Netöryggiskeppni íslenskra ungmenna hafin
Netöryggiskeppni íslenskra ungmenna (Níu), sem einnig gengur undir heitinu Nían, hófst í dag en um er að ræða fyrstu keppni sinnar tegundar á Íslandi. Markmið keppninnar er að leita að ungu fólki sem hefur áhuga á netöryggismálum og hvetja það til að vinna við þau í framtíðinni. Í keppninni leysa þátttakendur ýmis verkefni sem snúa að netöryggi, svo sem að framkvæma skarpskyggnipróf og árásir á netþjóna svo fátt eitt sé nefnt.
Keppnin nú er forkeppni fyrir landskeppni sem haldin verður á UT-messunni í febrúar á næsta ári. Keppnin er tvískipt, yngri deild er fyrir aldurshópinn 14-20 ára og eldri deild fyrir 21-25 ára. Miðað er við aldur í lok næsta árs, þar sem landskeppnni getur orðið undanfari þátttöku í evrópsku netöryggiskeppninni „European Cyber Security Challenge“ (ECSC) sem haldin er árlega. Hún var haldin í Búkarest, 9.-11. október sl. og verður næst haldin í Vínarborg, 3.-7. nóvember 2020. Verði Ísland með í þeirri keppni yrði tíu manna hópur valinn úr landskeppninni til að keppa fyrir Íslands hönd.
Keppnin hófst í dag, 1. nóvember 2019, og stendur yfir í tvær vikur eða til loka dags 15. nóvember. Hægt verður að skrá sig til og með 13. nóvember. Hver og einn leysir verkefnin á sínum hraða og sumir ættu jafnvel að geta lokið þeim á tveimur dögum.
Keppnin hérlendis er haldin að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en öryggisfyrirtækið Syndis sér um framkvæmd keppninnar í samstarfi við ráðuneytið og fleiri aðila. Margir gefa framlag til keppninnar með ýmsum hætti og ekki hefði verið gerlegt að halda hana án þessa góða stuðnings.
Nánari upplýsingar má fá á vef keppninnar antisec.is og þar má einnig skrá sig til þátttöku og hefja keppni. Forkeppnin fer öll fram á vefnum, en dómarar velja síðan þátttakendur til þátttöku í landskeppninni sem fer fram á UT-messunni í Hörpu, 7.-8. febrúar 2020.
- Vefur netöryggiskeppninnar - skráning og þátttaka
- Unnt er að fylgjast með framgangi keppninnar á Facebook-síðu Níunnar
- Evrópska netöryggiskeppnin