Ný lög um fjarskipti samþykkt á Alþingi
Fjarskiptafrumvarp háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var samþykkt á Alþingi í gær. Í nýjum lögum, sem oft eru kennd við svokallaða Kóða-tilskipun, má finna nýmæli sem stuðla að nauðsynlegri áframhaldandi uppbyggingu og framþróun á fjarskiptamarkaði. Í þeim felast einkum auknar heimildir er varða samnýtingu aðstöðu og ólíkra hluta fjarskiptaneta, og þar með hvatar til aukins samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða, auk heimilda Fjarskiptastofu varðandi áskilnað um gagnkvæmt reiki milli fjarskiptafyrirtækja. Markmið nýrra laga um fjarskipti eru m.a. virkari samkeppni, hagkvæmari fjárfestingar, útbreiðsla háhraðaneta, ljósleiðara og aðgengi notenda að hágæða fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði. Á þetta við um allt land og eru auknir samkeppnishvatar, samnýting og samstarf mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. Nú þegar má sjá ávöxt þessara breytinga með nýju samstarfi fjarskiptafyrirtækja og Neyðarlínunnar sem stuðlar að úrbótum á farsímasambandi á fáförnum og afskekktum stöðum á þjóðvegum.
Aukin neytendavernd og öryggi
Í nýjum fjarskiptalögum er aukin áhersla lögð á neytendavernd, aðgengi neytenda að upplýsingum og verð- og gæðasamanburði þegar kemur að fjarskiptaþjónustu, svo og stöðlun viðskiptaskilmála. Með lögunum er jafnframt aukin áhersla á öryggi fjarskiptaneta með kröfum þess efnis til fjarskiptafyrirtækja og um eftirlit Fjarskiptastofu út frá áhættumiðaðri nálgun þar sem sérstaklega er hugað að almannahagsmunum og þjóðaröryggi, með vísan til nýlegra breytinga á eldri fjarskiptalögum varðandi áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta.
Þjóðhagslegt mikilvægi skynsamlegrar uppbyggingar fjarskiptainnviða
Markmið stjórnvalda er að fjarskiptaregluverk styðji við skynsamlega og hagkvæma uppbyggingu innviða fyrir 5G-net og -þjónustu á Íslandi. Slíkar tengingar eru grunnstoð fjórðu iðnbyltingarinnar og hlutanetsins. Skynsamleg uppbygging fjarskiptainnviða, ekki síst vegna fyrirsjáanlegrar 5G uppbyggingar, er Íslandi þjóðhagslega mikilvæg. Ný lög geyma einnig ýmis nýmæli sem eru til þess fallin að auðvelda og bæta enn frekar aðstöðu stjórnvalda til að leggja mat á árangur umbóta í lagaumgjörð fjarskipta og framkvæmd hennar á hverjum tíma.
Á grundvelli nýrra laga er markmiðið að stuðla að enn frekari útbreiðslu afkastamikilla háhraðaneta, sjálfbærri samkeppni, rekstrarsamhæfi og aðgengileika fjarskiptaþjónustu, öryggi neta og þjónustu og ávinningi fyrir endanotendur. Ýmis nýmæli laganna lúta beinlínis að þessu. Má þar nefna:
- Auknar heimildir Fjarskiptastofu til að kveða á um samnýtingu aðstöðu, ólíkra hluta fjarskiptaneta og svæðisbundið reiki ef nauðsynlegt er til að tryggja svæðisbundinn aðgang. Þetta mun til dæmis stuðla að bættu öryggi á þjóðvegum og afskekktum svæðum þar sem símasamband er gloppótt á köflum.
- Fyrirséð er að fjölga þurfi sendastöðum til muna vegna 5G og nánari reglur verða settar á grundvelli laganna sem munu einfalda aðgengi að aðstöðu til uppsetningar senda, að uppfylltum nánari kröfum, s.s. um ráðstafanir til verndar lýðheilsu.
- Áhersla er á aðgengi að farnetstíðnum til að byggja upp 5G farnet. Gildistími úthlutaðra tíðniheimilda verður almennt 15-20 ár og er markmiðið að auka fyrirsjáanleika og hagkvæmni uppbyggingar.
- Opnað er á viðskipti og framsal tíðniheimilda milli markaðsaðila, að uppfylltum nánari skilyrðum. Gert er ráð fyrir að gagnsæi ríki um framsal, leigu og lán tíðniheimilda. Með nýjum lögum fær Fjarskiptastofa heimild til að mæla fyrir um samstarf og samnýtingu í skilmálum tíðniheimilda. Á þessum grundvelli getur gagnkvæmt reiki milli fjarskiptafyrirtækja á afskekktum stöðum á landinu m.a. orðið að veruleika.
Tímafrestir settir á markaðsgreiningar og ný sóknarfæri
Á síðustu árum hafa markaðsaðilar kallað eftir að þak verði sett á tímafresti til að ljúka markaðsgreiningum og er það nýmæli, í samræmi við Kóða-tilskipunina. Aðferðafræði við markaðsgreiningar er í grundvallaratriðum óbreytt en með nútímavæðingu fjarskiptalaga, ekki síst aukinni áherslu á samnýtingu fjarskiptainnviða og ákvæðum um sameiginlegar fjárfestingar, má ætla að fjarskiptafyrirtækjum skapist ýmis tækifæri til frekari tekjuöflunar eða hagræðingar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fagnar því að frumvarp hennar um ný lög um fjarskipti hafi verið samþykkt og ítrekar að ,,fyrst og fremst stuðli ný lög að framsæknum fjarskiptamarkaði og mjög tímabærum breytingum sem ýta undir uppbyggingu háhraðaneta sem er forsenda fyrir því að Ísland geti verið land tækifæranna, byggt á hugviti og upplýsingatækni“.