Ráðstefna um foreldrafærni
Ráðstefna um foreldrafærni verður haldin mánudaginn 17. mars 2008 kl. 9–17 á Grand Hótel Reykjavík.
Undanfarin ár hefur vaxandi áhersla verið lögð á það á Vesturlöndum að efla foreldrahæfni með fjölbreyttri uppeldisfræðslu og þjálfun foreldra. Vitneskju um áhrif uppeldisaðferða á geðheilsu og þroska barna með mismunandi þarfir og á ólíkum aldri hefur fleygt fram. Rannsóknir hafa lagt grunn að þróun markvissra aðferða til að þróa og virkja hæfni foreldra á þessu sviði. Á meðal þeirra eru aðferðir á borð við MST (Multisystematic Treatment), PMT (Parent Management Training) og Triple P (Positive Parenting Programme).
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og ungmenna er kveðið á um fyrirhugaðar aðgerðir, meðal annars á grundvelli tilmæla Evrópuráðsins (2006) nr. 19 um aðgerðir til efla foreldrahæfni. Áætlunin tiltekur sérstaklega foreldra fyrsta barns, foreldra barna með sérþarfir og foreldra unglinga. Af þessu tilefni efnir félags- og tryggingamálaráðuneytið og samstarfsnefnd ráðuneytanna um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar til ráðstefnu hinn 17. mars næstkomandi. Tilgangurinn er að kynna ólíkar aðferðir til að efla foreldrafærni, hérlendis sem erlendis.
Aðalfyrirlesarar verða:
- Alan Ralph, University of Queensland, Brisbane, Ástralíu, mun fjalla um Triple P aðferðina til eflingar foreldrafærni, en hún hefur öðlast útbreiðslu langt út fyrir Ástralíu, meðal annars í Evrópu og Kanada.
- Björn Arnesen, frá Kompetansesenter for Atferd, Þrándheimi, Noregi, mun meðal annars greina frá reynslu Norðmanna af ólíkum aðferðum til eflingar foreldrahæfni, meðal annars af MST og PMT.
Þá verða fluttir fyrirlestrar um starf á þessu sviði hérlendis, meðal annars PMT í Hafnarfirði, SOS uppeldisfræðsluna í Reykjanesbæ og foreldrafræðslu um aga og uppeldi á vegum Miðstöðvar heilsuverndar barna.
Dagskrá ráðstefnunnar verður birt á heimasíðu ráðuneytisins í síðari hluta febrúar. Þá verður einnig tilkynnt með hverjum hætti skráning fari fram.