Ísland og Japan taka við keflinu: vísindamálaráðherrar funda í Tókýó 2020
„Samvinna er lykillinn að árangri, í ljósi sameiginlegra áskorana okkar vegna örra loftslagsbreytinga á norðurslóðum eykst mikilvægi samtalsins milli vísindasamfélagsins og stjórnvalda. Alþjóðlegir fundir vísindamálaráðherra eru vettvangur fyrir okkur til þess að miðla þekkingu, ræða aðgerðir og ekki síst forgangsraða verkefnum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í ræðu sinni á Hringborði norðursins í dag.
Ísland og Japan munu standa sameiginlega að næsta alþjóðlega fundi vísindamálaráðherra í Tókýó á næsta ári og tóku þjóðirnar formlega við gestgjafahlutverki sínu í dag. Sá fundur verður sá þriðji í fundaröð sem hófst árið 2016 í Washington, D.C. Lögð verður mikil áhersla á að virkja vísindasamfélagið og íbúa á norðurslóðum í aðdraganda fundarins til að fá fram þeirra sýn og sjónarmið. „Samvinna, þátttaka, gagnsæi og nýsköpun eru mikilvæg leiðarljós í þessari vinnu. Við erum þakklát fyrir það góða samband sem er milli Íslands og Japan. Sem eyjaþjóðir deilum við meðal annars áhyggjum af heilbrigði og lífsþrótti sjávar. Sameiginlega fleti má einnig finna í áherslum ríkjanna á umhverfisvernd og sjálfbærni. Við finnum þegar fyrir miklum áhuga á ráðherrafundinum og trúum því að hann verði mikilvægur vettvangur fyrir leiðtoga, bæði á hinum pólitíska sviði og innan vísindasamfélagsins,“ segir mennta- og menningarmálaráðherra.
Hægt er að taka þátt og kynna sér verkefnið nánar á vefnum asm3.org.