Dúi nýr upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins
Dúi J. Landmark hefur verið ráðinn nýr upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins. Hann hefur störf í næstu viku.
Dúi er með diplóma í frönsku og markaðs- og útflutningsfræðum og hefur fjölbreytta reynslu úr kynningarmálum og fjölmiðlum. Hann hefur undanfarið starfað sem verkefnastjóri miðlunar hjá Landgræðslunni. Frá 1991 hefur hann starfað við sjálfstæða framleiðslu fyrir innlendar og erlendar sjónvarpstöðvar, bæði í handritaskrifum og myndgerð, meðal annars fyrir Stöð 2. Hann er einnig höfundur bókarinnar Gengið til rjúpna og var áður formaður Skotvís.
Alls bárust 29 umsóknir um starfið en það var auglýst þann 28. janúar.
Nýtt matvælaráðuneyti tók til starfa í febrúar og er unnið að matvæla og fæðuöryggi Íslands samkvæmt hugmyndafræði einnar heilsu.
„Íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi mynda þungamiðjuna í innlendri framleiðslu matvæla og hafa mikil og sterk tengsl við atvinnu fólksins í landinu. Með ráðuneyti matvæla gefst tækifæri til að leggja áherslu á matvælaframleiðsluna, nýsköpun og eflingu loftslagsmála og bæta þar með lífsskilyrðin í landinu okkar enn frekar. Markmiðið er að hér sé gott að búa og starfa, þannig að hér ríki velsæld og jöfnuður og að þannig verði það áfram fyrir kynslóðir framtíðarinnar,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.