nr. 551/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 21. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 551/2019
í stjórnsýslumálum nr. KNU19100082 og KNU19100083
Beiðni [...], [...] og barns þeirra
um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 14. ágúst 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2019, um að taka umsóknir [...], fd. [...], og [...], fd. [...] (hér eftir kærendur), og barns þeirra, [...], fd. [...], sem öll eru ríkisborgarar [...], um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda þau til Frakklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 19. ágúst 2019. Kærendur óskuðu eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 26. ágúst 2019. Beiðni kærenda var synjað af kærunefnd þann 11. september 2019. Þann 29. október 2019 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kærenda. Þann 4. nóvember sl. barst kærunefnd greinargerð kærenda ásamt fylgiskjölum. Dagana 6. og 7. nóvember 2019 bárust kærunefnd jafnframt umbeðnar upplýsingar frá Stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kærenda.
Krafa kærenda um endurupptöku máls þeirra er aðallega byggð á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að mál þeirra verði tekið til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).
Þá krefjast kærendur þess til vara að kærunefnd fresti réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga þar sem kærendur hyggjast bera mál sitt undir dómstóla.
Að lokum krefjast kærendur þess að í öllum tilfellum fresti kærunefnd framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar þar til endanleg niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir vegna beiðni þeirra um endurupptöku mála sinna og frestun á réttaráhrifum.
II. Málsástæður og rök kærenda
Í sameiginlegri greinargerð kærenda er m.a. vísað til þess að kærendur byggi beiðni sína um endurupptöku málsins á því að þau hafi sótt um alþjóðlega vernd þann 18. október 2018 og hafi verið frá þeim tíma með mál til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Þau hafi því dvalið hérlendis vegna málsmeðferðar stjórnvalda í meira en 12 mánuði og því skuli beita 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en þar komi m.a. fram að ef meira en 12 mánuðir hafi liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnislegrar meðferðar. Þá vísa kærendur einnig til yfirlýsingar á vefsíðu Útlendingastofnunar frá 30. maí 2018 þess efnis að beiðni um endurupptöku fresti ekki réttaráhrifum úrskurðar Útlendingastofnunar. Hins vegar geti umsækjandi um alþjóðlega vernd óskað eftir því við kærunefnd útlendingamála að málið verði endurupptekið hafi framkvæmd flutnings úr landi ekki farið fram innan tólf mánaða. Kærunefnd geti þá fallist á að fresta framkvæmd á flutningi telji hún verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Loks vísa kærendur, máli sínu til stuðnings, til þess að sambærileg mál hafi verið endurupptekin með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem framkvæmd á flutningi hafi ekki átt sér stað innan 12 mánaða frá umsóknardegi. Krefjast kærendur þess að mál þeirra fái sambærilega afgreiðslu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá telja kærendur ljóst að það verði ekki talið á þeirra ábyrgð að afgreiðsla á málum þeirra hafi tekið 12 mánuði og að framkvæmd á flutningi þeirra hafi ekki átt sér stað innan 12 mánaða frá því að umsóknir þeirra voru lagðar fram.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Frá gildistöku laga nr. 80/2016 hefur framkvæmd kærunefndar útlendingamála á ákvæðinu verið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis.
Framkvæmd kærunefndar á 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, að því er varðar lok 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í ákvæðinu, hefur verið óbreytt frá gildistöku laga nr. 80/2016 en sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri lögum. Í fyrstu úrskurðum nefndarinnar þar sem reyndi á ákvæðið, nr. 43/2017, 45/2017, 47/2017 og 49/2017 frá 26. janúar 2017, var niðurstaða nefndarinnar að 12 mánaða frestur skv. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna byrji að telja þegar kærandi sæki um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til flutningur kæranda til endursendingarlands hefur farið fram enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.
Frá því að úrskurðirnir voru kveðnir upp hefur aftur á móti orðið ákveðin þróun sem nær til túlkunar og framkvæmdar á ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 237/2019 frá 9. maí 2019 var m.a. vísað til dóma Evrópudómstólsins í málum C-201/16 Shiri frá 25. október 2017 og C-163/17 Jawo frá 19. mars 2019 varðandi túlkun á 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Var niðurstaða nefndarinnar sú að frestur skv. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar til að flytja kæranda til viðtökuríkis væri runninn út. Var því ekki heimilt að krefja annað ríki um viðtöku kæranda og c-liður 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki uppfylltur.
Í ljósi þessara breytinga er það mat kærunefndar útlendingamála að sú forsenda sem var byggt á við upphaf framkvæmdar nefndarinnar á 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, að því er varðar Dyflinnarsamstarfið, sé ekki lengur til staðar. Í því ljósi, og að öðru leyti með vísan til reynslu af framkvæmd þessara mála og annarra ytri aðstæðna í starfi nefndarinnar, telur kærunefnd útlendingamála að lok tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli vera þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd, enda er ljóst að sú framkvæmd rúmast innan orðalags ákvæðisins. Kærunefnd telur að þessi breytta framkvæmd eigi við um þau mál sem falla undir a-, b-, og c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda gerir 2. mgr. 36. gr. laganna ekki greinarmun á þessum flokkum mála og mismunur á framkvæmd að þessu leyti fær ekki stoð í öðrum ákvæðum laga um útlendinga.
Þar sem um er að ræða breytta stjórnsýsluframkvæmd sem kærendum hefur ekki formlega verið leiðbeint um telur kærunefnd þó rétt að kærendur fái að njóta hagræðis af fyrri túlkun nefndarinnar á umræddum frestum. Samkvæmt gögnum málsins sóttu kærendur um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 18. október 2018 og hafa þau ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsóknir kærenda bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum. Af þeim upplýsingum sem bárust kærunefnd frá Stoðdeild ríkislögreglustjóra þann 6. nóvember sl. og frá Útlendingastofnun þann 7. nóvember sl., varðandi tafir á málsmeðferð og flutningi kærenda, verður ekki ráðið að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi verið af völdum kærenda. Að auki hefur kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð í málum kærenda og er að mati nefndarinnar ekkert í málinu sem bendir til þess að kærendur verði taldir bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kærenda hér á landi síðan kærendur lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd, þann 18. október 2018, er fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kærenda á þann hátt að þau eigi rétt á endurupptöku mála sinna sem endaði með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 386/2019, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kærenda. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til efnismeðferðar.
Úrskurðarorð
Fallist er á beiðni kærenda á endurupptöku á málum þeirra.
Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til efnismeðferðar.
The appellants requests for re-examination of their case is granted.The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applicants application for international protection in Iceland.
Áslaug Magnúsdóttir
Árni Helgason Þorbjörg Inga Jónsdóttir