Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2018

Nr. 468/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 468/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18100025 og KNU18100026

 

Beiðni […], […] og barna þeirra um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 27. september 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2018, um að taka umsóknir […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir M), […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir K) og barna þeirra, […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 1. október 2018. Kærendur óskuðu eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 8. október 2018. Þann 12. október 2018 óskuðu kærendur eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Þá bárust kærunefnd frekari gögn 18. og 24. október og 7. nóvember 2018. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 7. nóvember 2018.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og þess að kærunefnd fjallaði um kærur þeirra á ákvörðunum Útlendingastofnunar, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd, í einum úrskurði kærunefndar nr. 388/2018 mun mál þeirra er varðar beiðni um endurupptöku haldast í hendur í úrskurði þessum.

Krafa kærenda um endurupptöku máls þeirra er byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærendur óska eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd þar sem aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin og að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Krefjast kærendur að mál þeirra verði endurupptekin og að felldar verði úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar.

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að K hafi greint talsmanni kærenda frá tilteknu atviki sem hafi átt sér stað á Ítalíu en um sé að ræða atriði sem K hafi ekki áður greint stjórnvöldum hér á landi frá. Að sögn K hafi ókunnugur maður leitað til kærenda á meðan þau hafi dvalið á Ítalíu í desember 2017. Maðurinn hafi sagst vera frá ítölsku mafíunni og hafi óskað eftir því að ráða M í vinnu. Kærendur hafi hafnað tilboði mannsins enda hafi hann virst vera hættulegur en maðurinn hafi tekið illa í höfnun þeirra og veist að þeim með hníf fyrir framan börnin. Maðurinn hafi lagt hnífinn upp að hálsi K og hótað henni lífláti ef M myndi ekki vinna fyrir mafíuna. Maðurinn hafi síðan horfið jafn skyndilega og hann hafi komið. Kærendur hafi í kjölfarið óttast um framtíð sína á Ítalíu og flúið stuttu síðar hingað til lands. Kærendur hafi hvorki greint stjórnvöldum á Ítalíu né hér á landi frá þessu atviki af ótta við glæpasamtökin. Kærendur bendi á að lífi fjölskyldunnar kunni að vera mikil hætta búin á Ítalíu og að flutningur kærenda kunni að hafa óafturkræfar og neikvæðar afleiðingar. Kærendur bendi einnig á að Útlendingastofnun hafi ekki orðið við ósk þeirra um sálfræðimat en kærendur telji að andleg heilsa þeirra hafi versnað mjög að undanförnu og þau eigi ekki kost á að sækja sér þá þjónustu sem þau þarfnist. Hagsmunir kærenda, ekki síst barnanna tveggja, krefjist þess að mál þeirra verði endurupptekin og skoðuð betur.

Í viðbótarathugasemdum sem kærendur lögðu fram þann 18. október sl. kemur fram að í úrskurði kærunefndar, dags. 27. september sl., hafi kærendur ekki verið metnir í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærendur bendi á að samkvæmt framlögðu læknabréfi hafi K fengið taugaáfall og komið með sjúkrabíl á bráðamóttöku vegna verulegrar vanlíðunar þann 3. október sl. Kærandi K hafi í tvígang íhugað að fyrirfara sér og reynt að stökkva fram af svölum á húsnæði þeirra en M hafi gripið hana í bæði skiptin. Ástand K hafi verið svo slæmt að nauðsynlegt hafi verið að gefa henni sefandi lyf til að róa hana niður. Þá hafa kærendur lagt fram læknabréf frá augnlækni, dags. 16. október 2018, þar sem fram kemur að A sé sjónskert á hægra auga og blind á vinstra auga vegna meðfædds skýs á augasteinum. Kærendur bendi á að andleg veikindi K nái því alvarleikastigi að öflun frekari gagna hafi þýðingu fyrir niðurstöðu í máli kærenda. Fara þurfi fram heildstætt mat á aðstæðum kærenda þar sem litið sé til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíði þeirra á Ítalíu, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem kærendur hafi aðgang að á Ítalíu sé fullnægjandi. Þá sé það andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda alvarlega veika foreldra með tvö ung börn frá landinu til Ítalíu þar sem ógnanir og ofbeldi gagnvart flóttafólki hafi verið vaxandi vandamál, sérstaklega í tilfelli kærenda. Mat á andlegri heilsu K verði að skoða með hliðsjón af hagsmunum barnanna og með hvaða hætti þau andlegu veikindi K kunni að hafa áhrif á stöðu barnanna við brottvísun þeirra úr landi.

Kærendur telji að skilyrði endurupptöku séu ótvírætt fyrir hendi hvort sem litið sé til 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Framlögð gögn feli í sér ný atriði sem hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin í málum kærenda á fyrri stigum.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 27. september 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kærenda til Ítalíu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati kærunefndar var staða K og M þess eðlis að fjölskyldan í heild var talin vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kærenda, þ.e. að kærendur hefðu ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður þeirra væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 27. september sl. ásamt þeim fylgigögnum sem bárust nefndinni. Eins og fram hefur komið byggja kærendur m.a. á því að skoða verði betur framlögð gögn um andlega heilsu K og frásögn kærenda um tiltekið atvik sem þau höfðu ekki áður greint frá hér á landi. Vísað er sérstaklega til þess að kærendur hafi ekki verið metnir í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga hjá kærunefnd og að rannsókn á þeirri viðkvæmu stöðu sem kærendur séu í á Ítalíu hafi verið ábótavant. Er því haldið fram að aðstæður kærenda hafi breyst verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin og niðurstaða kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með beiðni kærenda um endurupptöku málsins hjá kærunefnd hafa þau m.a. lagt fram læknabréf, dags. 4. október 2018 og samskiptaseðla frá heilsugæslu Keflavíkur, dags. 3. október 2018. Í framlögðum gögnum kemur m.a. fram að K hafi þann 3. október sl. fengið brjálæðiskast heima hjá sér. Hún hafi í tvígang þann dag íhugað að fyrirfara sér úti á svölum en M hafi stöðvað hana í bæði skiptin. Þá hafi K verið gefið sefandi lyf áður en hún hafi verið flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Aðspurð kvaðst K ekki vera með sjálfsvígshugsanir en það hafi verið mikið áfall að fá neikvæða niðurstöðu í mál fjölskyldunnar hjá kærunefnd. Að mati starfsmanna bráðamóttöku hafi ekki verið þörf á innlögn og hafi K fengið að fara heim um kvöldið og gert að koma aftur í skoðun næsta dag. Kærendur hafa jafnframt lagt fram bréf frá sálfræðingi, dags. 1. nóvember 2018, þar sem kemur m.a. fram að K upplifi mjög alvarleg einkenni þunglyndis, kvíða og streitu auk sjálfsvígshugsana. Þá hafa kærendur lagt fram læknabréf frá augnlækni, dags. 16. október 2018, þar sem fram kemur að A sé sjónskert á hægra auga og blind á vinstra auga vegna meðfædds skýs á augasteinum. Meðal gagna málsins er jafnframt tölvupóstur frá félagsráðgjafa hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingum frá 6. nóvember 2018 þar sem fram kemur hvaða þjónustu A myndi njóta hér á landi vegna sjónskerðingar.

Kærunefnd áréttar að með úrskurði dags. 27. september 2018 var staða K og M metin þess eðlis, einkum m.t.t. heilsufarsvandamála K og M og í ljósi aldurs barna þeirra, að fjölskyldan í heild teldist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Er því um að ræða rangfærslu í beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra hjá kærunefnd. Hefur því áður verið fjallað um flutning kærenda til Ítalíu á grundvelli þess að um sérstaklega viðkvæma einstaklinga sé að ræða. Þau nýju læknisfræðilegu gögn sem lögð hafa verið fram varðandi heilsufar K og A benda ekki til þess að um verulega breyttar aðstæður þeirra sé að ræða frá því að úrskurður kærunefndar lá fyrir í máli kærenda. Við töku ákvörðunar í máli K lá fyrir að hún ætti við andlega erfiðleika að stríða og var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Jafnframt hafi verið lagt til grundvallar að A glími við skerta sjón. Í máli kærenda var þá lagt til grundvallar að kærendur gætu leitað sér fullnægjandi og aðgengilegrar heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki.

Þá hafa kærendur greint frá tilteknu atviki sem hafi átt sér stað á Ítalíu, en þau kveða að ónefndur aðili hafi veist að kærendum og hótað þeim. Kærendur kveðast óttast um öryggi sitt á Ítalíu en þau hafi ekki áður greint frá þessu atviki. Eins og fram kemur í úrskurði kærunefndar í máli kærenda njóta einstaklingar með alþjóðlega vernd á Ítalíu sambærilegra réttinda og verndar og ítalskir ríkisborgarar. Þá er jafnframt ljóst af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað að þarlend yfirvöld séu í stakk búin til þess að veita einstaklingum fullnægjandi vernd gegn slíkum brotum og að kærendur geti leitað til lögreglunnar og annarra yfirvalda vegna þeirra, telji þau sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kærenda, sem þau bera fyrir sig í máli þessu, í áðurnefndum úrskurði kærunefndar frá 27. september 2018. Verður ekki séð að framangreindur úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kærenda um endurupptöku mála þeirra hjá kærunefnd því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kærenda er hafnað.

 

The request of the appellants is denied.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Árni Helgason                                                                                  Erna Kristín Blöndal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta