Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 116/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 20. júní 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 116/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun hefði hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. mars 2013 en á þeim tíma hefði kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann fékk ofgreitt vegna tekna. Vinnumálastofnun fór fram á að kærandi endurgreiddi 263.151 kr. ásamt 15% álagi, alls 302.624 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 22. október 2013. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda líkt og honum hafi verið tilkynnt m með bréfinu, dags. 17. október 2013.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 29. nóvember 2012 og var skráður atvinnulaus hjá stofnuninni til 30. apríl 2013. Kærandi fékk þó ekki greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 29. nóvember 2012 til 5. janúar 2013 þar sem hann starfaði á vinnumarkaði þann tíma. Þá fékk kærandi engar atvinnuleysisbætur greiddar fyrir tímabilið 1. apríl til 31. apríl 2013 sökum þess að tekjur hans frá B skertu atvinnuleysisbætur hans að fullu, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Á tímabilinu 5. febrúar 2013 til 30. apríl 3013 var kærandi við störf hjá fyrrum vinnuveitanda sínum, B. Kærandi hafði þann háttinn á að tilkynna Vinnumálastofnun um hvern starfandi dag ásamt tekjum og í tilkynningu sinni tók kærandi fram að um væri að ræða hlutastarf. Tilkynningarnar voru yfirleitt gerðar samdægurs.

 Á fundi stofnunarinnar 8. maí 2013 var tekjuskráning kæranda tekin til nánari skoðunar og þar sem ekki þótti ljóst hvort hann hafði verið í fullu starfi samhliða atvinnuleysisbótum á tímabilinu 1. febrúar til 31. mars 2013 var honum sent bréf, dags. 14. júní 2013, af því tilefni. Þann 20. maí 2013 barst Vinnumálastofnun skýringabréf frá kæranda þar sem hann greindi meðal annars frá því að hann hafi tilkynnt stofnuninni um alla sína róðra með ágiskun um verðmæti. Mál kæranda var tekið fyrir á ný á fundi stofnunarinnar 4. júní 2013 og sú ákvörðun tekin að kærandi skyldi ekki sæta viðurlögum þar sem hann hafði tilkynnt stofnuninni um vinnu sína. Var kæranda tilkynnt um ákvörðun þessa með bréfi, dags. 11. júní 2013.

Sökum þess að kærandi hafði ekki skilað inn tekjuáætlun fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur á greiðslutímabilinu 1. febrúar til 31. mars 2013, samtals að fjárhæð 342.851 kr. að meðtöldu 15% álagi. Kærandi greiddi 40.228 kr. af skuld sinni með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var tilkynnt um skuldamyndunina með greiðsluseðlum og tilkynningum á „mínum síðum“ á vef Vinnumálastofnunar.

Í kæru, dags. 22. október 2013, kveðst kærandi hafa gert allt sem honum hafi verið sagt að gera. Þar af hafi hann verið látinn breyta vinnuhlutfalli úr 50% í 100%. Kveðst hafa verið í afleysingum en fengið meiri vinnu en hann hafi reiknað með og hafi hringt í Vinnumálastofnun til að athuga hvort hann ætti að afskrá sig en honum hafi verið sagt að gera það ekki. Telur kærandi mistökin vera Vinnumálastofnunar en ekki hans og finnst þetta ekki sanngjarnt. Bendir hann á að skoðuð séu samskiptin sem hann hafi átt við stofnunina sem eigi að vera til bæði í símaupptökum og tölvupóstsendingum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. janúar 2014, bendir stofnunin á að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. febrúar til 31. mars 2013. Í október 2013 var kæranda tilkynnt að hann skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem innheimtar yrðu skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Bendir Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012 þessu til stuðnings.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi starfað hjá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og aflað sér tekna að fjárhæð 706.679 kr. í febrúar 2013, 537.247 kr. í mars 2013 og 651.650 kr. í apríl 2013.

Tekjur umfram frítekjumark skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Sökum þess að kærandi hafði ekki skilað in tekjuáætlun til stofnunarinnar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar.

Í október 2013 var skuld kæranda enn ógreidd og var honum sent bréf þess efnis 17. október 2013 þar sem þess var farið á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins.

Þar sem skuld kæranda að fjárhæð 302.624 kr. ásamt 15% álagi sé enn ógreidd telur Vinnumálastofnun að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. janúar 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. febrúar 2014. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. febrúar til 31. mars 2013.

Fyrir liggur að á umræddu tímabili fékk kærandi greidd laun frá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafði upplýst um vinnu eins og honum bar skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, en hann hafði hins vegar ekki upplýst um hversu háar tekjur hann fengi heldur eingöngu áætlað tekjur út frá róðrum.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber hinum tryggða að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ef Vinnumálastofnun berast ekki þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæðinu, sem er svohljóðandi:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Kærandi fékk greiddar frá B í febrúar 706.679 kr., í mars 537.247 kr. og í apríl 651.650 kr. á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það.

Í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga atvinnuleysistryggingar var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað að fjárhæð 40.228 kr.

Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 342.851 kr. á tímabilinu 1. febrúar til 31. mars 2013 og greiddi hann 40.228 kr. af þeirri skuld með skuldajöfnun. Höfuðstóll skuldar kæranda er 263.151 kr. og álag sem Vinnumálastofnun gerði kæranda að greiða nam 39.473 kr. Hefur þessi útreikningur Vinnumálastofnunar ekki verið véfengdur. Verður ekki hjá því komist að staðfesta þann hluta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar sem lýtur að því að kærandi endurgreiði höfuðstól skulda sinnar enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði.

Kærandi upplýsti Vinnumálastofnun um störf sín hjá fyrrum vinnuveitanda sínum og um alla róðra með ágiskun um verðmæti. Samkvæmt gögnum málsins voru launagreiðslur kæranda hærri en áætlun sú sem hann lagði fram. Við greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda miðaði Vinnumálastofnun við áætlunina en ekki við greidd laun. Með vísan til framangreinds og lokamálsliðar 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þykir rétt að fella niður 15% álag að fjárhæð 39.473 kr., enda fylgdi hann öllum þeim reglum og tilmælum er stofnunin veitti honum varðandi tekjur sínar samhliða því að hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Kæranda ber samkvæmt framanskráðu að endurgreiða höfuðstól skuldarinnar að fjárhæð 263.151 kr.

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu á hendur A vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. mars 2013 varðandi endurgreiðslu skuldar hans að fjárhæð 263.151 er staðfest. Þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi greiði 15% álag á fjárhæðina 39.473 kr. er hrundið.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta