Hoppa yfir valmynd
31. október 2023 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp til breytinga á lögreglulögum

Frumvarp til breytinga á lögreglulögum var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið, með breytingum, er nú lagt fram til umsagnar í samráðsgátt á ný. Helstu breytingar á frumvarpinu varða stofnun embættis gæðastjóra lögreglu, breytingar á skipan nefndar um eftirlit með lögreglu og lögfestingu stýrihóps um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, auk þess sem kveðið er skýrar á um það hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt þegar ákvörðun um að viðhafa eftirlit er tekin og um lögbundna árlega skýrslugjöf til allsherjar- og menntamálanefndar vegna eftirlits lögreglunnar.

Markmið frumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og koma í veg fyrir afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins.

Á síðustu árum hafa komið fram skýrar vísbendingar um að umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hafi tekið verulegum breytingum hér á landi til hins verra. Hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það að atvinnu að fremja fjölda afbrota með skipulegum hætti, þar á meðal alvarleg ofbeldisbrot, þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Um þetta hefur m.a. verið fjallað í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem hefur það hlutverk að leggja mat á hættu af skipulagðri brotastarfsemi.

Hryðjuverk, landráð og önnur brot gegn öryggi ríkisins eru alvarlegustu brot sem um getur í almennum hegningarlögum enda ógna þau ekki aðeins sjálfstæði ríkisins og innviðum þess heldur einnig almennum borgurum og öllum sviðum þjóðfélagsins. Baráttan gegn brotum þessum er annars eðlis en almenn löggæsla í ljósi mikilvægis og nauðsynjar þess að lögregla geti brugðist við áður en slík brot eru framin. Vegna þessa hafa yfirvöldum, víðast hvar í hinum vestræna heimi, verið falin sérstök úrræði til að afstýra hryðjuverkum og öðrum brotum gegn öryggi viðkomandi ríkja.

Löggæsla nú á tíðum snýr því ekki síst að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingaöflunar og greiningar upplýsinga. Breytt afbrotamynstur og útbreiðsla skipulagðrar brotastarfsemi á milli landa krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Með frumvarpi þessu er því lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig leitast við að fyrirbyggja að framin séu alvarleg afbrot.

Frumvarpinu er ætlað að skerpa á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í því skyni að draga úr brotastarfsemi en núgildandi heimildir byggja öðru fremur á almennum ákvæðum lögreglulaga auk ákvæða í sérlögum. Annars vegar er mælt fyrir um heimild lögreglu til að afla upplýsinga í þágu afbrotvarna við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi. Hins vegar er lögreglu veitt heimild til að viðhafa sérstakt eftirlit á almannafæri með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulögð brotasamtök eða sem af kann að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi.

Í frumvarpinu er kveðið á um afar takmarkaða heimild lögreglu til að grípa til beitingu þvingunarúrræða í afbrotavarnaskyni. Nánar tiltekið verður lögreglu heimilt að krefjast dómsúrskurðar um haldlagningu og öflun gagna sem eru í vörslum þriðja aðila í því skyni að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi og brot gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga.

Með frumvarpinu er einnig skýrri lagastoð skotið undir núverandi greiningarstarf lögreglu sem fram fer í afbrotavarnaskyni sem og að grundvöllur er lagður fyrir innleiðingu á svonefndri upplýsingamiðaðri löggæslu (e. Intelligence Led Policing).

Í ljósi þess að frumvarpið mælir fyrir um tilteknar aðgerðir og heimildir til handa lögreglu sem kunna að skerða stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs var sérstök hliðsjón höfð af ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í samræmi við skilyrði þeirra er frumvarp þetta samið til að skýra heimildir lögreglu á grundvelli lögreglulaga til að hafa afskipti af borgurunum í því skyni að koma í veg fyrir afbrot. Hugað var sérstaklega að því að slíkar heimildir verði að vera skýrt afmarkaðar og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er.

Frumvarpinu er einnig ætlað að efla eftirlit með lögreglu. Annars vegar er mælt fyrir um að embætti ríkislögreglustjóra skuli starfrækja innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu og að ráðherra skuli skipa gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn. Hins vegar er nefnd um eftirlit með lögreglu efld til muna með því að fjölga nefndarmönnum úr þremur í fimm og kveða á um að formaður nefndarinnar skuli vera embættismaður í fullu starfi, auk þess sem nefndinni er falið að hafa sérstakt eftirlit með aðgerðum lögreglu í þágu afbrotavarna. Þá skal nefndin senda Alþingi skýrslu á hverju ári um eftirlit hennar með umræddum aðgerðum.

Frumvarpið er komið í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 13. nóvember 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta