Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 441/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 3. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 441/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100013

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. október 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. september 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu. Hinn 7. september 2022 var ákvörðun Útlendingastofnunar birt fyrir kæranda.

Fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 7. september 2022. Kærandi kærði ákvörðunina 3. október 2022. Ljóst er að kærufresturinn, sem var til 22. september 2022, var liðinn þegar kæran barst.

Í tölvubréfi kæranda 3. október 2022 kemur fram að talsmaður kæranda hafi verið stödd erlendis þegar hún hafi sent inn kæru. Hún vildi fá staðfestingu á því að kæran hafi borist kærunefnd þar sem hún hafi ekki fengið staðfestingu né greinargerðarfrest í málinu. Sama dag var talsmanni kæranda tilkynnt að engin kæra hafi borist nefndinni. Kærandi óskaði þá eftir því að nefndin tæki tillit til þess að kæru hafi ekki verið skilað innan skilgreinds kærufrest. Talsmaður kæranda hafi verið stödd erlendis í tengslum við persónuleg málefni sín og hafi af persónulegum ástæðum ekki verið með hlutina á hreinu á þeim tíma sem ákvörðun Útlendingastofnunar barst. Þá hafi hún talið sig hafa sent kæru innan kærufrests.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar skal m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var sem fyrr segir birt kæranda 7. september 2022. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kæranda voru veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi borist of seint. Við það mat er sérstaklega horft til þess að þrátt fyrir að talsmaður kæranda hafi verið að ganga í gegnum erfiðar persónulegar aðstæður tengdum fjölskyldu sinni þá verður ekki séð að honum hafi verið ómögulegt vegna ytri aðstæðna að leggja inn kæru innan kærufrests eða gera aðrar ráðstafanir svo sem að óska eftir því að annar talsmaður tæki að sér málið. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki beri að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur kærunefnd farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málsins að um slíkt fordæmisgefandi mál sé að ræða né að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Við það mat er horft til þess að kærandi hefur verið handhafi alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi frá árinu 2013, þess að kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum talið endursendingu til Ungverjalands tæka í tilvikum líkt og í máli kæranda og þess að ekki sé að sjá að neinir ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd áréttar að kærandi getur óskað eftir endurupptöku hjá Útlendingastofnun, telji hann að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun í máli hans var tekin eða að ákvörðun sé byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.


 

Úrskurðarorð:

 

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicants appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta