Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 179/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 179/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15060016

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með bréfi, dags. 18. júní 2015, kærði [...] f.h. [...], ríkisborgara [...], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júní 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að veita honum leyfi til dvalar hér á landi. Þá var þess krafist að kærunefnd útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar þar til niðurstaða lægi fyrir í máli kæranda.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins fékk kærandi útgefið dvalarleyfi hér á landi sem maki EES-borgara þann 9. janúar 2013 með gildistíma til 9. janúar 2018. Kæranda [...]. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 15. desember 2014. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júní 2015, var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.

Með bréfi, dags. 23. júní 2015, var framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar útlendingamála. Með tölvupósti, dags. 23. júní 2015, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 3. júlí 2015. Þann 28. september 2015 var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað á meðan málið væri til meðferðar á kærustigi. Greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd þann 30. október 2015.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002. [...] var það mat stofnunarinnar að kærandi uppfyllti ekki framangreint skilyrði laganna og því væri réttur hans til dvalar hér á landi fallinn niður, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga.

Við mat sitt á sérstökum tengslum kæranda við landið byggði Útlendingastofnun m.a. á því að 12. gr. f laga um útlendinga væri undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt. Kærandi hafi dvalist hér á landi í rúmlega tvö ár, en slík dvöl ein og sér myndi ekki svo sérstök tengsl við landið að það réttlæti útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f. Kærandi hafi engin fjölskyldutengsl við landið. Stofnunin byggði á því að samkvæmt leiðbeinandi sjónarmiðum við veitingu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla, gefnum út af innanríkisráðuneytinu, hafi það mest vægi við heildarmat á aðstæðum útlendings, hvort hann eigi nákomna ættingja hér á landi. Sjónarmið um félagsleg tengsl eða tengsl vegna atvinnuþátttöku geti eitt og sér aldrei verið næg ástæða fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla, þó kærandi hafi verið í virkri atvinnuþátttöku um nokkurt skeið og fyrir lægi að hann gæti starfað áfram fyrir sama vinnuveitanda. Stofnunin taldi ennfremur að kæranda stafaði ekki ógn af því að snúa aftur til heimalands [...].

Þá mat stofnunin aðstæður kæranda ekki með þeim hætti að 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1944, leiddu til þess að beitt yrði undanþágu 12. gr. f laga um útlendinga og þannig vikið frá skýrri meginreglu.

IV. Málsástæður og kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að veita honum dvalarleyfi hér á landi.

Í greinargerð sinni byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi verið óheimilt að synja umsókn hans um dvalarleyfi, enda uppfylli hann skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið. Kærandi byggir á því að stofnunin hafi ekki farið eftir leiðbeinandi sjónarmiðum innanríkisráðuneytisins um túlkun 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi telur stofnunina hafa þrengt verulega þau skilyrði sem uppfylla þurfi til þess að um sérstök tengsl við landið sé að ræða. Þá byggir kærandi á því að við meðferð á umsókn kæranda hafi stofnunin ekki gætt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi kveðst hafa dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis frá október 2012, þ.e. í rúmlega þrjú ár. Byggir kærandi á því að þar með uppfylli hann skilyrði um að hafa dvalið löglega hér á landi á síðastliðnum 10 árum. Kærandi vísar til ákvæðis í framangreindum leiðbeiningum sem segir að skammvinn dvöl (undir tveimur árum) í landinu einu og sér án nokkurra tengsla við ættingja hér á landi kæmi aðeins í mjög sérstökum tilvikum til álita sem sérstök tengsl. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að skoða sérstaklega hvort áðurnefnt sjónarmið ætti við um hann í ljósi stöðu hans. Kærandi byggir á því að [...]. [...]. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hefði borið að taka tillit til þess sjónarmiðs að einstaklingur geti myndað tengsl við landið, sem grundvallað geta dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu, jafnvel þótt hann eigi enga ættingja hér á landi. Í ljósi þess að engin slík rannsókn hafi farið fram hjá stofnuninni við meðferð umsóknar kæranda sé um brot á 10. gr. stjórnsýslulaga að ræða.

Þá byggir kærandi á því að samkvæmt leiðbeinandi sjónarmiðum sé gert ráð fyrir að fram fari heildstætt mat á öllum aðstæðum. Jafnframt telur kærandi að líta beri til b-liðar áðurnefndra leiðbeinandi sjónarmiða þar sem sérstaklega sé tilgreint að líta skuli til fjölskyldusögu og fjölskylduaðstæðna þegar metið sé hvort umsækjandi skuli teljast eiga nákomna ættingja hér á landi. Túlka beri þessi hugtök með rúmum hætti og líta beri til þess að fjölskylda [...]. Kærandi kveðst vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og verði allir hans ástvinir á Íslandi honum enn dýrmætari af þeim sökum.

Því næst byggir kærandi á því að verði honum gert að yfirgefa landið muni réttindi hans skv. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, virt að vettugi. Hér á landi búi þeir sem hann telji vera fjölskyldu sína, þ.e. vinir hans sem hann hefur eignast hér. Þá hafi aðstæður hans breyst verulega frá því að ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin. Kærandi sé nú [...].

Kærandi kveðst hafa mjög sterk félagsleg og menningarleg tengsl við landið m.a. á grundvelli atvinnu sinnar hér á landi og vegna þess að hann [...]. Kærandi telur sig með engu móti vera byrði á íslensku samfélagi enda hafi hann frá komu sinni til landsins verið í virkri atvinnuþátttöku og fyrir liggi að hann geti starfað áfram fyrir sama vinnuveitanda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í þessu máli ber að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði greinarinnar um sérstök tengsl við landið. Í ákvæðinu sjálfu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu þess eðlis að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið eða unnið hér og þá hve lengi, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu nánasti aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga sem nú er að finna í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008.

Í greinargerð sinni með kæru telur kærandi ágalla vera á ákvörðun Útlendingastofnunar sem leiði til þess að ógilda beri ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi heldur því fram í greinargerð sinni að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að rannsaka þá málsástæðu sem kærandi bar fyrir sig varðandi það að kærandi geti hafa myndað sérstök tengsl við landið, þrátt fyrir að eiga ekki nákomna ættingja hér á landi. Útlendingastofnun skal sjá til þess samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á því hversu ítarlega beri að rannsaka mál ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Útlendingastofnun fjallar í ákvörðun sinni um aðstæður kæranda og kemst að þeirri niðurstöðu að kæranda stafi ekki ógn af því að snúa aftur til heimalands síns [...]. Þá mat stofnunin það svo að í ljósi þess að kærandi hefði aðeins verið búsettur hér á landi í rúm tvö ár og ætti ekki ættingja hér á landi, væri ekki unnt að fallast á að skilyrðum 12. gr. f laga um útlendinga væri fullnægt þrátt fyrir rík félags- og menningarleg tengsl hans við landið. Kærunefndin fellst ekki á það með kæranda að slíkur ágalli sé á rannsókn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af þeirri ástæðu. Verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi rannsakað málið með fullnægjandi hætti og í samræmi við umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Fyrir liggur að kærandi á enga ættingja hér á landi, en hann hefur dvalið hér frá árinu 2012 þegar hann fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við EES-borgara. Tengsl kæranda við landið eru líkt og áður segir menningarleg og félagsleg, auk þess sem kærandi hefur dvalið löglega á landinu á grundvelli dvalarleyfis í rúm þrjú ár. Kærandi hefur haft atvinnu hér á landi frá því hann kom hingað fyrst, auk þess sem hann hefur [...]. Við útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið skal ávallt fara fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda í hverju tilviki. Við mat á sérstökum tengslum við landið er m.a. horft til þess hve lengi einstaklingur hefur dvalist löglega á landinu, hvort hann eigi hér nákomna ættingja, auk annarra tengsla við landið svo sem vegna atvinnu, félagslegrar eða menningarlegrar þátttöku. Þá er m.a. einnig litið til fjölskyldusögu, fjölskylduaðstæðna og afleiðinga verði dvalarleyfi ekki veitt. Þegar síðarnefndu sjónarmiðin eru vegin ber að líta til þess að kærandi heldur því fram að [...]. Kærandi lagði fram fjöldamargar umsagnir frá vinum, samstarfsmönnum og vinnuveitendum, sem votta það að hann hafi sinnt starfi sínu af alúð, hafi verið í góðum samskiptum við samstarfsmenn og sé vinamargur hér á landi. Þegar litið er til lengdar dvalar kæranda á Íslandi, fjölskylduaðstæðna og þeirra tengsla sem hann hefur myndað í gegnum atvinnu og félagsstörf hér á landi er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði útlendingalaga um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga vegna sérstakra tengsla hans við landið.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to grant the applicant residence permit in accordance with article 12 f of the Act on Foreigners, No. 96/2002.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Oddný Mjöll Arnardóttir Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta