Hoppa yfir valmynd
1. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 439/2022-Beiðni um endurupptöku

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 439/2022

Fimmtudaginn 1. desember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með erindi, dags. 8. nóvember 2022, óskaði B, f.h. A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 439/2022 þar sem staðfest var ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn fyrirtækisins um ráðningarstyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. maí 2022, sótti kærandi um styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna ráðningar tiltekins starfsmanns til fyrirtækisins. Umsókn kæranda var synjað með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2022, á þeirri forsendu að starfsmaðurinn hefði unnið hjá fyrirtækinu á síðastliðnum 12 mánuðum.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 1. september 2022. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 2. nóvember 2022. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála hina kærðu ákvörðun.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur meðal annars fram að óskað sé eftir að málið verði endurvakið. Fram kemur að kærandi harmi ákvörðun úrskurðarnefndar velferðarmála. Gerð er athugasemd við þá fresti sem Vinnumálastofnun fékk undir meðferð málsins. Þá er vísað til þess að persónupplýsingar hafi verið veittar í gögnum frá Vinnumálastofnun, að fyrri umsókn kæranda um ráðningarstyrk hafi verið að frumkvæði Vinnumálastofnunar, áréttað er að starfsmaðurinn sem sótt var um vegna hafi aðeins starfað á báti í eigu félagsins á síðastliðnum 12 mánuðum og farið er yfir umfjöllun Vinnumálastofnunar um Facebook síðu starfsmannsins. Þá er farið yfir rekstrarsögu starfsmannsins og fjölþættan rekstur kæranda. Vísað er til þess að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sé byggð á röngum upplýsingum og líkum sem Vinnumálastofnun gefi sér og setji fram til að styrkja og byggja upp ranga mynd af fyrirtækinu. 

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 2. nóvember 2022. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um ráðningarstyrk.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli, rangri túlkun lagaákvæða eða röngu mati.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur meðal annars fram að niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið byggð á röngum upplýsingum og er sú afstaða ítarlega rökstudd. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til athugasemda kæranda. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að í athugasemdum kæranda sé að finna nýjar upplýsingar sem hafa áhrif á efnislega niðurstöðu málsins eða sem leiða líkur að því að um ranga niðurstöðu sé að ræða þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 439/2022 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 439/2022 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta