Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin: Sáttmáli þjóða um baráttu gegn tóbaksvá
56. þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - söguleg stund
Sáttmáli þjóða um baráttu gegn tóbaksvá
Aðildarríki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, 192 talsins, samþykktu í dag, 21. maí, sáttmála (Framework Convention on Tobacco Control (FCTC)) þar sem kveðið er á um leiðir sem þjóðirnar ætla að sameinast um í baráttunni gegn tóbaki og markaðssetningu þess. Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri WHO sagði samkomulagið sögulega stund og hvatti aðildarríkin til að staðfesta sáttmálann sem allra fyrst.
Í sáttmálanum eru aðildarþjóðirnar hvattar til að banna tóbaksauglýsingar. Samkvæmt honum á að merkja allt tóbak með viðvörunum um skaðsemi þess. Grípa skal til aðgerða til að vernda fólk fyrir reykingum í opinberum byggingum, á vinnustöðum og í almenningsfarartækjum. Hvatt er til þess að aðildarríkin beiti skattlagningu á tóbaksvörur og berjist gegn ólöglegum innflutning tóbaks með sérmerkingum þar sem fram koma upplýsingar um uppruna vörunnar og í hvaða landi eigi að selja hana.
Gro Harlem Brundtland, fráfarandi framkvæmdastjóri WHO hefur barist ötullega fyrir samþykkt þessa sáttmála sem hefur verið fjögur ár í smíðum. Gro sagði í ræðu að samþykkt hans væri söguleg stund og miklu skipti að hann öðlaðist formlegt gildi hið fyrsta. Með þessum aðgerðum væri lagður grunnur að því að bjarga billjónum mannslífa og vernda heilsu komandi kynslóða. Eins og staðan væri nú kostaði tóbak um fimm milljónir manna lífið árlega og ef ekkert væri að gert stefndi sú tala í tíu milljónir mannslífa árið 2020.
Fjörutíu aðildarríki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þurfa að staðfesta sáttmálann til að hann öðlist formlegt gildi.
Nánar á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar...