Mál nr. 131/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga ogvinnumarkaðsaðgerða 20. júní 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 131/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt á þeim. Hún hafi haft tekjur í júní 2013 án þess að hafa tilkynnt um slíkt til stofnunarinnar. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir júnímánuð 2013 að fjárhæð 19.397 kr. auk 15% álags eða samtals 22.307 kr.
Mál kæranda var tekið til meðferðar á ný í kjölfar beiðni kæranda þar að lútandi og með bréfi, dags. 11. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun henni að fyrri ákvörðun stofnunarinnar væri staðfest.
Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 26. október 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðunin verði ómerkt og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hinn kærða úrskurð.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. maí 2013. Kæranda var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2013, tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna stofnunarinnar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda í maí vegna vinnu hjá B. Óskað hafi verið eftir skriflegum skýringum á ótilkynntum tekjum. Skýringarbréf barst frá kæranda 18. ágúst 2013 þar sem hún greindi frá því að hún væri í ca 20% vinnu hjá B og að tekjur hennar vegna starfsins ættu að vera leyfilegar samhliða atvinnuleysisbótum. Hún hafi talið að Vinnumálastofnun fengi upplýsingar um tekjur hennar sjálfkrafa og að þær skiptu ekki máli þar sem þær hafi verið undir frítekjumörkum. Með bréfi sínu sendi kærandi launaseðla frá B, dags. 30. júní, 31. júlí og 31. ágúst 2013.
Kærandi kom á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 4. október 2013 vegna viðurlagaákvörðunarinnar frá 26. september 2013. Í málinu er bréf frá B, dags. 2. október 2013, en þar kemur fram að kærandi hafi unnið þar í u.þ.b. 33 klukkustundir á mánuði síðan í maí 2013. Vegna sumarfría hjá launafulltrúanum hafi láðst að reikna henni laun í maí þannig að þau laun hafi verið sameinuð á einn launaseðil í júní. Síðan þá hafi hún unnið u.þ.b. 33 klukkustundir á mánuði sem teljist innan 20% marka.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi unnið á meðan hún fékk atvinnuleysisbætur upp að þeim tekjumörkum sem leyfð séu. Einu mistök hennar hafi verið þau að hún hafi ekki tilkynnt það formlega að hún væri í leyfilegri vinnu samhliða töku atvinnuleysisbóta. Hún hafi ekki hugsað út í það þar sem það hafi ekki átt að hafa nein áhrif á bæturnar. Kærandi segir að einu tekjurnar sem hún hafi nú séu úr B en það sé um 20% vinna. Hún eigi ekki rétt á bótum frá Félagsþjónustunni og hún sé komin rúma sjö mánuði á leið á meðgöngu. Hún eigi engan möguleika á að finna sér aðra eða meiri vinnu og henni finnist þetta vera mjög ósanngjarn úrskurður.
Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta lúti að ákvörðunum Vinnumálastofnunar sem tilkynntar hafi verið með bréfum, dags. 27. september og 11. október 2013, þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi henni einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun vísar til 60. gr. laganna og bendir á að annar málsliður þeirrar lagagreinar taki á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.
Vinnumálastofnun bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með tekjur frá B í júní 2013. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um vinnu sína eða tekjur. Í rökstuðningi fyrir kæru greini kærandi frá því að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún yrði að gera stofnuninni grein fyrir tekjum sem væru undir frítekjumarki atvinnuleysisbóta.
Fram kemur að Vinnumálastofnun telji að kærandi geti ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögunum þar sem víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur komi fram á starfsleitarfundum stofnunarinnar og liggi meðal annars fyrir á heimasíðu hennar. Þá sé það mat Vinnumálastofnunar að ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveði á um frádrátt vegna tekna bótaþega, nema tekjur fari yfir 52.000 kr. á mánuði (nú 59.047 kr.), verði ekki túlkuð á þann veg að ekki þurfi að tilkynna um tilfallandi vinnu nema laun fyrir hana fari upp fyrir áðurnefnt frítekjumark. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni fyrirfram um störf sín fyrir B. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til Vinnumálastofnunar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.
Kæranda beri einnig að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 22.307 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. febrúar 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Þessi síðari málsliður á við í máli þessu.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi starfaði í verslun á sama tíma og hún þáði greiðslu atvinnuleysistrygginga. Hún veitti Vinnumálastofnun ekki upplýsingar um þessa atvinnuþátttöku. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að hún hefði ráðið sig í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá er ákvæði 60. gr. laganna fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.
Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þau tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og nemur sú fjárhæð samtals 22.307 kr. en innifalið í þeirri fjárhæð er 15% álag.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. september 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.
Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 22.307 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson