Hoppa yfir valmynd
24. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2015

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 24. september 2015 var tekið fyrir mál nr. 11/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 24. júní 2015, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 26. maí 2015, þar sem umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna var synjað.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi stundaði þriggja ára nám við D deild Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan í júní 2015. Hann fékk metnar einingar sem hann hafði áður lokið í fyrra námi sínu á E sviði skólans. Með umsókn, dags. 12. maí 2015, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna í þrjá mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hans þann Y. júní 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. maí 2015, á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 24. júní 2015. Með bréfi, dags. 25. júní 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 26. júní 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júní 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi lokið námi sínu á þremur árum og útskrifast í júní 2015. Á haustönn 2014 hafi hann lokið 18 ECTS-einingum en ekki þurft að taka fleiri einingar þar sem hann hafi fengið 24 ECTS-einingar metnar frá fyrra námi. Kærandi hafi fengið valnámskeið metin en ekki sé hægt að útskrifast með fleiri en 180 ECTS-einingar á námsferli. Fæðingarorlofssjóður líti svo á að kærandi eigi ekki rétt á námsstyrk þar sem metnar einingar hafi allar komið inn á haustönn 2012. Kærandi bendir á að einingarnar hefðu í raun og veru átt að vera metnar á hverri önn fyrir sig þar sem í náminu væru alltaf bæði skyldu- og valnámskeið.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Væntanlegur fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. júní 2015 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. júní 2014 fram að væntanlegum fæðingardegi barnsins. Samkvæmt heimasíðu D deildar Háskóla Íslands og skipulagi BS náms í D fræði með F sem kjörsvið skv. kennsluskrá sé um að ræða 180 ECTS-eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS-eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Á námsferilsyfirliti Háskóla Íslands, dags. 11. maí 2015, komi fram að kærandi hafi lokið 18 ECTS-einingum á haustmisseri 2014 og hafi verið skráður í 24 ECTS-einingar á vormisseri 2015 sem hann hafi lokið, sbr. námsferilsyfirlit frá Háskóla Íslands, dags. 18. júní 2015.

Í staðfestingu deildarstjóra D deildar Háskóla Íslands, dags. 12. maí 2015, komi meðal annars fram að kærandi hafi fengið 30 einingar frá fyrra námi á D sviði metnar sem fjórar valgreinar. Þar sem kærandi hafi lokið öllum heimiluðum valgreinum hafi hann einungis lokið 18 einingum á haustmisseri 2014. Á námsferilsyfirliti frá Háskóla Íslands, dags. 11. maí 2015, megi sjá að þessar 30 ECTS-einingar hafi verið færðar inn á haustönn 2012. Í tölvupóstsamskiptum við kæranda frá 4. til 9. júní 2015 og í kæru komi einnig skýrt fram að hann hafi einungis verið skráður í og ástundað 18 ECTS-eininga nám á haustmisseri 2014. Hann hafi hins vegar fengið metnar einingar frá fyrra námi sínu sem hafi verið færðar inn á námsferil hans á haustönn 2012 við upphaf náms við D deild.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um er að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn almennt vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti sjóðurinn svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hann hafi einungis verið skráður í og lokið 18 ECTS-einingum á haustönn 2014.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi hafi réttilega verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 30 ECTS-einingar á önn almennt vera 100% nám og fullt nám í skilningi ffl. því 22–30 ECTS-einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.

Úrskurðarnefndin áréttar að það skiptir ekki máli hvort eða hvernig metnar einingar úr fyrra námi eru færðar inn á einstakar annir í námsferlinum. Það sem ræður úrslitum er hvort nægilega mörgum einingum er í raun lokið á viðmiðunartímabilinu. Væntanlegur fæðingardagur barns kæranda var þann Y. júní 2015. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá Y. júní 2014 fram að væntanlegum fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við D deild Háskóla Íslands en um er að ræða 180 ECTS-eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS-eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands, dags. 18. júní 2015, lauk kærandi 24 ECTS-einingum á vorönn 2015, eða fullu námi, en einungis 18 ECTS-einingum á haustönn 2014 sem telst ekki vera fullt nám. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 15. gr. reglugerðarinnar, þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum. Þetta ákvæði heimilar því einungis undanþágu frá skilyrði um fullt nám síðustu önn í námi, en ekki þannig að skilyrði 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sé að öllu leyti vikið til hliðar.

Fyrir liggur að kærandi var skráður í og lauk 18 ECTS-einingum á haustönn 2014 sem var ekki síðasta önnin í námi hans. Að því virtu er að mati úrskurðarnefndar óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sbr. 19. gr. ffl.

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 26. maí 2015, um synjun á umsókn A er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta