Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styttri viðmiðunartímabil í nýju frumvarpi til laga um fæðingarorlof

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Með frumvarpinu er meðal annars lagt til aðviðmiðunartímabili við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði verði breytt þannig að miðað verði við meðaltal heildarlauna foreldris yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns í stað tveggja heilla tekjuára fyrir fæðingu barns í núverandi lögum.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

Viðmiðunartímabilið

Við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hefur það tímabil sem meðaltal heildarlauna miðast við sætt nokkurri gagnrýni en miðað hefur verið við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Leiðir þetta til mikils ójafnræðis milli foreldra og getur munað allt að einu ári á viðmiðunartímabilinu. Er lagt til að þessu viðmiðunartímabili verði breytt þannig að miðað verði við meðaltal heildarlauna foreldris yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Þó er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna foreldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar verði tekjuárið á undan fæðingarári barns. Er þetta lagt til í þeim tilgangi að jafna stöðu foreldra eftir því hvenær árs barn fæðist um leið og áfram er reynt að koma í veg fyrir að foreldrar geti haft áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með því að hagræða tekjum sínum á viðmiðunartímabili.

 

Viðmiðunartekjur

Áfram er gert ráð fyrir að hafi foreldri ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skuli miða við meðalheildarlaun þess fyrir það tímabil sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði. Þar á meðal teljast tilteknar tímabundnar aðstæður sem hafa þótt jafnast á við þátttöku á vinnumarkaði, svo sem þegar foreldri er í orlofi eða námsleyfi, fæðingarorlofi, tímabundið án atvinnu og hefur sótt um greiðslur innan atvinnuleysistryggingakerfisins eða er óvinnufært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss.

 

Eftirlit með framkvæmd laganna fært til Vinnumálastofnunar

Lagt er til að eftirlit með framkvæmd laganna verði fært frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar en áfram er lögð áhersla á nána samvinnu milli Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda. Einkum er átt við að fylgst verði með því að foreldrar leggi sannanlega niður störf í fæðingarorlofi og að þeir hagnist ekki á greiðslum úr sjóðnum þannig að um viðbót sé að ræða við tekjur þeirra fyrir sama tímabil.

 

Forsjárlausir foreldrar öðlist rétt til fæðingarstyrks

Lagt er til að forsjárlausir foreldrar öðlist rétt til fæðingarstyrks enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.

 

Námsmenn sem búsettir eru erlendis og eru í fjarnámi við íslenska skóla

Gert er ráð fyrir að jafnræðis verði gætt milli námsmanna við íslenska skóla óháð búsetu að því er varðar greiðslu fæðingarstyrks hvort sem þeir stunda hefðbundið nám við skólann eða eru í fjarnámi.

 

Yfirfærsla réttinda

Lagt er til að heimild til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs milli foreldra verði rýmkuð þannig að hún nái ekki eingöngu til tilvika þegar annað foreldrið andast heldur einnig til tilvika er annað foreldrið er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum eftir fæðingu þess.

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta