Reglugerðardrög um rafræna gjaldtöku af umferð og eftirlit með skipgengum vatnaleiðum til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu tvær reglugerðir sem snúast um innleiðingu á reglum er varða annars vegar rafrænt gjaldtökukerfi við innheimtu á veggjöldum og hins vegar reglugerð um afnám eftirlits með flutningum á vegum og skipgengum vatnaleiðum á landamærum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Umsagnarfrestur er til og með 8. apríl og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].
Báðar reglugerðirnar hafa einkum í för með sér breytingar sem eru einkum tæknilegs eðlis og snúast um innleiðingar á evróputilskipunum og eiga það sammerkt að hafa fremur lítil áhrif hérlendis .
Fyrrnefnda reglugerðin er breyting á reglugerð um rekstrarsamhæfi rafræns gjaldtökukerfis innan Evrópska efnhagssvæðisins. Með henni er nú innleidd ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um skilgreiningu á rafrænu evrópsku vegatollþjónustunni og tæknilegum atriðum hennar.
Síðari reglugerðin snýst um að afnema eftirlit með flutningum á vegum og skipgengum vatnaleiðum sem fram fer á landamærum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Er markmiðið með breytingunni að tryggja frjálst flæði umferðar um vegi og vatnaleiðir innan EES.