvímælalaust efla möguleika fatlaðs fólks til sjálfstæðrar búsetu til muna. Ég er sammála því að gagnvart því fólki sem býr við þær heilsufarsástæður að ekki er unnt að veita því fullnægjandi aðhlynningu nema í hjúkrunarrými er mikilvægt að geta boðið upp á sérhæfðar deildir, líkt og eru fyrir hendi í Mörk og Skógarbæ í Reykjavík. Þetta getur hins vegar verið vandkvæðum bundið í fámennari sveitarfélögum og brýnt að við þær aðstæður takist stjórnendur hlutaðeigandi stofnana á við þær áskoranir með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi“ segir heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta