Umhverfis- og auðlindaráðherra á ferð um Vestfirði
Þriggja daga ferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um Vestfirði hófst í dag. Í ferðinni hittir ráðherra m.a. fulltrúa sveitarstjórna, atvinnulífs, umhverfisverndarsamtaka, starfsmenn stofnana og heimafólk.
Ráðherra vill með heimsókninni kynna sér þau mál sem eru í deiglunni á landssvæðinu er tengjast málefnasviðum umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Má þar nefna skipulagsmál, raforkuöryggismál, náttúruvernd, samgöngumál, fiskeldi og fleira.
Ferðina hóf ráðherra í dag á Bíldudal þar sem hann kynnti sér fiskeldismál áður en hann fundaði á Patreksfirði með sveitarstjórnarfulltrúum frá Vesturbyggð og Tálknafirði.
Auk ofangreindra staða mun ráðherra hafa viðkomu í Reykhólasveit, Ísafirði og á Bolungarvík en á þessum stöðum fundar hann með fólki víðar af Vestfjörðum. Að auki mun hann eiga fjarfund með sveitarstjórnarfólki í Árneshreppi.