Höfðingleg gjöf frá Dönum: 135 ára afmæli Listasafns Íslands
„Við þökkum kærlega fyrir höfðinglega gjöf og fögnum því að þessi verk Sölva Helgasonar komist í eigu þjóðarinnar. Sólon Íslandus óraði líklega ekki fyrir því að sköpunarkraftur hans og listfengi myndi gleðja svo margar kynslóðir Íslendinga og verða partur af okkar mikilvæga menningararfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Föðuramma Ingridar Nielsen eignaðist pappírsverkin eftir Sölva þegar hún vann í verslun Popp kaupmanns á Sauðárkróki snemma á síðustu öld og var það ósk frú Nielsen að verkin yrðu afhent þjóðlistasafni Íslendinga. Það var því einkar viðeigandi að afhendingin færi fram á afmælisdegi Listasafns Íslands. Gjöfin verður til sýnis í anddyri safnsins í nokkra daga en fyrirhugað er að lána Safnasafninu á Svalbarðseyri verkin á sýningu þess á næsta ári þegar 200 ár verða liðin frá fæðingu Sölva Helgasonar.