Samstarfssamningur ráðuneytis og UN Women undirritaður
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra landsnefndar UN Women undirrituðu í dag samstarfssamning ráðuneytisins við landsnefndina fyrir 2013 – 2015. Utanríkisráðuneytið og UN Women hafa um árabil átt farsælt samstarf og frá árinu 2007 hefur samstarfið verið formgert með samningi. Framlög til landsnefndarinnar samkvæmt samstarfssamningnum munu nema samtals 26,5 m.kr. á gildistímanum, með fyrirvara um fjárveitingu samkvæmt fjárlögum.
Markmið samningsins er að efla kynningu á hlutverki og starfsemi UN Women og auka samvinnu utanríkisráðuneytisins við landsnefndina. Landsnefndin hefur veitt ráðuneytinu ráðgjöf og umsögn vegna málefna á fjölþjóðlegum vettvangi hvað varðar kynjajafnréttismál. Ennfremur hefur landsnefndin veitt öllu útsendu starfsfólki á vegum Íslensku friðargæslunnar fræðslu um jafnréttismál og framkvæmd ályktunar 1325 um konur, frið og öryggi áður en það hverfur til starfa á vettvangi.
Starf Landsnefndar UN Women á Íslandi er öflugt, en landsnefndin gegnir lykilhlutverki í að sinna upplýsingastarfi til almennings á Íslandi um kynjajafnrétti og réttindabaráttu kvenna í þróunarlöndum. Fjáröflun landsnefndarinnar er ekki síst mikilvæg, en árlega sendir landsnefndin rausnarleg framlög í Styrktarsjóð Sameinuðu Þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum.
Í utanríkisstefnu Íslands er lögð rík áhersla á kynjajafnrétti og er jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna áhersluatriði í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Í þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnuáætlun Íslands 2011-2014, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2011, er UN Women skilgreind sem ein af lykilstofnunum í þróunarsamvinnu Íslands og er þar kveðið á um samstarf við landsnefndina.