Hoppa yfir valmynd
21. júní 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 210/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. júní 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 210/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030035

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, sem barst kærunefnd útlendingamála þann 15. mars 2016, kærði […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2016, um að synja henni um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli náms hér á landi 27. júní 2014 með gildistíma til 1. febrúar 2015. Þá fékk kærandi útgefið dvalarleyfi vegna náms og takmarkað atvinnuleyfi með gildistíma frá 29. desember 2014 til 1. júlí 2015. Það leyfi var svo endurnýjað með gildistíma til 31. ágúst 2015. Kærandi sótti um endurnýjun dvalarleyfis vegna námsdvalar 10. ágúst 2015. Útlendingastofnun synjaði þeirri umsókn með ákvörðun, dags. 24. september 2015 á grundvelli ófullnægjandi námsárangurs. Kærandi kærði niðurstöðuna til kærunefndar útlendingamála sem felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði, dags. 7. janúar 2016. Kærandi fékk í kjölfarið útgefið dvalarleyfi vegna námsdvalar með gildistíma frá 13. janúar 2016 til 15. febrúar 2016. Hinn 25. janúar 2016 sótti kærandi um endurnýjun dvalarleyfis vegna námsdvalar og var þeirri umsókn hafnað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2016. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar og barst nefndinni þann 15. mars 2016. Gögn málsins bárust frá Útlendingastofnun þann 17. mars 2016. Greinargerð kæranda barst samtímis kæru.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 12. gr. e útlendingalaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna, þar sem kærandi hafi ekki lokið a.m.k. 75% af fullu námi og þannig ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur til endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms. Kærandi hafi aðeins lokið 10 ECTS einingum eða 33,3% af fullu námi á haustönn 2015 og fullnægi því ekki framangreindum skilyrðum laga um útlendinga. Á þeim grundvelli synjaði stofnunin umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi verið veikur er hún þreytti próf í desember sl. og sé læknisvottorð þess efnis meðfylgjandi kæru. Í ljósi veikindanna hafi kærandi fallið í prófum á haustönn 2015. Upptökuprófi verði ekki haldin fyrr en í lok sumars 2016. Kærandi vísi til reglugerðar um Háskóla Íslands nr. 569/2009 sem kveði á um rétt nemenda til að þreyta endurtektarpróf. Veikindi kæranda í þeim prófum sem hún þreytti á haustönn 2015 hafi haft mikil áhrif á frammistöðu hennar í prófunum. Slíkt sé óviðráðanlegt og ófyrirsjáanlegt. Í ljósi þess að kærandi eigi rétt á að þreyta endurtektarpróf en eigi ekki möguleika á því fyrr en í ágúst nk. þurfi að líta svo á að námsárangur hennar á haustönn 2015 sé ekki endanlegur. Kærandi áréttar það að hún hyggist klára nám sitt við háskólann í endurtektarprófum sem séu framundan.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga nr. 96/2002.

Í 4. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi vegna náms samkvæmt ákvæðinu skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi vegna náms á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. 12. gr. e og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur. Námsárangur telst samkvæmt ákvæðinu fullnægjandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 75% af fullu námi. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið a.m.k. 50% af fullu námi. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. e laga um útlendinga telst fullt nám vera 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá teljast einstök námskeið ekki til náms. Í máli þessu var um það að ræða að kærandi sótti um framlengingu dvalarleyfis vegna náms og þurfti hún því að sýna fram á a.m.k. 75% námsárangur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi 10 ECTS einingum á haustönn 2015 eða um 33,3% af fullu námi. Þá hefur kærandi ekki lagt fram niðurstöður úr prófum vorannar 2016. Sé námsárangur kæranda frá haustönn 2014 til haustannar 2015 lagður saman hefur kærandi lokið 67% af fullu námi. Er þar með ljóst að ekki eru uppfyllt skilyrði 4. mgr. 12. gr. e fyrir því að dvalarleyfi kæranda vegna námsdvalar verði framlengt, en ekki er gert ráð fyrir því að unnt sé að víkja frá þessum skilyrðum ákvæðisins um námsframvindu af ástæðum líkt og þeim sem kærandi hefur tilgreint máli sínu til stuðnings. Ber þá þegar af þeirri ástæðu að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta