Óbreyttar reglur um takmarkanir á samkomum vegna COVID-19 til 18. ágúst
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja núgildandi auglýsingu um takmörkun á samkomum til 18. ágúst. Fjöldatakmörk á samkomum miðast því áfram við 500 manns. Opnunartími spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi verður einnig óbreyttur og heimilt að hafa opið til 23.00 á kvöldin.
Í ljósi þess að á undanförnum dögum hafa innflutt smit greinst hér í vaxandi mæli og dreifing á COVID-19 sjúkdómnum hefur orðið innanlands telur sóttvarnalæknir að fara þurfi með gát varðandi tilslakanir á fjöldatakmörkum og opnunartíma skemmti- og vínveitingastaða.
Heilbrigðisráðherra hefur sem fyrr segir fallist á tillögu sóttvarnalæknis og verður framlenging á núverandi auglýsingu birt á næstu dögum í Stjórnartíðindum og mun hún gilda til 18. ágúst nk.
Minnisblað sóttvarnalæknis dags. 27. júlí 2020.pdf